Barnaexem – orsakir, einkenni og meðferð

Orsakir barnaexems eru óþekktar en flókið samspil erfða og umhverfis spilar þar inn í. Erfðirnar skipta máli hjá stórum hluta þeirra sem fá exem. Um 2/3 þeirra sem fá exem hafa fjölskyldusögu um astma, ofnæmiskvef og exem (Landlaeknir.is, e.d.). Fyrstu merki um exem geta komið fram jafnvel þegar barnið er 6-8 vikna gamalt.

Exem er langvinnur bólgusjúkdómur í húðinni sem skiptist í mismunandi stig eftir hversu slæmur hann er. Flest börn hafa vægan – meðalslæman sjúkdóm en 2-5 % hafa slæmt exem sem er erfiðara viðureignar. Exemhúð nær ekki að verjast bakeríum og veirum eins vel og heilbrigð húð þar sem hornlagið hefur ekki sömu fitusýrusamsetningu og heilbrigð húð og er því þurrari en ella (Landlaeknir.is, e.d.).

Einkenni

Einkennin fara eftir því hve slæmur sjúkdómurinn er. Þeir einstaklingar sem eru með sjúkdóminn á lágu stigi fá væg einkenni svo sem litla þurrkbletti og kláða af og til. Oftast sjást þessir þurrkublettir í húðfellingum eða á bakvið eyru, í olnboga- og hnésbótum, hálsakoti og á kinnum (webmd.com, e.d.).

Hjá þeim sem þjást af honum á háu stigi geta áhrifin verið að húðin er undirlögð af þurrkblettum, í hana klæjar stöðugt og úr henni vessar. Einnig geta myndast sprungur í húð og roði. Þörfin til að klóra sér getur truflað svefn og eins haft þær afleiðingar að blæði úr húðinni. Það getur líka gert illt verra að klóra sér og vítahringur skapast þar sem kláðinn getur aukist. Hjá börnum getur þetta haft þær afleiðingar að þau fá ekki nægan svefn og eiga erfitt með að einbeita sér á daginn við leik og störf (Visindavefur.is, e.d.).

Exem og fæðuofnæmi

Þegar börn eru kynnt fyrir fæðu getur exem blossað upp. Helst er hægt að rekja tengsl á milli exems og fæðuofnæmis hjá yngri börnum sem eru með útbreitt exem er lætur illa undan meðferð. Ef grunur vaknar um fæðuofnæmi þarf að rannsaka það nánar með viðeigandi hætti hjá ofnæmislækni. Þó getur verið erfitt að staðfesta tengsl fæðu við versnun á exemi með prófum. Þá getur verið snjallt að foreldrarnir kortleggi exemið í dagbók hvort það fari versnandi eftir að barnið hefur neytt einhverjar fæðu. Ofnæmi fyrir mjólk og eggjum er algengast hjá yngstu börnunum, síðan kemur ofnæmi fyrir fiski, hveiti og hnetum. Barnið fer þá á fæði án viðeigandi fæðutegundar (gildir einnig um móðurina, ef barnið er á brjósti), og kemur þá í ljós hversu mikið viðkomandi fæða hefur spilað inn í virkni exemsins (Landlaeknir.is, e.d.).

Meðferð

Að halda húðinni rakri og mjúkri er mikilvægasta meðferðin. Það getur dregið úr kláða og óþægindum. Mælt er með því að nota mild krem sem eru án ilmefna en misjafnt er hvaða krem hentar hverju barni en oftast nær eru það feit og drjúg krem sem veita langvarandi raka. Um að gera að prófa sig áfram og ef exemið er mjög slæmt að fylgja leiðbeiningum ofnæmislæknis um val á kremi. Stundum þarf að bera kremið á oftar en einusinni á dag og þá er ráðlagt að hafa eina auka túpu af kreminu í daggæslu barnsins.

Oft þarf nauðsynlega að nota sterakrem sem vinna á exeminu ef ekkert annað dugar til. Læknir ákveður styrkleika lyfjakremsins og hversu lengi er þörf á því. Hafa ber í huga að þau eru enn í dag aðalmeðferðarúrræðið og ef þessi krem eru notuð á réttan hátt og samkvæmt fyrirmælum læknis eru líkur á aukaverkunum hverfandi. Ef illa gengur að meðhöndla exemið, það fer versnandi eða breiðist út er rétt að vísa barninu til frekari meðferðar hjá húð- eða ofnæmislækni.

Fyrir nánari upplýsingar mælum við með heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-fravik-einkenni/exem

Við mælum með því að innleiða notalega stund fyrir nætursvefninn með að stilla lýsingu herbergisins, setja á notalega, ljúfa tónlist og að nudda barnið með kreminu sínu.

  • Einnig getur verið gott að nota mild þvottaefni og sleppa mýkingarefnum.
  • Reyna að forðast að nota ilmvötn, krem á ykkur sjálf með ilmefnum og sterk hreinsiefni í umhverfi barnsins.
  • Hafa frekar svalt í herberginu því ef barninu er of heitt og svitnar þá getur þá aukið á óþægindin.
  • Þvo ávallt ný föt fyrir fyrstu notkun.
  • Passa uppá að neglur barnsins séu vel snyrtar ef það klórar sér til að forðast að það klóri sér til blóðs.
  • Hafa barnið í þægilegum fötum og forðast efni eins og stingandi ull eða gerviefni.
  • Hafa baðvatnið ekki of heitt og þerra það mjúklega eftir baðferðina.

Heimildaskrá


Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.

Svipaðar færslur