Skip to content

5 MÁNAÐA

BARNIÐ ÞITT Í HNOTSKURN

Hæð 58,9cm - 70,9cm (meðaltal)

Þyngd 5,19kg til 9,70kg (meðaltal)

Fimm mánaða barn er farið að mynda tilfinningar og sýna sinn eiginn persónuleika. Tjáning þess hefur minnkað í gráti og er meira í formi hljóða eða hjals. Nú finnst barninu leikur áhugaverður og því er mikilvægt að gefa sér góðan tíma á hverjum degi til að sinna áhuga barns á til dæmis þroskaleikföngum.

Barnið er hamingjusamt og svarar foreldri með hlátri í leik. Móðir og/eða maki geta til dæmis prufað að gretta sig eða þykjast vera týnd bak við hendurnar á sér. Með þessu móti fær þroski barns góða örvun og gaman er fyrir foreldra að sjá hvernig viðbrögð barns þroskast með leik.

Aðrar tilfinningar koma í ljós við fimmta mánuð, meðal annars reiði. Ef barnið er ósammála einhverju getur það tjáð sig með óhljóðum. Það er góð regla að svara ávallt tilfinningum barns, hvort sem það er grátur, leikur eða annað, svo að barninu finnist það vera öruggt og elskað. Sumir foreldrar notast við vissar uppeldisaðferðir og þá skiptir miklu máli hvernig talað er við barnið og því svarað. Uppeldisaðferðir, eins og til dæmis virðingaríkt tengslauppeldi, RIE (e. respectful parenting) hefur notið mikilla vinsælda á Íslandi upp á síðkastið. Sjá nánari upplýsingar um RIE hér.

Skynfæri fimm mánaða barns hafa þroskast meira og getur barnið til að mynda fylgt eftir hljóði með því að snúa höfðinu. Þó að skilningur á orðum sé ekki kominn, byrja sum börn á þessum aldri að tjá sig með atkvæðum eins og “ma”. Hlutir eins og að purra með vörunum og að blása slefkúlur er eitthvað sem barnið getur einnig verið byrjað að gera. Mikilvægt er að halda áfram að þroska tungumálakunnáttu barnsins með því að tala skýrt og greinilega við það.

Fimm mánaða gamalt barn er vanalega ekki farið að skríða, hvað þá ganga, alveg strax og því er snerting með höndum og bragð með tungu í munni aðalþáttur þess til að læra á og synja umheiminn í kringum sig. Ekki láta þér eða ykkur því bregða ef barnið setur flest sem það heldur á upp í munn sinn. Það er fullkomlega eðlilegt en ávallt skal passa að hafa öryggið í fyrirrúmi og ekki hafa óþarfa hluti nálægt barni eða á glámbekk. Góð regla er að þrífa reglulega leikföng og annað sem barnið leikur sér með. Nokkur góð húsráð er að finna í þessari erlendu bloggfærslu hér.

Ef barnið þitt er farið að rúlla sér á magann og gerir sig líklegt til að byrja skríða (setja fætur undir sig og gera sig líklegt til að fara upp á fjórar fætur), gæti það mögulega gerst á þessum tímapunkti. Það er ekki algengt að fimm mánaða gömul börn séu farin að skríða en ávallt er gott að vera tilbúin ef það gerist.

Að sitja er eitthvað sem má byrja að æfa við fimm mánaða aldur en aldrei skilja barnið eftir eitt án vökuls auga fullorðinna. Mikilvægt er að hafa nóg af púðum (t.d. brjóstapúðann góða) í kringum barnið svo það meiði sig ekki ef það hallar á aðra hliðina eða dettur fram eða aftur fyrir sig.

Mjólk er ennþá aðal uppistæða fæðu hjá barni við fimm mánaða aldur samkvæmt Landlæknisembætti Íslands, sjá nánar í bæklingi frá landlækni hér. Best er að ræða matargjöf í samvinnu við hjúkrunarfræðing, ljósmóður eða lækni sem sér um barnið þitt í ungbarnaverndinni.

Sum börn sem eru undir meðaltali í sinni kúrfu þurfa ábót sem getur verið peli eða grautur en aftur á móti eru önnur börn sem þurfa ekki á ábót að halda.

Sem dæmi, ef barn er mikið að æla (gusur af mjólk eftir gjafir nokkrum sinnum á dag), er oft lagt til að kynna fasta fæðu, oftast graut inn í fæðu barns til þess að athuga hvort að barninu líði betur og æli þar af leiðandi minna.

Það er allur gangur á þessu og mikilvægt er að hlusta á foreldrahjartað og meta í samráði við fagaðila. Hvert barn er sérstakt á sinn hátt og misjafnt hvað virkar hverju sinni.

Síðan var uppfærð nóvember 2020

BARNIÐ Í TÖLUM

MÁNAÐA
VIKNA
DAGA

6 MÁNAÐA

Viltu fræðast um hvað gerist hjá sex mánaða barni? Ýttu á hnappinn

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.