Skip to content

LÍÐAN MÓÐUR

Fæðing reynir mikið á, bæði tilfinningalega og líkamlega og hormónastarfsemin breytist mikið fyrstu dagana eftir hana. Hversdagurinn rennur upp en margt hefur breyst. Það þarf að sjá fyrir þörfum barnsins og ef til vill tekur brjóstagjöfin meiri tíma en gert var ráð fyrir. Verkir eða óþægindi geta fylgt ef það hefur þurft að sauma eftir fæðinguna. Fjölskylda og vinir vilja koma í heimsókn til að líta á nýfædda barnið (Karitas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).

Sumar konur hafa áhyggjur af því að þær finna ekki til móðurástar strax eftir fæðingu en það er eðlilegt. Rétt eins og með önnur sambönd í lífinu þurfa tengslin að þróast. Það er ekki alltaf ást við fyrstu sýn (Heilsuvera.is, e.d.).

Sængurkvennagrátur

Sumar konur finna fyrir leiða eða depurð eða verða grátgjarnar í kringum þriðja dag eftir fæðingu. Sængurkvennagrátur einkennist af skapsveiflum, grátköstum, kvíða, eirðarleysi, svefnleysi og fleira. Sængurkvennagrátur er meðal annars talinn stafa af breytingum í hormónajafnvægi líkamans eftir fæðinguna og meðgönguna.

Sængurkvennagrátur er talið eðlilegt fyrirbæri en ef ástandið varir lengur en í tvær vikur er ástæða til að leita sér aðstoðar. Ekki allar konur finna fyrir einkennum sængurkvennagráts en það er mjög algengt því hátt í 80% kvenna finna einhvern hluta einkennanna (Ljosmodir.is, e.d.). Þetta á sérstaklega við ef fæðingin var erfið og konan er þreytt eða hefur einhverjar áhyggjur. Ef til vill finnst henni hún ekki standa sig nægilega vel eða geta hugsað um barnið sitt eins vel og hún vildi (Heilsuvera.is, e.d.).

Grátur er helsta einkennið og oftast er það eitthvað smávægilegt sem grætir konuna. Þetta ástand varir oftast í stuttan tíma og hverfur jafn skjótt og það hófst. Þetta er saklaus kvilli og gengur yfir á nokkrum dögum (Karitas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016).

Það mikilvægasta sem nýbökuð móðir eða nýbakaðir foreldrar gera eftir fæðingu er að hugsa vel um sig, barnið sitt og fjölskylduna. Í byrjun er mikilvægt að einbeita sér að því að kynnast barninu, hvíla sig vel, sofa og koma brjóstagjöfinni vel af stað. Leyfið því að taka þann tíma sem þarf, það getur tekið nokkra mánuði áður en lífið er komið í fastar skorður á ný (Heilsuvera.is, e.d.).

Fæðingarþunglyndi

Um 15% kvenna upplifa fæðingarþunglyndi. Einkennin eru oft þau sömu og við sængurkvennagrát en þau vara lengur og geta verið alvarlegri. Það er mikilvægt að leita sér hjálpar ef grunur leikur á að kona þjáist af fæðingarþunglyndi þar sem ómeðhöndlað fæðingaþunglyndi getur haft áhrif á tengslamyndun móður og barns.

Nánar um fæðingarþunglyndi

Líkamlegar breytingar

Miklar líkamlegar breytingar verða á meðgöngu og eftir fæðingu. Það er algjört kraftaverk hvernig kvenlíkaminn aðlagast breyttum aðstæðum. Eftir fæðinguna er kvenlíkaminn mjög viðkvæmur og mikilvægt er að hann fái að jafna sig hægt og rólega.

Hér fyrir neðan eru áhugaverðar greinar og efni um ýmis atriði sem eru mikilvæg og got að fræðast um og hafa í huga eftir fæðingu.

Líkamsmyndin

Líkamsmynd er hluti af sjálfsmynd fólks og snýr að hugsunum, skynjunum og tilfinningum þess til eigin líkama. Hún mótast, rétt eins og sjálfsmyndin, í gegnum samskipti okkar við umhverfið þar sem við lærum meðal annars hvað þykir æskilegt og hvað ekki hvað varðar líkamlegt útlit og virkni og hvernig okkar eigin líkami fellur að þeim viðmiðum (Heilsuvera.is, e.d.).

Almennt sýna rannsóknir að stúlkur og konur séu með neikvæðari líkamsmynd en drengir og karlar. Þetta er rakið til samfélagslegs þrýstings sem ríkt hefur í garð kvenna í gegnum tíðina um að uppfylla ströng útlitsviðmið, svo sem að vera grannar, leggjalangar og mittismjóar. Rannsóknir hafa um áratuga skeið sýnt að stór hluti kvenna er óánægður með líkama sinn og beitir ýmsum aðferðum til að breyta líkama sínum og útliti (Heilsuvera.is, e.d.).

Þetta þýðir þó ekki að drengir og karlmenn séu undanskildir áhyggjum af útliti og líkamsvexti og hafa kröfur í þeirra garð farið vaxandi á undanförnum áratugum. Sem dæmi hafa leikföng og hetjur ungra drengja á borð við Ofurmennið og Kóngulóarmanninn orðið mun vöðvastæltari með árunum en þeir voru í upphafi. Þessar áherslur endurspegla áhyggjur drengja og karla af líkamsvexti sem snúa helst að því að finnast þeir ekki nógu stæltir, skornir og sterkbyggðir (Heilsuvera.is, e.d.).

Líkamsmyndin hefur margvísleg áhrif á líðan, heilsu og lífsgæði okkar. Slæm líkamsmynd tengist meðal annars lágu sjálfsmati, kvíða, aukinni hættu á þróun átraskana og þunglyndis, minni hreyfingu, óheilbrigðum matarvenjum og minni ánægju af kynlífi. Það er því mikilvægur hluti af almennri heilsueflingu að stuðla að jákvæðri líkamsmynd í samfélaginu og skapa aðstæður sem auðvelda fólki að lifa sátt í eigin skinni ævina á enda (Heilsuvera.is, e.d.).

HEIMILDASKRÁ

  • Karitas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann (2016). Fyrstu dagarnir eftir fæðingu. Sótt af heilsugaeslan.is
  • Heilsuvera (e.d.) Fyrstu dagarnir eftir fæðingu. Sótt af heilsuvera.is
  • Heilsuvera (e.d.) Hvað er líkamsmynd. Sótt af heilsuvera.is 
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.) Sængurkvennagrátur og fæðingarþunglyndi. Sótt af ljosmodir.is

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.