FÆÐINGARUNDIRBÚNINGUR
Hver fæðing er einstök og því er ekki hægt að segja til um fyrirfram hvernig hún verður. Fæðingin er náttúrulegt ferli sem getur tekið á sig ýmsar myndir.
Afstaða konunnar eða væntanlegra foreldra til fæðingarinnar og, líkamleg og andleg líðan skiptir verulegu máli. Upplifun móðurinnar á þeim breytingum sem eiga sér stað í líkama hennar í fæðingunni er einhver sú áhrifamesta í lífi hennar. Að fæða barn getur verið sársaukafullt, ef litið er til hríðanna en jafnframt er það stórkostleg reynsla sem býður uppá mikla sjálfsskoðun og uppgötvun á innri styrk. Það er vissulega áskorun að takast á við fæðinguna með öllu því sem henni fylgir og upplifa það kraftaverk sem barnsfæðing er (Heilsuvera.is, e.d.).
Ekki er vitað með vissu hvað það er sem kemur fæðingu af stað. Hins vegar er ljóst að það er flókið samspil margra þátta. Hjá konunni og geta utanaðkomandi þættir líka haft áhrif, bæði á það að fæðing hefjist og ekki síður á ferlið þegar fæðingin er byrjuð (Heilsuvera.is, e.d.).
Til þess að barnið geti fæðst um leggöng þurfa að eiga sér stað kröftugir samdrættir í leginu sem kallast hríðir. Leghálsinn mýkist, styttist og opnast fyrir tilstilli þeirra. Þegar leghálsinn hefur opnast að fullu, rembist konan með hríðunum og barnið færist úr leginu niður leggöngin þar til það er fætt (Heilsuvera.is, e.d.).
Fyrirvaraverkir – aðdragandi fæðingar
Aðdragandi fæðingar getur verið mislangur og oft er erfitt að greina á milli fyrirvaraverkja og þess að fæðingin sé örugglega byrjuð. Það er mjög algengt að konur finni fyrir sterkum samdráttum síðustu vikur meðgöngunnar. Samdrættirnir geta staðið yfir í nokkrar klukkustundir, hluta úr degi eða yfir nótt. Þeir hætta og byrja svo aftur. Slíkir samdrættir kallast fyrirvaraverkir og geta varað í marga daga, jafnvel vikur fyrir fæðingu. Vegna þess hve ómarkvissir þeir eru leiða þeir ekki til breytinga á leghálsinum og fæðingin telst því ekki byrjuð (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2007).
Hvað getur þú gert?
Best er að nota þennan tíma til að undirbúa sig vel fyrir fæðinguna, bæði andlega og líkamlega. Ræðið saman um hina ýmsu þætti fæðingarinnar og hvernig þið ætlið að hjálpast að í fæðingunni, þá sérstaklega þær aðferðir til þess að draga úr verkjum, umönnun barnsins eftir fæðingu, hver á að klippa á naflastrenginn, böðun, klæðnað, hvort þið viljið taka myndir í fæðingunni o.s.frv (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Heimsóknir í mæðraverndina eru tíðari á síðustu vikum meðgöngunnar og er þá kjörið tækifæri að ræða væntanlega fæðingu og bera fram þær spurningar og vangaveltur sem þið eruð með.
Dekraðu við sjálfa þig. Sjáðu til þess að þú fáir nægilega hvíld og góða næringu á hverjum degi. Njóttu þess að finna hvernig barnið þitt hreyfir sig sem er einnig að búa sig undir fæðinguna (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Þú getur dundað þér við eitthvað í rólegheitum, sofið frameftir, farið í gönguferðir, í sund eða notalegt bað, lagt þig þegar þér finnst þú þurfa, kúrt og lesið bók, horft á bíómynd, farið í hárgreiðslu, fótsnyrtingu, nudd eða bara gert það sem þig langar og getur hverju sinni. Ef þú ert með börn heima getur þú gert flest af þessu með þeim og ágætt er að leggja sig með börnunum ef það á við.
Ef þú ert eitthvað óróleg hafðu þá samband við ljósmóðurina í mæðraverndinni þinni.
Fyrstu merki um að fæðing sé að byrja
Það er líklegt að þú munir átta þig á því þegar fæðing er raunverulega byrjuð. Ef þú ert í einhverjum vafa, ekki hika við að hafa samband við þinn fæðingarstað. Sjá hér lista yfir fæðingarstaði á Íslandi.
Símanúmer á fæðingarvakt 23B á LSH er 543-3049.
Helsta merki þess að fæðing sé byrjuð er sterkir samdrættir sem koma með stuttu millibili. Önnur merki um að fæðing sé byrjuð eru að legvatnið fer, bakverkir og aukinn þrýstingur niður sem kemur til af því að kollur barnsins þrýstir á ristilinn.
Hvað getur þú gert?
Gott er að taka lífinu með ró. Í byrjun fæðingar er best að vera heima í því umhverfi sem þú getur látið fara notalega um þig. Þannig kemst þú hjá því að eyða of löngum tíma á sjúkrahúsi. Það er gott að spara orkuna en halda þó áfram daglegri iðju eins og þú treystir þér til. Ef fæðing byrjar að nóttu til, er mikilvægt að hvílast og sofa eins mikið og mögulegt er (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Ekki sleppa því að borða, jafnvel þótt fæðingin byrji að nóttu til. Gott er að fá sér eitthvað létt, næringarríkt og auðmeltanlegt að borða. Sturta, bað og nudd hjálpa þér að slaka á og takast á við samdrættina. Einnig hjálpar að breyta reglulega um stöður og stellingar. Hafðu sjúkrahústösku tilbúna, með öllu því, sem þú ætlar að hafa með þér á fæðingarstað.
Ef legvatnið fer skaltu hafa samband við fæðingarstaðinn þinn eða hringja í neyðarlínuna 112. Þá sérstaklega ef barnið þitt er ekki skorðað er mikilvægt að leggjast strax á gólfið og ekki hreyfa þig fyrr en að sjúkraflutningarmenn mæta á staðinn.
Hvernig lýsa fæðingahríðir sér?
Fæðingahríðir eru sterkir samdrættir í leginu og þeim fylgja verkir. Það er líklegt að þú hafir fundið fyrir samdráttum á meðgöngunni, sérstaklega undir lokin. Þeir samdrættir eru oftast verkjalausir þó þeir geti verið óþægilegir. Slíkir samdrættir eru kallaðir fyrirvaraverkir. Þegar fæðing byrjar verður breyting á samdráttunum. Þú finnur þá kröftuga samdrætti sem koma með reglulegu millibili og vara lengur. Slíkir samdrættir kallast hríðir.
Fæðingahríðir líkjast túrverkjum en eru mun kröftugri en þeir og þú finnur að kúlan verður mjög hörð. Kúlan mýkist aftur þegar hríðarnar líða úr og þú finnur þá að verkirnir líða hjá. Hríðirnar valda breytingum á leghálsinum og því er stundum talað um útvíkkunarstig fæðingar. Leghálsinn víkkar smám saman og þannig opnast fæðingarleiðin.
Þegar samdrættir í leginu verða kröftugir, koma reglulega og eru vaxandi, bæði að styrk og lengd, er fæðingin líklega byrjuð. Hver fæðingahríð varir í a.m.k. 30 sekúndur og tíminn á milli hríðanna er ca. 2 – 5 mínútur. Fæðingin heldur áfram með hríðum sem verða æ sterkari og vara lengur.
Fæðingin
Þegar fæðing er komin vel af stað eru samdrættirnir orðnir markvissari og sterkari. Þeir eru reglulegir og taktfastir og koma á 2-5 mínútna fresti. Krafturinn í hríðunum þrýstir höfði barnsins á leghálsinn sem við það opnast æ meir. Barnið mjakar sér neðar í grind konunnar eftir því sem útvíkkun eykst og síaukinn þrýstingur verður niður á lífbeinið og niður leggöngin. Þegar útvíkkun er lokið opnast fæðingarleiðin og ferðalag barnsins í heiminn hefst.
Hvað getur þú gert?
Þegar fæðingin er komin vel af stað finnurðu að þú þarft nú að einbeita þér að því sem er að gerast í líkama þínum og því fylgir þörf fyrir ró og næði. Mikilvægt er að missa ekki trúna á sjálfa þig og líkama þinn, þótt þetta sé erfitt. Hríðirnar eru orðnar það sterkar að þér finnst erfitt að halda uppi samræðum á meðan þeim stendur eða halda áfram daglegri iðju (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Þú finnur hjá þér þörf fyrir að hvíla þig vel á milli hríða og þarft líklega að beita ýmsum bjargráðum til þess að takast á við hríðirnar. Gott er að fara í sturtu eða bað. Heitir eða kaldir bakstrar koma sér vel eða gott nudd. Nærvera hins verðandi föður/maka, snerting og ástúð örvar framleiðslu fæðingarhormóna og veitir vellíðan og öryggistilfinningu. Ró og þolinmæði eru talin hafa smitandi áhrif (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Mikilvægt er fyrir þig að breyta um stellingar og slaka vel á á milli hríðanna. Þegar þú breytir um stellingar og gerir rugguhreyfingar í mjöðmum hjálpar það barninu að smokra sér niður fæðingarveginn. Uppréttar stellingar virka vel, því þyngdaraflið hjálpar einnig barninu að mjaka sér niður. Það er gott að fá aðstoð við að breyta um stellingar og stuðning við að finna hvaða bjargráð bæta líðan þína (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Þú hefur e.t.v. ekki lyst á mat en þarft að gæta að því að drekka vel. Mikilvægt er að þú farir reglulega á klósett til að tæma þvagblöðruna. Hinn verðandi faðir eða maki þarf að gæta að því að nærast sjálfur til þess að hafa orku (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Sumar konur lenda í því að barnið þrengir að þvagblöðrunni og getur því móðirin ekki pissað þrátt fyrir að vera mikið mál. Ljósmóðir mun þá nota þvaglegg til þess að losa blöðruna og er fullkomlega eðlilegt að lenda í þeim aðstæðum og ekkert til að hræðast.
Það er misjafnt hve langan tíma fæðing tekur og það er því erfitt að áætla tímalengd hverrar fæðingar fyrir sig. Að meðaltali tekur útvíkkunartímabil fæðingar 12–14 kukkustundir. Það er alveg eðlilegt þó útvíkkunartímabilið taki mun lengri tíma en það, svo framarlega sem móðir og barn eru við góða heilsu. Rembingstímabil fæðingar getur tekið mislangan tíma. Öllu jafnan má reikna með að það taki ½-2 klukkustundir.
Sömuleiðis tekur fæðing fylgjunnar mislangan tíma. Oftast er fylgjan fædd innan klukkustundar frá fæðingu barnsins.
Ferðalag barnsins í heiminn
Ferðalag barnsins út í heiminn hefst þegar opnun leghálsins er lokið. Nú er lengsta tímabil fæðingar að baki þ.e. útvíkkunarstigið. Hríðirnar halda áfram svipað og áður, þó getur verið lengra hlé á milli hríða sem gefur tækifæri til þess að hvílast vel (Heilsuvera.is, e.d.).
Tilfinningin fyrir hríðunum breytist og þú finnur fyrir auknum þrýstingi niður í endaþarm og grindarbotn. Hægðatilfinning gerir vart við sig og þörfin fyrir að rembast verður mjög sterk. Nauðsynlegt er að láta undan þessari þörf og rembast með hríðunum sem koma með reglulegum hléum (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).
Hríðirnar og rembingur eru þeir kraftar sem mjaka barninu niður fæðingarveginn. Stundum fæðist barnið eftir nokkrar rembingshríðir en oftast gengur það hægar.
Flestum finnst mikill léttir að byrja að rembast. Það er uppörvandi að sjá fyrir endann á fæðingunni.
Hvað getur þú gert?
Mundu að líkaminn veit hvernig hann á að fæða barnið alveg eins og hann veit hvernig á að sjá barninu fyrir næringu og súrefni á meðan það er í móðurkviði. Mikilvægt er að þú treystir á líkama þinn og sjálfan þig. Þú getur prófað þig áfram með stellingar sem henta þér fyrir rembing. Það getur tekið tíma að finna hvernig þér finnst best að rembast. Þolinmæði hjálpar. Pásurnar sem gefast milli hríða eru mikilvægar til þess að slaka á og safna orku.
Hinn verðandi faðir eða maki léttir undir með nærveru sinni, ástúð, uppörvun og umönnun. Kaldur klútur á ennið, svalandi drykkir og ísmolar hressa og styrkja. Samvinna allra þeirra sem taka þátt í fæðingunni skiptir verulegu máli.
Strax og barnið er fætt er það lagt í fang móðurinnar þar sem það nýtur snertingar við húð og hlýjuna frá henni. Fljótlega er skilið á milli með því að klippa á naflastrenginn og þá hefst sjálfstætt líf barnsins. Foreldrarnir og barnið nú sameinast sem fjölskylda.
Njótið þess að hafa barnið í fanginu og veita því nærveru. Reynið að ná augnsambandi við barnið og talið við það. Barnið er vel vakandi fyrst eftir fæðinguna og það veitir tækifæri til að hefja tengslamyndun.
Mikilvægt er að njóta þessarar stundar með barninu. Það má bíða með að vigta barnið og mæla eða taka upp símann til þess að láta aðra vita af komu þess.
Fæðing fylgjunnar
Þegar barnið er fætt hefur fylgjan lokið hlutverki sínu. Samdrættir halda áfram í leginu til þess að losa fylgjuna frá legveggnum. Móðirin þarf að rembast létt með samdráttunum þar til fylgjan fæðist. Vegna þess hve fylgjan er mjúk er fæðing hennar oftast auðveld.
Eftir fæðingu fylgjunnar athugar ljósmóðirin hvort þurfi að sauma móðurina. Ef þess þarf er það oftast gert í staðdeyfingu.
Hvað getur þú gert?
Ef fæðing fylgjunnar lætur standa á sér, hjálpar að fara í upprétta stöðu. Alveg eins og upprétt staða hjálpar barninu að fæðast, hjálpar staðan fylgjunni að fæðast. Örvun brjóstvörtunnar hjálpar einnig. Þegar barnið sýgur brjóstið flýtir það fyrir fæðingu fylgjunnar.
Hvenær ætti að fara á fæðingarstað?
- Þér er óhætt að vera heima eins lengi og þú treystir þér til en ef þú ert óörugg eða í vafa um hvað sé best að gera er gott að ræða við ljósmóður í mæðraverndinni eða hringja á fæðingarstaðinn þar sem þú hefur ákveðið að eiga.
- Ef samdrættir eru sterkir og reglulegir, hafa staðið yfir í klukkustund eða lengur og það líða 2-5 mínútur á milli þeirra, er gott að hafa samband við ljósmóður á fæðingarstað.
- Einnig ef þú finnur fyrir miklum þrýstingi niður með samdráttunum.
- Ef sárir og reglulegir samdrættir byrja fyrir 37 vikna meðgöngu, ættir þú að hringja á fæðingarstað.
Við komu á fæðingarstað
Þegar komið er á fæðingarstað tekur ljósmóðir á móti ykkur. Hún ræðir við ykkur um óskir ykkar og væntingar.
- Ljósmóðirin skoðar og metur; legu, stærð og skorðun barnsins, hjartslátt og hreyfingar.
- Blóðþrýstingur móðurinnar, hiti og púls eru mæld.
- Styrkur og lengd hríðanna eru metin.
Með innri skoðun er hægt að meta breytingu á leghálsinum, ásamt því að skoða hvort legvatnið sé farið.
Hve langan tíma tekur fæðingin?
Það er misjafnt hve langan tíma fæðing tekur og því er erfitt að áætla tímalengd hverrar fæðingar fyrir sig.
- Að meðaltali tekur útvíkkunartímabil fæðingar 12–14 klukkustundir.
- Það er alveg eðlilegt þótt útvíkkunartímabilið taki mun lengri tíma en það, svo framarlega sem móðir og barn eru við góða heilsu.
- Rembingstímabil fæðingar getur tekið mislangan tíma. Öllu jafnan má reikna með að það taki ½-2 klukkustundir.
- Sömuleiðis tekur fæðing fylgjunnar mislangan tíma. Oftast er fylgjan fædd innan klukkustundar frá fæðingu barnsins.
Heimildaskrá
- Heilsuvera (e.d.). Fæðing. Sótt af heilsuvera.is
- Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann. (2007). Meðganga. Sótt af heilsugaeslan.is
- Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann. (2016). Fæðingin. Sótt af heilsugaeslan.is
Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.
Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112.
Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.
Nánari skilmála er að finna hér.