Skip to content

ÆTTLEIÐING

Ættleiðingar eru valkostur fyrir þá sem vilja eignast barn, óháð barnleysi eða barneignum. Áherslan er alltaf á að ættleiðingin sé barninu fyrir bestu.

Íslensk ættleiðing er eina félagið á Íslandi sem hefur löggildingu stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar erlendis frá. Fyrir tilstuðlan félagsins hafa ríflega 600 munaðarlaus börn eignast fjölskyldu á Íslandi.

Helstu kröfurnar sem eru gerðar til umsækjenda eru þær að grunnstoðir fjölskyldunnar séu tryggar og bjóði barninu upp á möguleikann til að þroskast og dafna við góðar aðstæður. Líkamleg og andleg heilsa umsækjenda þarf að vera í lagi, fjárhagur þarf að vera traustur og þá þarf ættleidda barnið að vera yngsta barnið í fjölskyldunni.

Öll tilheyrum við fjölskyldum og á vissu æviskeiði þrá flestir að eignast barn eða börn. Algengast er að umsækjendur um ættleiðingu séu tveir, stundum eru þeir af sama kyni og stundum eru þeir einhleypir. Umsækjendur geta verið íslenskir, annar íslenskur og hinn af erlendu bergi brotin/n eða báðir erlendir með lögheimili á Íslandi (Íslensk ættleiðing, e.d.).

Alltaf er gert ráð fyrir að ættleiðingarferlið taki mið af þörfum barnsins enda eru lög og reglugerðir í samræmi við það. Öll samstarfslönd sem Íslensk ættleiðing vinnur með eru aðilar að Haagsamningnum og fer starf félagsins eftir þeim skuldbindingum sem honum fylgja. Sjá nánar upplýsingar um löndin hér og hægt er að lesa Haagsamninginn hér.

Fyrir nánari upplýsingar er best að hafa samband við Íslensk ættleiðing eftir eftirarandi leiðum: 

Aðrar nytsamlegar upplýsingar

BARNEIGNIR SAMKYNHNEIGÐRA

Hinsegin fjölskyldur eru orðnar margbreytilegar og möguleikar hinsegin fólks til að eignast börn hafa aukist til muna (hinsegindagar.is, e.d.).

Árið 2006 voru samþykkt lög sem tryggðu fólki aðgang að tæknifrjóvgun óháð hjúskaparstöðu og á sama tíma var rétturinn til frumættleiðinga tryggður óháð kynhneigð.

Það er hins vegar stutt síðan að eina leið hinsegin fólks til að eignast börn var að eiga þau áður en það kom út úr skápnum. Í dag eru tækifærin fleiri; tæknifrjóvgun, fóstur, frumættleiðingar, staðgöngumæðrun o.fl. Á Íslandi býður fyrirtækið Livio Reykjavík upp á meðferðir með gjafasæði, sjá nánar hér.

Á Íslandi hafa hinsegin pör getað ættleitt frá árinu 2006 en samstarfslöndin hafa ekki heimilað það, því fæst lönd leyfa hinsegin fólki að ættleiða börn. Ættleiðingar til samkynja foreldra eru þó leyfðar í Kólumbíu og hinsegin pör sett sig í samband við Íslenska Ættleiðingu til þess að fá nánari upplýsingar.

STJÚPFJÖLSKYLDUR

Stjúpfjölskylda er stofnuð á grunni annarrar fjölskyldu eða margra fjölskyldna, oftast í kjölfar skilnaðar eða andláts. Stjúpfjölskyldur samanstanda af barni eða börnum, kynforeldri og stjúpforeldri sem tekur þá að sér foreldrahlutverkið (ísland.is, e.d.).

Stjúpfjölskyldur virðast í fljótu bragði ekkert frábrugðnar fjölskyldum þar sem makarnir eiga öll börnin saman. Af hverju ættu þær þá ekki að haga sér sem slíkar? Hvers vegna þarf að fjalla sérstaklega um þær? Að blanda lífum ótengdra aðila saman getur reynst flókið og oft koma upp vandamál. Ekki er það algilt að hlutirnir gangi snurðulaust fyrir sig og að öllum aðilum komi saman. Staðreyndin er sú að engar fjölskyldur eru lausar við vandamál. Fullorðnu aðilarnir koma oftast inn í sambönd með opnum huga og jákvæðu hugarfari og oft kemur það þeim á óvart þegar hlutirnir ganga ekki eins vel og vonast er eftir. Að kasta sér út í djúpu laugina, án kunnáttu og með óraunhæfar væntingar um að sömu „sundtökin” dugi óháð fjölskyldugerð, verður hæglega uppspretta vandamála sem getur reynst erfitt að bregðast við hjálparlaust (stjuptengsl.is, e.d.). 

Nokkur lagaleg atriði (ísland.is, e.d.):

  • Ef foreldri sem fer eitt með forsjá barns síns gengur í hjúskap, eða tekur upp sambúð með öðrum en kynforeldri barnsins, er forsjá barns einnig hjá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri. Þetta á einungis við ef skráð sambúð hefur varað samfleytt í eitt ár.
  • Stjúpforeldrið eða sambúðarforeldrið hefur eingöngu forsjá meðan hjúskapur eða sambúð stendur nema ef forsjárforeldri andast en þá fer stjúp- eða sambúðarforeldri áfram með forsjána nema annað hafi verið ákveðið eða telst barninu fyrir bestu.
  • Ef foreldri, sem er ekki í hjúskap og fer eitt með forsjá barns síns, gengur í hjúskap með öðrum en hinu foreldrinu, þá geta foreldri og stjúpforeldri samið um að forsjá barns verði sameiginleg. Hið sama á við ef foreldri hefur tekið upp sambúð með öðrum en hinu foreldrinu enda hafi skráð sambúð í þjóðskrá staðið samfleytt í eitt ár. Samningur öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Leita skal umsagnar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barns og um samning gilda að öðru leyti ákvæði 32. gr. eftir því sem við á.
  • Stjúpforeldri fer því ekki með forsjá barns nema samið sé um það sérstaklega og samningurinn staðfestur af sýslumanni. Ef aðilar ákveða að gera slíkan samning fær stjúpforeldri forsjá yfir barni en því fylgja ýmsar skyldur samkvæmt 28. gr. barnalaga. Stjúpforeldrinu ber þá meðal annars að tryggja hagsmuni og velferð barnsins og sjá til þess að grunnþarfir þess séu uppfylltar.
  • Sameiginleg forsjá foreldris og stjúpforeldrist helst eftir skilnað og sambúðarslit nema samið sé um annað, sbr. 5. mgr. 32. gr. barnalaga. Ef foreldrið fellur frá fer stjúpforeldrið eitt með forsjá, sbr. 3. mgr. 30. gr. laganna.
  • Ef forsjárforeldri og stjúpforeldri gera ekki samning um sameiginlega forsjá hefur stjúpforeldrið engar lagalegar skyldur gagnvart barninu. Stjúpforeldrinu ber þó að sjálfsögðu að virða réttindi barnsins og hafa hagsmuni þess að leiðarljósi, sbr. meðal annars 2. mgr. 1. gr. barnalaga.

Aðrar áhugaverðar upplýsingar: 

FÓSTURFJÖLSKYLDUR

Hefur þú áhuga á að gerast fósturforeldri? 

Barnaverndarstofa leitar að fólki sem vill sækja um leyfi til að taka börn í fóstur og að taka þátt í sérstakri þjálfun því til undirbúings. Nánar á bvs.is/fostur/ad-gerast-fosturforeldri

Nánari upplýsingar um hvað felst í að vera fósturforeldri má lesa á island.is/fosturfjolskyldur

HEIMILDASKRÁ

  • Íslensk ættleiðing (e.d.). Fyrstu skrefin. Sótt af isadopt.is
  • Hinsegindagar.is (e.d.). Hinsegin fjölskyldur. Sótt af hinsegindagar.is
  • Ísland.is (e.d.). Stjúpfjölskyldur. Sótt af island.is
  • Stjuptengsl (e.d.). Af hverju Stjuptengsl.is. Sótt af stjuptengsl.is

Síðan var síðast uppfærð í febrúar árið 2022.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.