Skip to content

Veikindi hjá börnum, smitleiðir, sjúkdómar, ráðleggingar og fleira

Hafa ber í huga að það er mikilvægt að hlusta á foreldrahjartað og leita ráðlegginga og aðstoðar fagfólks þó tilefnið reynist lítilvæglegt. Að leita aðstoðar fyrir barnið sitt er aldrei móðursýki eða að gera úlfalda úr mýflugu. Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Bráðamóttaka Barnaspítala Hringsins tekur á móti öllum veikum börnum frá fæðingu til 18 ára aldurs. Foreldrar/forráðamenn geta því leitað beint á bráðamóttökuna með bráðveikt barn en til að komast hjá kosnaði þá þarf tilvísun frá lækni, hjúkrunarfræðingi eða ljósmóður. Börn undir 2 ára greiða ekki fyrir læknisþjónustu.

Barnalæknar sem voru til húsa í Domus Medica hafa opnað nýja þjónsutu, Domus barnalæknar. Nánar hér.

FLÝTILEIÐIR

Hiti hjá börnum

Óhjákvæmilegt er að barn fái hita fyrstu árin. Fyrir marga foreldra getur reynst erfitt að átta sig á hvað skal gera fyrir litla krílið og hvernig skal bregðast við. Oftar en ekki er hitinn saklaus en betra er hafa alltaf allan varann á. Mikilvægt er að muna að hiti er ekki sjúkdómur heldur einkenni um undirliggjandi sjúkdóm. Í heilanum er staður sem stýrir líkamshitanum svipað og ofnar í heimahúsum. Margt bendir til að hiti sé hjálplegur til varnar sýkingum.

Hjá börnum í leik getur hitinn auðveldlega farið yfir 38°C án þess að um sjúklegt ástand sé að ræða og einnig er rétt að benda á að börn með sýkingu geta verið með líkamshita innan eðlilegra marka. (Landlaeknir.is, e.d ). Að horfa á barnið sitt slappt og heitt getur verið óþæginleg reynsla.

Mikilvægur punktur! Hiti barna einn og sér segir lítið til um veikindi þeirra eða alvarleika veikindanna. Barn getur verið með alvarlega sýkingu en hitalaust og að sama skapi verið með meinlausa veirusýkingu en háan hita. Hins vegar ber alltaf að taka hita (hærri en 38°C) alvarlega hjá börnum yngri en 3 mánaða og hafa þá strax samband við læknavaktina.

Hvað veldur oftast hita?

  • Kvef eða flensa
  • Öndunarfærasýking
  • Magapest
  • Börn geta líka fengið hita í kjölfar bólusetningar og vegna tanntöku.


Góð ráð:

  • Fylgist með hitanum á 2-4 tíma fresti.
  • Haldið vökva að barninu. Börn eru oft lystarlaus þegar þau eru með hita. Leggið því meiri áherslu á að barnið drekki heldur en borði og fylgist með að barni pissi reglulega yfir daginn í bleyjuna.
  • Gefið hitalækkandi lyf á 4-6 tíma fresti ef barninu líður illa. Til dæmis Panodil Junior eða Nurofen Junior eftir aldi og þyngd barnsins. Hiti er eðlilegt varnarviðbragð líkamans og því er óþarfi að gefa hitalækkandi lyf ef barninu líður ekki illa með hitanum. Einungis ætti að gefa hitalækkandi meðferð þeim börnum sem líður illa vegna hitans frekar en að miða meðferð við ákveðið hitastig.
  • Skapið rólegt og notalegt umhverfi fyrir barnið og leyfið því að hvílast þegar það vill, án þess þó að þvinga það til að hvílast.
  • Hafið barnið í léttum og þægilegum fatnaði og notið lak í stað sængur.

Nánari upplýsingar um hita hjá börnum er að finna á brum.is/hiti-hja-bornum-hjalpleg-atridi

Inflúensa

Talað er um inflúensufaraldur þegar sjúkdómurinn smitast á milli manna og milli landa. Í daglegu tali er oft talað um flensu en það orð er líka oft haft um sýkingar í öndunarfærum sem ekki eru inflúensa. Inflúensa er sýking af völdum veira og því virka sýklalyf ekki á inflúensu (heilsuvera, e.d.).

Einkenni

  • Hiti hærri en 37,8°C
  • Hósti
  • Höfuðverkur og beinverkir (verkir í öllum líkamanum)
  • Hálsbólga og kvef eru sjaldgæfari einkenni í flensu en geta þó fylgt.

Ef barn fær inflúensu

  • Halda barninu heima þar til það hefur verið hitalaust í sólarhring án hitalækkandi lyfja.
  • Gefa hitalækkandi lyf eftir þörfum.
  • Gæta þess að gefa barninu vel að drekka. Börn geta þornað fljótt með háan hita.

Farðu með barnið strax á næstu bráðamóttöku ef:

  • Barnið fer að anda hratt eða á erfitt með öndun.
  • Barnið fer að blána.
  • Barnið er ekki að drekka nóg, pissar lítið og þvag er mjög dökkt.
  • Barnið á erfitt með að vakna og/eða þú nærð litlu sambandi við það.
  • Barnið lagast af inflúensunni en slær síðan niður aftur og fær hita eða hósta.
  • Barnið fær hita ásamt útbrotum.

Finna næstu bráðamóttöku eða heilsugæslustöð hér.

RS veira

RS veiran (e. respiratory syncytial virus) er kvefveira sem veldur sýkingu í neðri og efriöndunarvegi. Hjá ungabörnum getur sýkingin valdið öndunarerfiðleikum vegna bólgu sem verður í smærri berkjum lungnanna. Mörg börn fá einnig eyrnabólgu samfara sýkingunni. Börn á fyrsta og öðru aldursári greinast hlutfallslega oftast með RS veiruna en veiran hefur einnig verið staðfest hjá öðrum aldurshópum, ásamt ungbörnum sem er þekktur áhættuhópur. Veiran getur lagst þungt á fyrirbura og ungabörn innan sex mánaða.

Veiran er svo algeng að flest börn innan tveggja ára aldurs hafa sýkst af henni. Árlega koma um 20% barna undir eins árs til læknis vegna bráðrar RS-veirusýkingar. Bæði fullorðnir og börn geta fengið sýkinguna aftur í nýjum faröldrum þar sem veiran veldur ekki langtíma ónæmi. Sýkingin nær yfirleitt hámarki á 3–5 dögum og að mestu gengin yfir á einni viku. Flest börn jafna sig að fullu en sum þeirra fá astmaeinkenni fram eftir aldri samfara kvefsýkingum.

RS-veiran smitast einkum með beinni snertingu milli einstaklinga en getur einnig smitast með úðasmiti við hósta eða hnerra. Veiran getur lifað í nokkrar klukkustundir á til dæmis leikföngum eða á borðplötu og getur smitast þannig og borist í líkamann í gegnum nef, munn og augu.

Sýktur einstaklingur er mest smitandi fyrstu dagana eftir að hann veikist en getur haldið áfram að vera smitandi í nokkrar vikur á eftir. Einkenni sjúkdómsins koma fram fjórum til sex dögum eftir að smit hefur orðið.

Einkenni sjúkdómsins:

  • Öndunarerfiðleikar vegna lungna- eða berkjubólgu.
  • Hár hiti
  • Mikill hósti
  • Hvæsandi öndun
  • Nefstífla
  • Hröð og erfið öndun
  • Blámi á húð vegna skorts á nægu súrefni
  • Eyrnabólga getur fylgt veirunni

Hvað er hægt að gera

  • Ef nef er stíflað er æskilegt að nota saltvatnsdropa í nasir og sjúga slím með nefsugu. Hjá stærri börnum má nota dropa sem minnka bjúg í nefi.
  • Ef hiti er hár eða særindi vegna hósta er gefið hitalækkandi lyf/verkjalyf samkvæmt leiðbeiningum.
  • Ef barn drekkur ekki nóg er ráðlegt að leggja barnið oftar á brjóst og/eða gefa oftar að drekka og minna í einu. Gott er að gefa saltvatnsdropa í nasir og sjúga með nefsugu fyrir gjafir.
  • Hafa hærra undir höfði.

Ráðlegt að leita aðstoðar hjá læknavaktinni eða bráðamóttöku:

  • Barnið fær astmaöndun. Einkenni byrja þá yfirleitt sem kvef og smávægilegum hósta og svo kemur surg, píp eða íl í brjóstið.
  • Hröð öndun og jafnvel erfiði við öndun.
  • Barnið sýnir merki um aukna öndunarerfiðleika svo sem hraðari öndun, verri hósta og aukna slímmyndun.
  • Barnið drekkur illa og virðist vera að þorna. Merki um það eru til dæmis þurr munnslímhúð, minnkuð tára- og þvagframleiðsla og ef barnið léttist.

Hlaupabóla

Hlaupabóla virðist ekki ganga í stórum faröldrum eins og margir aðrir barnasjúkdómar en er viðvarandi í samfélaginu allt árið. Árstíðabundnar sveiflur eru þó oft á tíðni sjúkdómsins og eiga flest tilfelli sér stað um miðjan vetur fram á vor (landlaeknir.is, e.d.).

Hlaupabóla orsakast af varicella zoster (herpes zoster) veiru sem er skyld herpes simplex (frunsu) veirunni. Yfirleitt er um vægan sjúkdóm að ræða en í einstaka tilfellum getur hlaupabóla orðið að alvarlegum sjúkdómi. Í kjölfar hlaupabólusýkingar tekur veiran sér bólfestu í taugum líkamans og liggur þar dulin. Hún getur síðar tekið sig upp og valdið svokölluðum ristli sem einkennist af sársaukafullum staðbundnum útbrotum (landlaeknir.is, e.d.).

Sjúkdómurinn varir í 7–10 daga hjá börnum en lengur hjá fullorðnum. Oftast stafar engin hætta af sjúkdómnum og flestir fá hlaupabólu bara einu sinni á ævinni. Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur og er algengastur hjá börnum. Sjúkdómurinn smitast á milli manna með úða frá öndunarvegum og með beinni snertingu við vessa frá útbrotum (landlaeknir.is, e.d.).

Meðgöngutími sjúkdómsins þ.e.a.s. sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni geta verið 10–21 dagur. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp (landlaeknir.is, e.d.).

Einkenni:

  • Sjúkdómurinn lýsir sér með útbrotum á bol og andliti til að byrja með en einnig geta þau komið fram í hársverði og á útlimum.
  • Stundum berast útbrotin yfir í slímhúðir og kynfæri.
  • Oft verður vart við slappleika og vægan hita í einn til tvo daga áður en útbrot koma fram og varir hitinn áfram hjá börnum í 2–3 daga samhliða útbrotunum.
  • Útbrotin byrja sem litlar rauðar bólur sem eftir nokkra klukkutíma verða að vessafylltum blöðrum, blöðrurnar verða síðan að sárum á 1–2 dögum, loks myndast hrúður og þær þorna upp.
  • Nýjar bólur geta bæst við í 3–6 daga. Það er mjög mismunandi hversu mikil útbrot hver einstaklingur fær. 
  • Önnur einkenni geta verið höfuðverkur, særindi í hálsi, lystarleysi og mögulega uppköst.

Meðferð:

  • Meðferðin felst einkum í því að halda kyrru fyrir, drekka vel og að draga úr kláða.
  • Hægt er að lina kláðann með köldum bökstrum eða böðum. Haframjöl, matarsódi og kartöflumjöl hafa verið notuð í bakstra eða út í böð til að draga úr kláða.
  • Einnig eru fáanleg í apótekum áburðir og froður til útvortis notkunar sem draga úr kláðanum. Þessi lyf draga einungis úr kláðanum tímabundið og við notkun þeirra ber að hafa í huga að þau geta valdið sviða í stutta stund.
  • Ef kláðinn verður svo mikill að hann truflar svefn barnsins, er hægt að gefa því kláðastillandi lyf, andhistamín. Rétt er að fá ráðleggingar læknis um val á slíku lyfi og viðeigandi skammt fyrir barnið.
MIKILVÆGT AÐ MUNA!! Hægt er að gefa hitalækkandi lyf (t.d. Panodil Junior) EN alls ekki lyf sem innihalda íbúprófen t.d. Nurofen Junior. Einkenni hlaupabólu geti snarversnað við inntöku á verkjalyfjum sem innihalda íbúprófen og geti afleiðingarnar þá orðið alvarlegar. 

Bólusetning gegn hlaupabólu er nú hluti af almennum bólusetningum barna á Íslandi sem fædd eru 2019 eða síðar. Bóluefni má áfram gefa eldri börnum og fullorðnum einstaklingum sem ekki hafa alvarlega ónæmisbælingu eða aðrar frábendingar, gegn lyfseðli og á kostnað einstaklinganna sjálfra.

Nóró veiran

Nóró veiran er veirusýking sem veldur bráðri sýkingu í meltingarvegi manna. Veiran er mjög smitandi og er algengasta orsök fjöldasýkinga í meltingarvegi. Veiran dreifist aðallega með snertingu en getur líka borist með andrúmslofti. Allir geta sýkst af nóróveirunum því ekki eru til lyf gegn sýkingunni né bóluefni til að hindra hana.

Meðgöngutími sýkingarinnar, það er tími frá smiti til einkenna, er einn til tveir sólarhringar. Þó eru dæmi um smitandi einstaklinga allt að tíu dögum eftir bata.

Einkenni: 

  • Algengustu einkennin eru niðurgangur og/eða uppköst sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti.
  • Sýkingin er oftast nær ekki alvarlegur sjúkdómur þó fólk sé mjög veikt á meðan á henni stendur og kastar upp mörgum sinnum á dag.
  • Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til þremur sólarhringum án nokkurrar meðferðar.
  • Smitefnið berst aðallega með saur og uppköstum en getur einnig borist með mat eða menguðu drykkjarvatni.

Meðferð:

  • Í einstaka tilfellum þarf meðferð vegna einkenna, svo sem þurrks, verkja, ógleði og veiklaðrar húðar við endaþarm.
  • Niðurgangur er mjög ertandi fyrir húðina og því þarf að vera vel vakandi fyrir verkjum og sviða við endaþarm og gott að bera krem sem inniheldur zink á bleyjusvæðið.
  • Flestum batnar að fullu eftir 1-2 daga.
  • Í einstaka tilfellum getur fólk ekki drukkið nægan vökva til að endurbæta vökvamissi vegna uppkasta og niðurgangs og getur þurft á læknisaðstoð þess vegna. Slíkt ástand getur einkum skapast hjá mjög ungum börnum, þeim sem eldri eru eða hjá fólki með sem veikt er fyrir.

Forðist:

  • Eplasafa, appelsínusafa, svala, kók og aðra gosdrykki og flesta orkudrykki, nema 75% þynnt Gatorade (¾ Gatorade og ¼ vatn/Semper).
  • Þetta er vegna mikils sykurinnihalds og osmólar þéttni, sem getur aukið á niðurganginn.
  • Sömuleiðis er rétt að varast kjötseyði vegna mikils saltinnihalds.

Æskilegur matur þegar barn er með niðurgang

  • Vatn, drekka vel af vatni því mikill vökvi tapast með niðurganginum
  • Magurt kjöt, hrísgrjón, kartöflur og brauð, jógúrt, ávexti og grænmeti
  • Mjólk (nema að barnið sé með mjólkuróþol)
  • Sykursaltvatnslausn, hægt er að kaupa hana í duftformi í apótekum. Til eru sykursaltfreyðitöflur með appelsínubragði fyrir börn eldri en 3ja ára sem eru leystar upp í vatni samkvæmt leiðbeiningum.

Óæskilegur matur þegar barn er með niðurgang

  • Fituríkan mat, því það er erfiðara fyrir líkamann að melta hann.
  • Sykraða drykki
  • Íþróttadrykki (s.s. Gatorade) því þeir innihalda of mikinn sykur og steinefni sem eru óhentug fyrir niðurganginn.
  • Lyf til að stöðva niðurgang, þau eru ekki ætluð börnum.

Leita til heilsugæslunnar ef:

  • Niðurgangurinn er blóðugur.
  • Barnið er yngra en 12 mánaða og hefur ekkert borðað né drukkið í nokkra klukkutíma.
  • Barnið er með mikinn magaverk, eða magaverk sem kemur og fer.
  • Barnið er ólíkt sjálfu sér.
  • Barnið er þróttlaust og slappt og svarar þér lítið sem ekkert.
  • Barnið er orðið þurrt, s.s. þurr munnur, og/eða þorsti.
  • Ekki pissað eða bleytt bleyju í 4-6 klst hjá litlum börnum, en 6-8 klst hjá eldri börnum.
  • Engin tár þegar barnið grætur.

Góð ráð til að draga úr sýkingarhættu:

  • Þvo hendur oft, sérstaklega eftir salernisferðir, eftir bleiuskipti og áður en matur er tilreiddur og hans neytt.
  • Þvo ávexti og grænmeti fyrir neyslu.
  • Sjóða neysluvatn ef grunur er á að vatnsból hafi mengast.
  • Þrífa yfirborð sem mengast við veikindi af völdum nóróveira (af uppköstum eða niðurgangi) með sápuvatni og e.t.v. fara yfir með klórefni.
  • Þvo leikföng og bangsa.
  • Þvo strax fatnað eða lín af rúmum sem mengast með heitu sápuvatni.

Handa- fóta- og munn sjúkdómur/ Gin og klaufaveiki

Hand-, fót- og munnsjúkdómur er iðraveirublöðrumunnbólga með útbrotum (e. Hand-, foot- and mouth disease). Algengur sjúkdómur í ungum börnum (yngri en 10 ára) en fullorðnir geta einnig smitast. Sjúkdómurinn orsakast af ýmsum veirum, oftast Coxackieveiru A16, en nokkrar aðrar gerðir iðraveira geta valdið honum. Algengt er að hann gangi í litlum faröldrum, einkum á haustin (landlaeknir, e.d.).

Sjúkdómurinn getur smitast frá sýktum einstaklingum með beinni snertingu við vessa frá nefi og hálsi, vessa úr blöðrum og með hægðum. Veiran getur skilist út með hægðum í nokkrar vikur eftir að einkenni eru hætt. Ekki er hægt að koma algerlega í veg fyrir smitútbreiðslu sjúkdómsins (landlaeknir, e.d.).

Tími frá smitun þar til einkenni koma fram er vanalega 3–7 dagar. Sjúkdómurinn er oftast mildur og nánast allir jafna sig án meðferðar á 7–10 dögum. Í mjög sjaldgæfum tilfellum getur veiran valdið heilahimnubólgu (landlaeknir, e.d.).

Einkenni: 

  • Sótthiti, sár í munni og húðútbrot með blöðrum á höndum og fótum.
  • Sjúkdómurinn byrjar yfirleitt með vægri hitahækkun, lystarleysi, almennum slappleika og særindum í hálsi.
  • Einum til tveimur dögum eftir að hiti byrjar myndast sár í munni.
  • Þau byrja sem rauðir dílar sem þróast í blöðrur og síðan sár á tungu, gómum og innanverðum kinnum en eru yfirleitt mest áberandi í kokinu.
  • Húðútbrot myndast á 1–2 dögum með rauðum skellum, sum með blöðrum, oftast í lófum og á iljum.
  • Útbrot geta einnig komið á rasskinnar. Sumir einstaklingar fá einungis útbrot í munni án húðútbrota eða einungis húðútbrot án sára í munni.

Engin sérstök meðferð er til gegn veirunni, en sjúkdómurinn læknast af sjálfu sér á nokkrum dögum.

Ákvörðun um að vera heima fer eftir almennri líðan barnsins, ef barnið er að öllu leyti hraust þarf ekki að útiloka það frá öðrum börnum. Hluti þeirra barna sem smitast fá engin einkenni og það rýfur því ekki smitleiðir að halda börnum með einkenni frá einkennalausum börnum (landlaeknir, e.d.).

Sýkingavarnir:

  • Vandaður og tíður handþvottur dregur verulega úr hættu á smiti, einkum eftir bleiuskiptingar hjá börnum.
  • Huga þarf vel að hreinlæti í umhverfi sýktra með vönduðum þrifum á snertiflötum, nota hreint sápuvatn og e.t.v. klórblöndu ef smitefni (s.s. hægðir) fer út í umhverfið.

Eyrnabólgur

Miðeyrnabólga er aðallega sjúkdómur ungra barna vegna vanþroska í ónæmiskerfinu og lögunar kokhlustar. Flest börn sem fá bráðamiðeyrnabólgu (BMB) fá hana á fyrstu aldursárunum og sum fá hana oft, jafnvel frá nokkra mánaða aldri. Miðeyrnabólgur er ein algengasta ástæða komu barna til lækna (landlaeknir.is, e.d.).

Þegar rætt er um miðeyrnabólgu er algengast að um sé að ræða bráðamiðeyrnabólgu (BMB), eða miðeyrnabólgu með vökva í miðeyra (VÍM). Mikilvægt er að greina á milli BMB og VÍM þar sem fyrrnefnda ástandið kallar stundum á sýklalyfjameðferð en aldrei það síðara. Tímabundin bólga í nefslímhúð eins og t.d. samfara kvefi getur valdið hlustarverk með inndrætti á hljóðhimnu (landlaeknir.is, e.d.).

„Eyrnabörn“ eru þau börn stundum kölluð sem fá margendurteknar BMB (a.m.k. þrjár á 3 mánuðum eða ≥4 á einu ári) og eru þau börn oftast jafnframt með þrálátan VÍM. Það hefur sýnt sig að börn sem fá BMB í fyrsta sinn fyrir 6 mánaða aldur og að systkini hafa verið
„eyrnabörn“ eru í meiri áhættu (landlaeknir.is, e.d.).

Vökvi í miðeyra (VÍM)

Um 10-30% forskólabarna eru með vökva í miðeyra á hverjum tíma, sérstaklega á veturnar, oft tengt við kvefi og veirusýkingum. Tíðnin er hæst hjá yngstu börnunum vegna vanþroska kokhlustar. Stundum skýrist ástandið af óeðlilegri viðkvæmni í nefgöngum og kokhlust, til
dæmis ef barnið er með ofnæmi og/eða astma. Einnig eru fyrirburar eða börn með ónæmisgalla og meðfædda galla í munn- eða nefholi, oft viðkvæm fyrir VÍM. Leikskólavist er talin áhætta enda eru þá greiðari smitleiðir veira og baktería milli barna. Brjóstagjöf, a.m.k. fyrstu 6 mánuðina, er talin veita vörn að einhverju leyti. Áhrif sundferða er óviss (landlaeknir.is, e.d.).

Vökvi í miðeyra myndast eftir stíflu í kokhlust og síðar undirþrýstingis í miðeyra. Hljóðhimnan verður þá oft inndregin og mött og getur þykknað með tímanum. Oftast eru einkennin lítil og ekki eins afgerandi og við BMB. Vökvinn er þunnfljótandi í byrjun en þykknar og verður slímkenndari með tímanum. Eldri börn geta kvartað um hlustarverk eða „hellu” og stundum er ástandið talið skýra næturóværð hjá ungbörnum. Til að greina þetta ástand vel þarf eyrnarsjá, helst með loftblæstri, til að meta hreyfanleikann á hljóðhimnunni sem er þá minnkaður. Staðfesta má undirþrýsting og vökva með miðeyrnaþrýstingsmælingu (landlaeknir.is, e.d.).

Meðferð: 

Vökvi í miðeyra (VÍM) læknast yfirleitt af sjálfu sér og ekki er þörf á meðhöndlun með sýklalyfjum. Ofnæmislyf, nefdropar og slímlosandi lyf eru yfirleitt gagnslítil í meðferð á VÍM. Flest tilfelli af VÍM læknast af sjálfu sér innan þriggja mánaða. Í um 25% tilfella fylgir væg heyrnarskerðing vökva í miðeyra (heyrn niður fyrir 25dB á þremur tíðnisviðum). 

HEIMILDASKRÁ

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.