Skip to content

ÞRIÐJI ÞRIÐJUNGUR

Þriðji þriðjungur meðgöngu er mánuður sjö til níu (vika 29 til 42). Litla krílið nær fullum þroska á þessum mánuðum og fer að undirbúa stöðu sína fyrir fæðingu. Þú gætir fundið fyrir togverkjum og verkjum í húð með stækkandi bumbu. Liðböndin teygjast enn meir og þyngd bumbunnar er meiri með stækkandi kríli.

Eðlilegt er að finna milda krampa og stingi þegar teygist á liðböndunum. Mundu að hvíla þig vel ef verkirnir eru viðvarandi en þeir geta aukist við áreynslu.

Braxston Hicks samdrættir: þú gætir fundið fyrir þessum saklausu samdráttum sem eru leið líkamans til að undirbúa fæðinguna. Ef þú vilt fræðast meira um Braxton Hicks samdrætti þá er ágæt grein hér.

Þreyta og svefn: eftir annan þriðjung getur þreytan aftur farið að aukast ef þú fannst fyrir meiri orku síðustu vikur. Á lokasprettinum getur þreytan verið viðvarandi og mikilvægt er að hlusta á þarfir þínar með því að sofa og hvílast. Gönguferð að kvöldi, slökunarbað, flóuð mjólk og ljúf tónlist fyrir svefninn geta hjálpað. Fleiri hugmyndir er að finna m.a. hér og nánari upplýsingar um svefnþörf á meðgöngu eru hér.

Svefntruflanir: slíkar truflanir geta átt sér stað vegna sérstakra meðgöngukvilla, t.d. vegna verkja eða kláða og er stundum hægt að meðhöndla með viðeigandi úrræðum. Best er að hafa samband við sína ljósmóður í mæðraverndinni.

Brjóstsviði: ef brjóstsviði hefur ekki verið viðvarandi í gegnum meðgönguna, gætir þú fundið fyrir honum á þessu stigi. Legið þrýstir magainnihaldinu upp og veldur óþægindum. Til eru ýmsar leiðir til að létta á óþægindunum. Nánar má lesa um brjóstsviða á meðgöngu á ljosmodir.is hér.

Annað: slit á húð, skrítnir draumar, æðahnútar og hinir ýmsu verkir geta einnig verið til staðar á þessum síðustu mánuðum og allt eru þetta eðlilegir fylgifiskar meðgöngunnar.

Gátlisti

  • Fylgjast með fósturhreyfingum
  • Reyna að hreyfa sig
  • Undirbúa spítalatösku
  • Undirbúa heimilið

Fyrirvaraverkir

Aðdragandi fæðingar getur verið mislangur og oft er erfitt að greina á milli svonefndra fyrirvaraverkja og þess að fæðingin sé örugglega byrjuð. Það er algengt að konur finni fyrir sterkum samdráttum síðustu vikur meðgöngunnar. Samdrættirnir geta staðið yfir í nokkrar klukkustundir, hluta úr degi eða yfir nótt. Þeir hætta og byrja svo aftur. Slíkir samdrættir kallast fyrirvaraverkir (Braxton Hicks samdrættir) og geta varað í marga daga, jafnvel vikur fyrir fæðingu. Þeir eru án sársauka og standa í 30-60 sekúndur. Það getur reynt verulega á þolinmæði og úthald móðurinnar/foreldranna, bæði líkamlega og andlega. Sumar konur finna ekki fyrir neinum fyrirvaraverkjum áður en fæðingin hefst (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann, ljósmæður Miðstöð mæðraverndar 2007).

Hvað getur þú/þið gert?

Best er að nota þennan tíma til að undirbúa sig fyrir fæðinguna, bæði andlega og líkamlega. Gott er að ræða við maka og/eða þann sem verður með þér í fæðingunni um hina ýmsu þætti fæðingarinnar.

Það er kjörið að nota síðustu heimsóknir í mæðraverndina til þess að ræða væntanlega fæðingu og bera fram þær spurningar og vangaveltur sem þú/þið hafið.

Verðandi móðir

Dekraðu við sjálfa þig. Sjáðu til þess að þú fáir nægilega hvíld og góða næringu á hverjum degi. Gott er að fara snemma í háttinn. Ef fæðing byrjar fyrri hluta nætur hefurðu tryggt þér einhverja hvíld.

Njóttu þess að finna hvernig barnið þitt hreyfir sig því það er einnig að búa sig undir fæðinguna. Þú getur dundað þér við eitthvað í rólegheitum, sofið fram eftir, farið í gönguferðir, sund eða notalegt bað, lagt þig þegar þér finnst þú þurfa þess, lesið bók, horft á bíómynd, farið í hárgreiðslu, fótsnyrtingu, meðgöngunudd eða bara gert það sem þig langar og getur hverju sinni.

Ef þú ert með börn heima getur þú gert flest af þessu með þeim og ágætt er að leggja sig með börnunum ef það á við. Ef þú ert eitthvað óróleg hafðu samband við ljósmóðurina í mæðraverndinni. Gangi þér vel.

Símanúmer á fæðingarvakt 23B á LSH er 543-3049.

Gott er að hafa símanúmerið skrifað niður á blað og/eða í farsíma þegar settur dagur nálgast. Upplýsingar um aðra fæðingarstaði á Íslandi er hægt að finna hér.

Það er alltaf mikilvægt að hlusta á eigið innsæi. Þó flestar meðgöngur gangi vel fyrir sig þá hefur verið sýnt fram á að minnkaðar hreyfingar barns geti bent til þess að barnið sé í vanda. Ef hreyfingar barns eru minni en þú ert vön að finna þá ættir þú að ræða við ljósmóður eða lækni. 

Hvert á að hafa samband

Á hverri heilsugæslustöð eru ljósmæður og læknar sem veita símaráðgjöf alla virka daga frá kl. 08:00 – 16:00.

Utan dagvinnutíma

  • Á höfuðborgarsvæðinu er ráðlagt að leita til Meðgöngu- og sængurlegudeildar Landspítala, sími 543-3220.
  • Á landsbyggðinni leita konur til sinnar Heilbrigðisstofnunar. Vaktsími 1700

HEIMILDASKRÁ

  • Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann, ljósmæður Miðstöð mæðraverndar. (2007). Meðganga. Sótt af heilsugaeslan.is 

Síðast uppfært nóvember 2021

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.