Skip to content

AÐ FEÐRA BARN

Fyrir margar mæður er flókið að átta sig á umfanginu við að feðra barn. Við höfum tekið saman helstu upplýsingar, eyðublöð, reglur og stillt því upp á skilvirkan hátt.

Samkvæmt lögum á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína. Móðir ber því skylda að feðra barn sitt ef hún er hvorki í hjónabandi né skráðri sambúð. Viðmið sem móðir hefur til að feðra barn sitt frá fæðingu eru sex mánuðir. Hafi móðir ekkert gert í þessum málum mun sýslumaðurinn hafa samband til þess að gera ráðstafanir í þessum efnum.

Hvers vegna á að feðra barn?

Feðrun hefur meðal annars í för með sér:

  • Faðir getur farið með forsjá barns.
  • Faðir og barn eiga gagnkvæman umgengnisrétt.
  • Faðir er framfærsluskyldur gagnvart barni.
  • Faðir og barn taka arf eftir hvort annað.
  • Barn má bera nafn föður sem kenninafn (athugið að feðrun og kenninafn (eftirnafn) helst ekki í hendur. Barnið má því bera eftirnafn móður t.d. Önnuson eða Írisardóttir).

Ef móðir er hvorki í hjónabandi né sambúð við fæðingu barns verður að feðra það sérstaklega, kallað faðernisviðurkenning. Hvort sem þú veist hver barnsfaðir þinn er eða ekki (syslumenn.is, e.d.).

Barnið þitt er fætt og hvað er það fyrsta sem þarf að gera?

Helstu upplýsingar, ferli og annað sem þarf við “feðrun” er eftirfarandi:

  • Sækja um fæðingarvottorð barns.
    • Sótt er um fæðingarvottorð barns á thjodskra.is og kostar það 2.750.- kr. Sjá hér.
    • Athugið að ekki er hægt að gefa út fæðingarvottorð fyrir börn sem eru fædd erlendis. Í slíkum tilvikum þarf að hafa samband við þjónustuver hjá Þjóðskrá Íslands í síma 515-5300 eða í gegnum tölvupóst skra@skra.is.
  • Ef þú veist hver faðirinn er og hann vil ganga að því að feðra barnið þarf að fylla út eftirfarandi eyðublað hér. Skv. 4 gr. barnalaga þarf lýstur faðir að skrifa undir yfirlýsinguna í viðurvist tveggja votta, sem staðfesta það með undirritun sinni. Eigi foreldrar eða vottar ekki íslenska kennitölu þarf ljósrit af vegabréfi að fylgja með.

Gott að vita: 

  • Foreldrar þurfa að leita til sýslumanns vegna meðlags með barni. Nánar hér.
  • Tilkynna þarf nafn barns sérstaklega. Nánar hér.
  • Ef faðir er yngri en 18 ára þá þarf feðrun að fara fram hjá sýslumanni. 

Athugið ef móðir er skráð með óupplýsta hjúskaparstöðu í þjóðskrá er ekki hægt að skrá feðrun fyrr en hjúskaparstöðuvottorð hefur borist. Vottorðið kostar 2.750.- kr. Sjá hér.

  • Ef hinn lýsti barnsfaðir viðurkennir faðerni barnsins undirritar hann yfirlýsinguna í viðurvist sýslumanns. Að því búnu sendir sýslumaður Þjóðskrá tilkynningu um feðrunina og þú þarft ekki að gera neitt annað.
  • Lýstur faðir getur óskað eftir því að blóðrannsókn fari fram áður en hann undirritar faðernisviðurkenningu. Hann undirritar þá sérstaka yfirlýsingu.
  • Ef lýstur faðir viðurkennir ekki að vera faðir barns þarf að höfða faðernismál fyrir dómi.

Ef faðirinn vill ekki gangast að eiga barnið né fara í blóðrannsókn sjálfviljugur þá þarf að höfða dómsmál í nafni barns.

  • Ef barnið sjálft höfðar mál gerir lögráðamaður það fyrir þess hönd. Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði. Best er að hafa strax samband við lögfræðistofu sem mun sjá um allt ferlið fyrir þig. Lögfræðistofur sem hafa lögmenn sem sérhæfa sig í málum barna má finna hér.
  • Dómsuppkvæðning mun svo skipa föður í blóðrannsókn og í framhaldi er niðurstaða kveðinn upp þegar að því kemur. Lögfræðistofa sér um öll þessi mál og því þarf móðir aðeins að hafa samband við sinn lögfræðing varðandi gang mála.
  • Faðernismáli getur lokið með sátt móður og manns þess sem hún kenndi barnið eða með dómi. Dómari sendir Þjóðskrá upplýsingar um feðrun barns.

Ef í ljós kemur að meintur faðir er ekki faðir barns samkvæmt blóðrannsókn og móðir hefur ekki annan mann til að feðra barnið þá þarf að skrá barnið “ófeðrað” hjá sýslumanni.

  • Panta þarf tíma hjá fjölskyldudeild sýslumanns. Taka þarf með útprentun af dómsniðurstöðu eða senda í gegnum tölvupóst á viðkomandi ráðgjafa hjá sýslumanni. 
  • Eftir þennan fund gefur fjölskyldudeild sýslumanns út vottorð sem staðfestir að barn er ófeðrað.
  • Móðir getur í framhaldi sótt um barnalífeyri fyrir barnið sem greitt er í hverjum mánuði í stað meðlagsgreiðslu. 

Barnalífeyrir

  • Barnalífeyrir er greiddur ef barn er getið með tæknifrjóvgun. Staðfesting frá viðeigandi stofnun þarf að fylgja með umsókn.
  • TR greiðir barnalífeyri þegar staðfesting liggur fyrir um að barn verði ekki feðrað.
  • Barnalífeyrir er 39.696 kr. (frá 1. janúar 2022) á mánuði með hverju barni.
  • Best er að sækja um barnalífeyri á mínum síðum hjá Tryggingastofnun ef þú hefur tök á að skanna inn staðfestingaskjalið.
  • Nánar má lesa um barnalífeyri á tr.is/fjolskyldur/barnalifeyrir
  • Barnalífeyrir er ekki tekjutengdur og fellur ekki niður þó svo að lífeyrisgreiðslur falli niður vegna tekna.

Meðlag

Foreldrum barns ber skylda til þess að framfæra það. Með skyldu til framfærslu er átt við að foreldrum sé skylt að fæða og klæða barn og sjá því fyrir húsnæði, eða að leggja til fjárframlög í þessum tilgangi. Framfærslunni skal haga með hliðsjón af högum foreldranna og þörfum barnsins (Syslumenn.is, e.d.). Nánari upplýsingar hér

  • Framfærslunni skal haga með hliðsjón af högum foreldranna og þörfum barnsins.
  • Foreldrum er óheimilt að semja um lægra meðlag en sem nemur barnalífeyri Tryggingastofnunar ríkisins (1. janúar 2022 er barnalífeyrir 39.696 kr). Það kallast einfalt meðlag. Nálgast má upplýsingar um fjárhæð meðlags hverju sinni á vef Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Sjá hér

Ef aðrar spurningar vakna varðandi ferli þess að feðra barn er best að hafa samband við þjónustufulltrúa hjá Sýslumanni í þínu umdæmi, sjá hér

Umboð móður

Barn einhleyprar konu sem getið er með tæknifrjóvgun á Íslandi, skv. lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun o.fl. verður ekki feðrað skv. barnalögum. Í tilfellum sem þessum þarf móðir barnsins að leggja fram staðfestingu um tæknifrjóvgun innan 6 mánaða frá fæðingu barnsins. Umsóknareyðublað má nálgast hér. Ef staðfesting berst ekki innan tilskilins tíma þá tilkynnir Þjóðskrá Íslands sýslumanni um ófeðrað barn sbr. ákvæði barnalaga.

Í tilfellum þar sem móðir er gift eða í sambúð þarf að leggja fram skjal sem staðfestir að getnaður hafi farið fram skv. ákvæðum laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun o.fl. Vert er að undirstrika að ástæða þess að Þjóðskrá Íslands kallar eftir framangreindum upplýsingum er svo unnt sé að framfylgja barnalögum nr. 76/2003 um skráningu foreldra barns. Sömu reglur gila um barn sem getið er með tæknifrjóvgun erlendis. Umsóknareyðublað má finna hér.

Eignist kona, í hjónabandi eða skráðri sambúð, barn sem ekki er getið með tæknifrjóvgun skv. lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun o.fl. eða með tæknifrjóvgun erlendis, eiga almennar reglur barnalaga um faðerni við.

Hvenær þarf ekki sérstaklega að feðra barn (island, e.d.).:

  • Fæðist barn í hjónabandi móður, telst eiginmaður hennar faðir þess.
  • Fæðist barn stuttu eftir skilnað, telst fyrrverandi eiginmaður móður faðir þess.
  • Ef móðir er í skráðri sambúð við fæðingu barns með manni sem hún lýsir föður þess, telst hann faðir barnsins.
  • Ef móðir og sá sem hún hefur lýst föður skrá sig síðar í sambúð, telst hann faðir barnsins ef það er enn ófeðrað.
  • Kona sem elur barn, getið við tæknifrjóvgun, telst móðir þess.
  • Barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verður ekki feðrað.
  • Maður sem samþykkti tæknifrjóvgun eiginkonu sinnar eða skráðrar sambýliskonu telst faðir barns.
  • Kona sem samþykkti tæknifrjóvgun eiginkonu sinnar eða skráðrar sambýliskonu telst foreldri barns.
  • Maður sem gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun annarrar konu en eiginkonu eða sambýliskonu verður ekki dæmdur faðir barns.

HEIMILDASKRÁ

Þessi síða var síðast uppfærð í september 2022.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.