Skip to content

FRJÓSEMI

Þegar talað er um frjósemi er átt við það þegar kona eða karl geta gefið af sér afkvæmi á náttúrulegan hátt. Einn af hverjum sex sem þráir að eignast barn hér á landi glímir við ófrjósemi.

Við rannsóknir á frjósemi og þeim möguleikum sem í boði eru til að eignast barn, er eðlilegt að skoða báða aðila og í tilfelli karla er oftar en ekki verið að horfa til magns sæðisfrumna og framleiðslu þess. Talað hefur verið um ýmsar leiðir til að auka frjósemi.

Til að mynda hefur pörum verið ráðlagt að huga að mataræði sínu og lífsstíl og taka inn réttu bætiefnin. Tæknilega séð er konan frjó svo lengi sem egglos verður en gæði eggjanna takmarka frjósemina.

Frjósemi kvenna

Konur fæðast með öll sín egg í eggjastokkunum, öfugt við karlmenn sem framleiða sáðfrumur jafnóðum. Með tímanum fækkar eggjunum stöðugt frá fæðingu, meðal annars vegna hrörnunar.

Gróflega áætlað, eru um það bil 400.000 egg í eggjastokkunum við fæðingu en við kynþroska eru þau orðin um 40.000. Ýmislegt getur haft áhrif á gæði eggjanna eins og aldur og umhverfi, bæði á fósturskeiði og eftir fæðingu.

Venjulega losar kona bara einu eggi í hverjum mánuði. Eggið ferðast meðfram einum eggjaleiðara en eggjaleiðarar tengja eggjastokkana við legið. Ef tímasetningin er rétt getur sæði frjóvgað það á leið til legsins. Ef frjóvgun á sér ekki stað innan 24 klukkustunda frá því eggið yfirgefur eggjastokkinn, leysist eggið upp.

Með hækkandi aldri verða eggin fyrir skemmdum, meðal annars á erfðaefni, sem veldur minni frjósemi og aukinni tíðni fósturláta, sem og aukinni tíðni litningagalla hjá barni. Þessar breytingar byrja að koma fram fljótlega eftir þrítugsaldurinn og fara stigvaxandi með tímanum.

Upp úr 35 ára aldri eykst hrörnunin hraðar en áður og í kringum fertugt er frjósemi konu almennt orðin lítil. Þennan mun hafa konur fundið sem eru að reyna að verða þungaðar á fertugsaldri. Það tók kannski stuttan tíma að verða þunguð 25 ára en eftir 35 ára aldur getur það tekið mun lengri tíma. Þegar konan fer svo í tíðahvörf hættir hún að hafa egglos og engin eggbú þroskast lengur í eggjastokkunum.

Frjósemi karla

Karlmenn framleiða sæðisfrumur frá kynþroskaaldri og fram á elliár. Upphaflega eru sæðisfrumur einungis æxlunarfrumur og þær breytast stig af stigi þar til fullþroskuð sáðfruma myndast. Þroskaferli sáðfrumna, frá æxlunarfrumu til fullþroska sáðfrumu sem getur frjóvgað egg, tekur um 70 daga og eftir að ferið er hafið er ekki hægt að hafa áhrif á það.

Talið er að um helming ófrjósemisvandamála megi rekja til vandamála hjá karlmanninum. Ýmsar ástæður eru fyrir ófrjósemi karla, til að mynda vandamál við að framleiða nægilega mikið af heilbrigðum frumum til að synda upp eggjaleiðara konunnar og frjóvga egg. Fyrsta skrefið í greiningu á ófrjósemi karla er rannsókn á sæðinu.

Nánari upplýsingar um ófrjósemi er að finna á tilvera.is, samtök um ófrjósemi hér.

HEIMILDASKRÁ

Síðan var síðast uppfærð í febrúar árið 2022.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.