Augnsýking – hvað er til ráða?

Kvefi og önd­un­ar­færa­sýk­ing­um fylg­ir oft roði í aug­um eða auga og stund­um veru­leg­ur gröft­ur sem lek­ur úr aug­un­um (Óskar Reykdalsson, 2019). Bólgur og roði í augum eru algeng einkenni. Oftast er um að ræða veirusýkingar sem fylgja gjarnan kvefi (Heilsuvera.is, e.d.).

  • Sýking af völdum baktería: Bólga í auga af völdum bakteríusýkingar lýsir sér í greftri í öðru eða jafnvel báðum augum. Sýkingin kemur þó yfirleitt fyrst í annað augað. Augað verður rautt, sérstaklega undir neðra augnloki. Augnlokin klístrast saman, sérstaklega eftir svefn og skorpur geta myndast í augnhvörmum. Þessu getur einnig fylgt sviði og óþægindi (doktor.is, e.d.).
  • Ofnæmisviðbrögð líkamans: Bólga í auga af völdum ofnæmis lýsir sér í kláða en einnig sviða og aðskotahlutstilfinningu. Ef sjúkdómurinn versnar, t.d. með meiri graftarmyndun, miklum óþægindum í birtu, verkjum eða skerðingu á sjón ber að hafa samband við lækni. Það á einnig við þrátt fyrir að sjúklingurinn sé í meðferð (doktor.is, e.d.).
  • Erting eða aðskotahlutur hefur komið í augað

Hér eru nokkur heimaráð:

  • Haltu svæðinu í kringum augun hreinu. Þvoðu með volgu, jafnvel soðnu vatni og bómull eða mjúkum bómullarklút og hreinsaðu gröft og klístur af augnlokum.
  • Brjóstamjólk í bómullarskífu hreinsar vel augnsvæðið og hefur reynst vel. Hún er afar mild og ertir ekki augun.
  • Táravökvi eða saltvatnsdropar sem fá má án lyfseðils í apótekum hjálpar. Þeir innihalda sýkladrepandi og heftandi efni.
  • Augnsýking getur smitast á milli augnanna, yfirleitt þegar augun eru nudduð.Flestar augnsýkingar berast í augun með höndunum. Því er góður handþvottur mjög mikilvægur til að koma í veg fyrir augnsýkingar. Þvoið hendur reglulega með sápu og reyndu að forðast að láta barnið nudda augun.
  • Mælt er með því að þvo koddaver og þvottastykki úr heitu sápuvatni og forðast að láta aðra nota sömu handklæði og koddaver.
  • Gott getur verið að setja bakstur, kaldan eða heitan, á augun ef því klæjar.

Oftast lagast bólgur og roði í augum af sjálfu sér en í sumum tilvikum þarf að leita til læknis (Heilsuvera.is, e.d.).

Ef að sýkingin hefur varað í meira en viku og ef barnið er undir tveggja ára er ráð að leita til læknis. Læknirinn byggir greininguna á sjúkdómseinkennunum og tekur jafnvel sýni úr auganu. Erfitt getur verið að greina á milli bólgu í auga af völdum bakteríusýkingar og bólgu í auga af völdum veirusýkingar. Við væga bólgu hverfa einkennin eftir 2-3 daga meðferð. Bólga af völdum veirusýkingar getur þó varað lengur. Meðferðin ákvarðast af eðli einkennanna en oftast lagast augnsýkingar af sjálfu sér og ekki þörf á meðferð annarri en þeirra ráða sem er getið í heimaráðunum. En þurfi meðferð með lyfjum er oftast um að ræða augndropa eða krem sem borið er í auga eða augu.

Mikilvægt er að henda bakteríudrepandi augnlyfjum þegar meðferð er hætt og ekki endurnýta.

HEIMILDASKRÁ

Augnsýkingar sem oftast læknast mjög auðveldlega. Óskar Reykdalsson heimilislæknir og settur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu (mars, 2019). Sótt af https://www.heilsugaeslan.is/um-hh/frettasafn/stok-frett/2019/03/25/Augnsykingar-sem-oftast-laeknast-mjog-audveldlega-/

Heilsuvera.is (e.d.). Augnbólgur og roði í augum. Sótt af https://www.heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-fravik-einkenni/augnbolgur-og-rodi-i-augum/

Doktor.is (e.d.). Slímhimnubólga í auga. Sótt af https://doktor.frettabladid.is/sjukdomur/slimhimnubolga-i-auga

Svipaðar færslur