Skip to content

FJÖLBURAMEÐGANGA

Flestar konur sem ganga með tvíbura eru heilbrigðar alla meðgönguna og flestir tvíburar fæðast heilbrigðir og fullburða eftir eðlilega fæðingu (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann og Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Miðstöð mæðraverndar 2016).

Tvíburameðgöngu fylgir þó áhætta. Til dæmis er mun hærri tíðni fyrirburafæðinga og þær konur sem ganga með tvíbura eru í meiri hættu á að fá meðgöngueitrun og e.t.v. meðgöngusykursýki. Auk þess er hætta á misræmi í vexti tvíburanna, vaxtarskerðingu hjá öðrum þeirra eða báðum og tvíbura-tvíbura blóðrennslissjúkdómi (heilsuvera.is, e.d.).

Þegar konur ganga með tvíbura eða fjölbura geta þungunareinkenni í mörgum tilfellum verið meiri eða ýktari en hjá öðrum verðandi mæðrum.

  • Hjá konum sem ganga með tvíbura eða fjölbura stækkar legið hraðar og geta ýmsir meðgöngukvillar komið fyrr fram.
  • Brjóstsviði er algengur kvilli sem kemur þar sem legið þrýstir á maga konunnar og magasýrur berast upp í vélinda.

Að öðru leiti eru einkennin svipuð, sjá nánar hér (fyrsti þriðjungur). Það er misjafnt hvenær konur komast að því að þær eigi von á tveimur börnum (eða jafnvel fleirum). Sumar konur fara í snemmómskoðun og kemur þetta þá í ljós á meðan aðrar fá fréttirnar í 11-14 vikna ómskoðun (ljosmodir.is, e.d.).

Tvíburafæðingum hefur fjölgað í heiminum, sérstaklega eftir 1990. Hormónameðferðir og tæknifrjóvganir hafa þar mest áhrif eða í um fjórðungi tilfella. Langflestir tvíburar sem fæðast eftir slíkar meðferðir eru tvíeggja (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann og Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Miðstöð mæðraverndar 2016).

Meðal meðgöngulengd tvíbura á Íslandi eru 36 vikur. Algengara er að tvíburar með þunn eða engin belgjaskil fæðist fyrir tímann. Almennt er stefnt að fæðingu í kringum 37-38 vikur ef meðgangan gengur vel (ljosmodir.is, e.d.a.).

HVERNIG VERÐA TVÍBURAR TIL?

Vöxtur

Á tvíburameðgöngu er fylgst vel með vexti barnanna. Algengast er að vöxturinn sé nokkuð jafn. Ef um tvíeggja tvíbura er að ræða er eðlilegt að vöxtur sé ólíkur að einhverju leyti sem skýrist af erfðafræðilegum þáttum. Það er þó nauðsynlegt að fylgjast með því að börnin séu bæði innan eðlilegrar vaxtarkúrfu miðað við meðgöngulengd (ljosmodir.is, e.d.b).

Vaxtarmisræmi sést hjá um það bil 10-15% tvíbura. Meiri hætta er um misræmi í fósturvexti hjá tvíburum sem deila fósturbelgjum og fylgju (þunn eða engin belgjaskil). Algengast er að þetta misræmi byrji í kringum 28. viku meðgöngunnar (ljosmodir.is, e.d.b).

Misræmi eða vaxtarskerðing getur komið fram á eftirfarandi hátt:

  • Annar tvíburinn getur verið talsvert minni en hinn
  • Annar tvíburinn er lítill miðað við meðgöngulengd
  • Báðir tvíburarnir eru litlir miðað við meðgöngulengd

Ástæðan fyrir vaxtarmisræmi eða vaxtarskerðingu geta verið t.d. vegna:

  • Tvíbura-tvíbura blóðrennslissjúkdómur eða twin to twin transfusion syndrome, nánari upplýsingar hér
  • Sýking í móðurkviði
  • Tregða í blóðflæði um fylgju
  • Staðsetning naflastrengja á fylgju (ef annar strengur er staðsettur nálægt fylgjukantinum er hætta á að sá tvíburi verði minni)

EINEGGJA EÐA TVÍEGGJA

Með ómskoðun er hægt að greina hvort belgjaskil milli fóstranna eru þykk eða þunn. Þunn belgjaskil gefa til kynna að fóstrin séu eineggja en ef belgjaskilin eru þykk eru mestar líkur á því að þau séu tvíeggja. Ef fóstrin eru af sínu kyninu hvort er enginn vafi á því að þau eru tvíeggja (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann og Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Miðstöð mæðraverndar 2016).

Eineggja tvíburar verða til úr nákvæmlega sama erfðaefninu, einu eggi og einni sæðisfrumu, og eru þess vegna að miklu leyti eins. Eineggja tvíburar samt aldrei alveg nákvæmlega eins sem sýnir og sannar að genin ein ráða ekki öllu um þroska einstaklingsins (visindavefur.is, e.d.).

Tvíeggja tvíburar verða hins vegar til úr tveimur eggjum og tveimur sæðisfrumum og eru ekki líkari erfðafræðilega en venjuleg systkini.

Eineggja tvíburar

Eineggja tvíburar verða til þegar eitt egg, frjóvgað af einni sæðisfrumu, skiptir sér og það myndast tvö sjálfstæð fóstur. Skiptingin verður í síðasta lagi 13 dögum eftir frjóvgun. Eineggja tvíburar hafa sömu erfðaeiginleika og eru mjög líkir í útliti, af sama kyni, með sama augnlit og háralit, svipaða líkamsbyggingu en með mismunandi tennur og fingraför. Því fyrr sem eggið skilur sig eftir frjóvgun því ólíkari geta eineggja tvíburar verið. Eineggja tvíburar geta haft sameiginlega fylgju, samvaxnar fylgjur eða sína fylgjuna hvor. Ef eggið skiptir sér snemma eftir frjóvgun í tvö fóstur, eru miklar líkur á því að fylgjurnar verði tvær. Það gerist í um það bil 30% tilvika (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann og Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Miðstöð mæðraverndar 2016).

Utan um fóstur eru tvöfaldir fósturbelgir: ytri fósturbelgur (æðabelgur) og innri fósturbelgur (líknarbelgur). Algengast er að eineggja tvíburar hafi ytri fósturbelg sameiginlegan en hafi sinn innri fósturbelginn hvor. Eineggja tvíburar geta haft sinn innri og ytri fósturbelginn hvor. Stöku sinnum gerist það að eineggja tvíburar hafa ytri og innri fósturbelgi sameiginlega (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann og Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Miðstöð mæðraverndar 2016).

Tvíeggja tvíburar

Þegar tvö egg frjóvgast af tveimur sæðisfrumum verða til tvíeggja tvíburar. Þeir geta verið af sama kyni eða hvor af sínu kyni. Fóstrin geta þroskast og vaxið hvort með sínu móti og erfðaeiginleikar þeirra eru eins og hjá öðrum systkinum (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann og Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Miðstöð mæðraverndar 2016).

Tvíeggja tvíburar hafa alltaf sína fylgjuna hvor. Fylgjurnar geta þó verið samvaxnar og þá þarf að meta eftir fæðingu hvort um eina eða tvær fylgjur hafi verið að ræða. Tvíeggja tvíburar hafa alltaf sinn fósturbelginn hvor, bæði innri og ytri (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann og Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Miðstöð mæðraverndar 2016).

MÆÐRAVERND

Konum sem ganga með tvíbura eða fjölbura stendur til boða að hitta fæðingarlækni snemma á meðgöngu. Auk þess fá þær viðtal við ljósmóður með sérþekkingu á tvíburameðgöngum. Það viðtal fer fram á göngudeild mæðraverndar á Landspítalanum. Þá er mælt með að þær hitti heilsugæslulækni að minnsta kosti tvisvar á meðgöngunni (ljosmodir.is, e.d.).

Konur sem ganga með tvíbura sem hafa svokölluð þykk belgjaskil geta í flestum tilfellum verið í mæðravernd á sinni heilsugæslustöð. Konur sem ganga með tvíbura sem hafa þunn eða engin belgjaskil þurfa að vera í eftirliti á göngudeild mæðraverndar á Landspítalanum. Einnig þurfa konur sem hafa ákveðna áhættuþætti eins og til dæmis ýmsa undirliggjandi sjúkdóma, fyrri sögu um meðgöngueitrun eða háþrýsting, fyrirburafæðingu, vaxtarseinkun fósturs eða meðgöngusýkursýki að vera í sérhæfðu eftirliti á göngudeild mæðraverndar 22-B á Landspítalanum (ljosmodir.is, e.d.).

Fjöldi skoðana og ómskoðana á meðgöngu fer eftir því hvort um er að ræða þykk belgjaskil eða þunn/engin og einnig líðan og ástandi móður og barna.

MATARÆÐI

Sömu mataræðisleiðbeiningar gilda að mestu fyrir konur sem ganga með tvíbura og aðrar barnshafandi konur. Gott er að hafa í huga að orkuþörf getur verið aukin (ca 300 kkal meiri en í einburameðgöngu) og þær finna gjarnan til aukinnar svengdar. Konum sem ganga með tvíbura ráðlagt að taka inn járn og fjölvítamín. Þá er mikilvægt að hafa í huga að ef tekið er lýsi samhliða þarf að velja fjölvítamín sem inniheldur ekki A vítamín (ljosmodir.is, e.d.c.).

Nánar um mataræði á meðgöngu er að finna hér – bæklingurinn var gefinn út árið 2018.

ANDLEG LÍÐAN

Það getur verið yfirþyrmandi að komast að því að barn sé væntanlegt, hvað þá ef þau eru fleiri en eitt. Þá skiptir ekki máli hvort þungunin var plönuð eða ekki. Þá geta viðbrögð verðandi foreldra verið mjög misjöfn og er mikilvægt að báðir aðilar fái tækifæri til þess að átta sig og jafna sig á fréttunum, sérstaklega er um óráðgerða þungun er að ræða. Ef um ráðgerða þungun er að ræða getur það reynst áfall að komast að því að börnin séu fleiri en eitt (ljosmodir.is, e.d.d.).

Það er nauðsynlegt að ræða tilfinningar sínar og líðan við maka. Ef verðandi foreldrar finna fyrir miklum áhyggjum eða kvíða á meðgöngunni er mikilvægt að ræða það við ljósmóður en hún getur oft aðstoðað við að finna lausnir eða vísa fólki áfram til viðeigandi aðila eftir því sem við á (ljosmodir.is, e.d.d.).

HEIMILDASKRÁ

  • Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann, Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmæður. Mæðravernd Þróunarsviði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. (2016). Tvíburameðganga. Sótt af heilsugaeslan.is 
  • Heilsuvera (e.d.). Tvíburameðganga. Sótt af heilsuvera.is
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.). Meðgönguvernd. Sótt af ljosmodir.is
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.a.). Einkenni fyrirburafæðingar. Sótt af ljosmodir.is
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.b.). Tvíburameðganga – vöxtur. Sótt af ljosmodir.is
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.c.). Tvíburameðganga – næring á meðgöngu. Sótt af ljosmodir.is
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.d.). Tvíburameðganga – andleg líðan á meðgöngu. Sótt af ljosmodir.is
  • Vísindavefurinn (e.d.). Er arfgengt að eignast tvíbura?. Sótt af visindavefur.is

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.