Skip to content

FYRSTI ÞRIÐJUNGUR

Frá byrjun meðgöngu og út þriðja mánuð (vika 0 – 12). 

Eflaust finnur þú nú þegar fyrir einkennum óléttunnar. Einkenni geta verið væg jafnt sem mikil. Mikilvægt er að vita að hvoru tveggja er fullkomlega eðlilegt. Líkaminn tekur miklum breytingum þótt þungunin sjáist ekki endilega á móðurinni.

Algengustu einkennin:

Blæðingar stöðvast

Hafa skal þó í huga að blæðingar geta átt sé stað þó að kona sé þunguð. Það þarf ekki endilega að þýða að eitthvað óeðlilegt sé að og dæmi eru um að konur hafi blæðingar í nokkur skipti þótt þær séu þungaðar. Líkami kvenna er svo misjafn. Það er góð regla að leita læknis og/eða ljósmóður til að ganga úr skugga að allt sé í lagi.

Þreyta

Oft algengasta einkennið sem konur finna fyrir. Mikilvægt er að hvíla sig og gefa sér rými til að hvílast. Miklar breytingar eru að eiga sér stað bæði líkamlega og andlega og það er fullkomlega eðlilegt að finna fyrir aukinni þreytu.

Eymsli í brjóstum

Hormónið progesterón fer hækkandi við þungun og veldur því að brjóstin eru aum og þung og að geirvörturnar verðz aumar og viðkvæmar. Konur finna einnig stundum fyrir kláða í brjóstum. Gott er að bera krem eða olíu á brjóstin og nudda þau létt. Núna er rétti tíminn til að finna þægilega brjóstarhaldara sem styðja vel við stækkandi brjóst.

Hreiðurblæðing

Þegar fóstrið er að koma sér fyrir i leginu getur orðið svokölluð hreiðurblæðing. Þetta gerist yfirleitt 10-14 dögum eftir getnað og er fullkomlega eðlilegt. Blæðingin getur verið allt frá blóðlituðu slími, brúnni útferð og allt að ferskri blæðingu. Ef blæðingunni fylgir mikill sársauki eða krampar er ráðlagt að hafa samband við lækni eða ljósmóður.

Skapsveiflur

Yfirþyrmandi tilfinningar geta fylgt því að komast að því að von sé á barni. Líkaminn er þegar farinn að breytast. Hugsanir koma upp um framtíðina sem og allskonar tilfinningar, góðar og slæmar. Einnig er eðlilegt að finna fyrir sorg, yfirþyrmandi gleði og allt þar á milli. Sumar konur upplifa það að fara að gráta upp úr þurru eða reiðast út af engri ástæðu. Allt þetta er eðlilegt og verður viðvarandi ástand út meðgönguna og sængurleguna. Mikilvægt er að ræða tilfinningar þínar við einhvern sem þú treystir og gefa sjálfri þér rými til að finna allt sem kemur þinn veg.

Ógleði og uppköst/morgunógleði

Án efa óvinsælasti kvilli meðgöngunnar. Þessi ógleði er oftast kölluð morgunógleði en getur átt sér stað hvenær sem er sólarhringsins. Algengt er að finna fyrir ógleði á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar en því miður getur það ástand verið viðvarandi út meðgönguna. Þessu geta fylgt mikil óþægindi sama hvort ógleðin sé mikil eða væg.

Mikilvægt er að huga að næringunni þó þar sé óhugsandi að láta eitthvað ofan í sig og leita læknis ef um mjög slæmt tilfelli er að ræða. Hægt er að lesa meira um ógleði á meðgöngu hér.

Uppþemba og vægt þyngdar tap

Hvort sem þú finnur fyrir ógleði og/eða aukinni matarlist þá gætir þú fundið breytingar á kviðnum. Hægðir geta orðið hægari eða meiri regla gæti komist á hægðirnar.

Breytingar sem verða á blóðrás konunnar á meðgöngu geta valdið því að hún finnur fyrir svima og örum hjartslætti. Blóðmagnið í líkama móðurinnar eykst, það veldur því að allar slímhúðir í líkamanum verða þrútnari og það getur blætt frá tannholdi og jafnvel fær konan blóðnasir af litlu tilefni.

Aðrir meðgöngukvillar sem kona getur upplifað á meðgöngunni:
 • Kláði / útbrot
 • Sveppasýking
 • Verkir í kvið/legi (svipaðir túrverkjum og egglosverkjum)
 • Bjúgur
 • Brjóstsviði
 • Hægðatregða
 • Óþægindi í baki, grind og nára
 • Sinadrættir
 • Útferð
 • Æðahnútar

Nánari upplýsingar um meðgöngukvilla má lesa á heilsuvera.is hér.

Fólinsýra

Fólat er B-vítamín, oft nefnt fólasín eða fólinsýra er sérstaklega mikilvægt fyrir konur á barneignaraldri og barnshafandi konum. Barnshafandi konum er ráðlagt að taka 400 míkrógramma (0,4 mg) fólattöflu daglega fyrstu tólf vikur meðgöngu. Að auki er ráðlagt að borða fólatríkt fæði sem viðbót við fólat Almennt er ekki er talin þörf á að taka önnur bætiefni á meðgöngu en fólinsýru og D-vítamín.

Í stuttu máli, ef þú ert barnshafandi og ekki nú þegar að taka fólattöflu daglega er gott að byrja að taka það inn sem fyrst. Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl lítillar inntöku fólats fyrir þungun og á fyrstu vikum meðgöngu og hættu á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fóstursins, s.s. klofnum hrygg, heilaleysi og vatnshöfði. Nánar má lesa um fólinsýru á brum.is/folinsyra-er-mikilvaeg-fyrir-barnshafandi-konur

Mæðravernd

Þjónusta mæðraverndar er ókeypis og verðandi mæður geta annaðhvort farið á heilsugæslustöð í sínu hverfi eða valið aðra stöð og skráð sig á hana. Listi yfir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu er að finna hér.

Viðtöl og skoðanir eru í boði frá upphafi meðgöngu og fram að fæðingu. Fyrsta viðtal við ljósmóður er gjarnan tekið í gegnu, síma fljótlega eftir að þungun er staðfest og eftir það er gefinn tími í fyrstu skoðun. Ljósmóðir þín eða læknir munu veita upplýsingar um mataræði, lifnaðarhætti, þjónustu sem er veitt á meðgöngu, tryggingavernd og skimanir. 

Nánari upplýsingar um mæðravernd er að finna á brum.is/medganga/maedravernd

Fósturþroski

Fyrstu tólf vikurnar er vöxtur mikill og hraður hjá fóstrinu. Öll líffærin myndast á fyrstu tólf vikunum en eru smá og óþroskuð. Til dæmis byrjar hjarta fóstursins að slá á fjórðu viku eftir getnað. Hjartsláttur fóstursins er hraður, næstum tvöfalt hraðari en hjartsláttur móðurinnar. 

Nánari upplýsingar um fósturþroska er að finna á brum.is/fosturthroski

Þó flestar meðgöngur gangi vel fyrir sig er alltaf mikilvægt að hlusta á eigið innsæi. 

Hvert á að hafa samband

Á hverri heilsugæslustöð eru ljósmæður og læknar sem veita símaráðgjöf alla virka daga frá kl. 08:00 – 16:00. Lista yfir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu er að finna hér.

Utan dagvinnutíma

 • Á höfuðborgarsvæðinu er ráðlagt að leita til Meðgöngu- og sængurlegudeildar Landspítala, sími 543-3220.
 • Á landsbyggðinni leita konur til sinnar Heilbrigðisstofnunar. Vaktsími 1700.
 • Heilsuvera.is er með netspjall sem svarar fyrirspurnum frá kl. 08:00 – 22:00 alla daga.  

Síðast uppfært desember 2021

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.