Hvernig á að sækja um fæðingarorlof

Fæðingarorlof er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára og töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu (vinnumalastofnun.is, e.d.).

Þann 18. desember 2020 samþykkti Alþingi frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs. Frá 1. janúar 2021 lengdist fæðingarorlof úr tíu mánuðum í tólf vegna þeirra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá 1. janúar 2021.

Ef þú ert foreldri í meira en 25% starfi áttu rétt á launuðu fæðingarorlofi í 6 mánuði. Greiðslur eru tekjutengdar og nema 80% af meðaltali heildarlauna, að hámarki 600.000 kr. á mánuði. Áætla má fæðingarorlofsgreiðslu með reiknivél á vef Vinnumálastofnunnar. Sjá hér.

Fyrir marga er flókið að átta sig á umfanginu við að sækja um fæðingarorlof eða fæðingarstyrk. Við höfum tekið saman helstu upplýsingar, eyðublöð, reglur og stillt því upp á skilvirkan hátt.

Fæðingarorlof – Mikilvægir punktar

  • Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig er 6 mánuðir, heimilt er að framselja allt að 6 vikur til hins foreldris. Heildarréttur er því 12 mánuðir.
  • Einhleyp móðir sem gengist hefur undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur frumættleitt barn eða tekið í varanlegt fóstur öðlast rétt til fæðingarorlofs í 12 mánuði. Nánar má lesa hér.
  • Greitt er eftir á fyrir undanfarandi mánuð, sem dæmi er greiðsla fyrir apríl greiddur í lok apríl.
  • Foreldri á alltaf rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.
  • Með samkomulagi við vinnuveitanda er foreldri heimilt að skipta fæðingarorlofinu á fleiri tímabil og/eða dreifa því yfir lengra tímabil samhliða lækkuðu starfshlutfalli.
  • Hægt er að gera breytingu á áður tilkynntu fæðingarorlofi með því að senda eyðublaðið, breyting og/eða nýtt tímabil á tilhögun fæðingarorlofs (hér). Eyðublaðið þarf að vera undirritað af þér og vinnuveitanda.
  • Ekki er hægt að taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn.
  • Móðir skal vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.
  • Hægt er að hefja töku fæðingarorlofs allt að mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns.
  • Réttur til töku fæðingarorlofs fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.
  • Skila þarf umsókn og fylgigögnum 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann dag sem fæðingarorlof á að hefjast.
  • Skila þarf tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs til vinnuveitanda a.m.k. 8 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann dag sem fæðingarorlof á að hefjast.

NÝTT – STAFRÆN UMSÓKN

Ný stafræn umsókn um fæðingarorlof er komið í gagnið hjá island.is í samstarfi við Vinnumálastofnun. Foreldrar geta sótt um fæðingarorlof stafrænt á einfaldan og notendavænan hátt. Ferlið sækir sjálfkrafa þau gögn sem þurfa að fylgja umsókninni og sendir áfram til maka og atvinnurekanda til samþykktar, ef við á. Flest allir ættu að geta nýtt sér umsóknarferlið en það styður t.d. umsóknir foreldra í námi, vegna fjölburafæðinga, ættleiðinga og svo mætti lengi telja. Að auki getur barnshafandi foreldri, sem vegna sérstakra aðstæðna þarf að dvelja fjarri heimili sínu fyrir fæðingu, átt kost á að sækja um dvalarstyrk (island.is, e.d.).

Athugið að barnshafandi foreldri þarf að klára stafræna umsókn á undan maka. Nánar á island.is/faedingarorlof

Gögn sem þurfa að berast Fæðingarorlofssjóði

  • Umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði
  • Tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs
  • Afrit af launaseðlum síðustu tveggja mánaða.
  • Vottorð um áætlaðan fæðingardag, ef við á. (Fæst hjá ljósmóður). Einnig er hægt að nálgast vottorð á heilsuvera.is.
  • Sjálfstætt starfandi foreldri þarf að skila staðfestingu á lækkun á reiknuðu endurgjaldi, ef við á (Eyðublað 5.02 hjá Skattinum, sjá hér)
  • Vilji foreldri nýta persónuafslátt hjá Fæðingarorlofssjóði þarf eyðublaðið „Beiðni um nýtingu persónuafsláttar“ að berast í síðasta lagi 20. dag þess mánaðar sem nýta skal afsláttinn.
  • Staðfesting á að foreldri hafi farið eitt í tæknifrjóvgun, ættleitt eða tekið barn í varanlegt fóstur.

Umsóknir er að finna hér fyrir neðan og á vinnumalastofnun.is/faedingarorlofssjodur/umsoknir

Vinnsla umsókna

Vinnsla umsókna tekur að jafnaði 2-5 vikur hjá Fæðingarorlofssjóði. Þegar vinnsla umsóknar hefst fær foreldri sent bréf um það. Ef allar upplýsingar liggja fyrir fær foreldri senda greiðsluáætlun eða réttindabréf ef það ætlar að hefja töku fæðingarorlofs á fæðingardegi barns og fæðingardagur liggur ekki fyrir. Ef frekari upplýsingar vantar fær foreldri sent bréf um það.

Mælt er með því að nota rafrænt form á heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs í umsóknarferlinu. Hafir þú ekki tök á því er hægt að skila gögnum á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar, senda með bréfpósti á Fæðingarorlofssjóð, Standgötu 1, 530 Hvammstanga eða með tölvupósti á faedingarorlof@vmst.is. Athugið að læknisvottorðum verður að skila í frumriti í bréfpósti til Fæðingarorlofssjóðs.

Fæðingarstyrkur

Fæðingarstyrkur er annars vegar fyrir foreldra í fullu námi og foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Mikilvægir punktar:

  • Skila þarf umsókn og fylgigögnum 3 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann dag sem fæðingarstyrkur á að hefjast.
  • Skila þarf tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs til vinnuveitanda a.m.k. 8 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag eða þann dag sem fæðingarorlof á að hefjast ef foreldri er á vinnumarkaði.
  • Fæðingarstyrk þarf að taka í einu lagi, þ.e. almennt er ekki heimilt að skipta honum á fleiri tímabil eða dreifa greiðslum.
  • Heimilt er að hefja töku fæðingarstyrks í fæðingarmánuði barns.
  • Réttur til töku fæðingarstyrks fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.

Gögn sem þurfa að berast:

  • Umsókn um fæðingarstyrk (nánar hér)
  • Sjá nánar að ofan- gögn sem þurfa að berast vegna umsóknar um fæðingarorlof.

Úrvinnsla umsókna:

  • Vinnsla umsókna tekur að jafnaði 3 vikur hjá Fæðingarorlofssjóði.
  • Þegar vinnsla umsóknar hefst fær foreldri sent bréf um það. Ef allar upplýsingar liggja fyrir fær foreldri senda greiðsluáætlun eða réttindabréf ef ekki er víst að barn fæðist í þeim mánuði sem áætlað er að hefja töku fæðingarstyrks. Ef frekari upplýsingar vantar fær foreldri sent bréf um það.

Nánar má lesa um fæðingarorlof og fæðingarstyrki á vinnumalastofnun.is/faedingarorlofssjodur

Sum stéttarfélög bjóða félögum upp á fæðingarstyrki (athugið að staðgreiðsla er tekið af styrkjum en hver króna skiptir máli þegar von er á barni). Sjá nánari upplýsingar hjá hverju stéttarfélagi:

Lög um fæðingar- og foreldraorlof (2020 nr. 144 29. desember) er að finna hér.

Aðrir áhugaverðir linkar:

Heimildaskrá

Þessi síða var síðast uppfærð í apríl 2023.

Recommended Posts