Skip to content

3 MÁNAÐA

BARNIÐ ÞITT Í HNOTSKURN

Hæð 54,9cm - 67cm (meðaltal)

Þyngd 4,35 kg til 8,54 kg (meðaltal)

Barnið þitt er orðið þriggja mánaða og foreldrahlutverkið farið að venjast. Flest börn eru komin með ágæta rútína hvað varðar matartíma og svefn. Þó eru sum börn sem ennþá fylgja engri rútínu og mundu að það er allt í lagi. Í stuttu máli er nýfædda barnið þitt orðið ungabarn.

Það sem er gaman við þennan tíma er að barnið er farið að þekkja sína nánustu, t.d. mömmu, pabba, ömmu eða afa, þó ekki með nafni en veit hver er hver. Það er því líklegt að þegar barnið vaknar eftir lúr, brjótist fram mikil tilhlökkun við það að sjá foreldri. Heilinn heldur áfram að þroskast og skynfærin eflast með hverjum degi. Barnið heyrir vel hljóð og snýr höfðinu í áttina að því þegar t.d. einhver er að tala eða tónlist í gangi. Snerting er mikilvæg og það er engin regla sem segir hversu mikið má kyssa og knúsa barnið sitt.

Barnsgrátur hefur verið aðal tjáningarform barns fyrstu mánuði í lífi þess en við þriggja mánaða aldur er barnið farið að tjá sig með hjali og öðrum hljóðum. Foreldrar og nánustu ættingjar þekkja því oft hvaða grátur eða hljóð þýðir hvað, t.d. svengd, blaut bleyja og þreyta. Greindarvísitala barna hækkar á þessum tíma með mikilli örvun í hreyfingu, söng, lestri og fleira og því er mikilvægt að örva barnið reglulega.

Fyrir utan að barn kynnist umheiminum í kringum sig, er hreyfiþroski og handa- og augnhreyfingar að eflast og aukast með hverjum deginum. Spörk hjá barni eru taktfastari og ekki láta þér bregða ef barnið tekur upp á því að sveifla höndum fyrir framan sig í átt að hlutum. Styrkur í efri hluta líkamans er orðinn mun stöðugri en þó skal ávallt halda við höfuð barns þar sem það er ekki orðið nógu stöðugt til að halda eigin höfði. Aðrar hreyfingar til að fylgjast með er meðal annars að opna og loka lófa og setja hendur í munn.

Þriggja mánaða barn er ekki orðið nógu gamalt til þess að byrja að borða fasta fæðu og á því eingöngu að drekka brjóstamjólk og/eða mjólkurformúlu. Það eru þó tilvik þar sem barn hefur þurft að fá graut til að fá meiri magafyllingu. Þetta er framkvæmt í samráði við ljósmóður og/eða lækni. Sjá nánar í bæklingi frá Landlæknisembættinu, næring ungbarna hér.

Á þessum tímapunkti prufa sumir að kynna barnið sitt fyrir pela og þá sérstaklega til þess að leyfa mökum að taka meiri þátt í fæðutíma þess. Þetta er vissulega einstaklingsbundið þar sem sumar mæður vilja pumpa sig til þess að geta skroppið út á meðan aðrar mjólka ekki nóg og þurfa því að gefa formúlu sem ábót með brjóstagjöf. Þær mæður sem vilja eingöngu halda sig við brjóstagjöf geta leyft mökum að taka þátt í fæðugjöf með því að maki láti barnið ropa og/eða leggi það í rúmið sitt fyrir nætursvefninn.

Svefntími þriggja mánaða barna er að meðaltali 15 klukkustundir á dag, sem inniheldur bæði nætursvefn og daglúra. Þó að barnið þitt sofi ekki alla nóttina í einum rykk þá er nætursvefninn að lengjast og sömuleiðis daglúrarnir. Ef þitt barn sefur lítið í senn og þér líður eins og að engin hvíld sé fram undan, skal ekki örvænta. Ef það er ekki komin ákveðin svefnrútína á barnið er þetta góður tími til þess að byrja.

Nokkrar hugmyndir: 

  • Að gera greinarmun á dag og nótt, t.d. með því að draga frá glugga á daginn, sofa í vagni eða á öðrum stað í húsinu yfir daginn. 
  • Að hafa daglúra á svipuðum tíma dags á hverjum degi.
  • Að láta maka sjá um að koma barninu í nætursvefn.
  • Að láta maka sjá um og/eða aðstoða á næturnar.

Við mælum með eftirfarandi upplýsingum varðandi svefnvenjur ungbarna:

Síðan var uppfærð nóvember 2020

BARNIÐ ÞITT Í TÖLUM

MÁNAÐA
VIKNA
DAGA

5 MÁNAÐA

Viltu fræðast um hvað gerist og ráðleggingar hjá fimm mánaða barni? Ýttu hnappinn

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.