Skip to content

ANNAR ÞRIÐJUNGUR

Annar þriðjungur meðgöngu er mánuður fjögur til sex (vika 13 til 28).

Á þessum tíma tilkynna verðandi foreldrar sínum nánustu yfirleitt um þungunina. Oft er talað um þessa mánuði sem bestu mánuði meðgöngunnar og þá ánægjulegustu.

Á þessu tímabili meðgöngunnar líður móðurinni jafnan vel þar sem ógleðin er oftast horfin, þreytan er á undanhaldi og orkan er meiri. Sumum konum finnst þeim jafnvel aldrei líða eins vel og um miðbik meðgöngunnar. (Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann, ljósmæður Miðstöð mæðraverndar 2007)

Kúlan fer stækkandi og fer jafnvel að fylla út í flíkur sem áður pössuðu yfir kviðinn. Með stækkandi fóstri er hægt að finna það hreyfast. Það gerist yfirleitt á viku 16 til 19. Fyrstu hreyfingar eru oft eins og loftbólur eða ólga í maganum en smám saman skynjar móðirin greinileg spörk og hreyfingar sem gefa henni staðfestingu á lífinu sem vex innra með henni.

Á þessum vikum stendur verðandi foreldrum til boða að fá hnakkaþykktarmælingu barnsins. Athugið vel að fósturskimun og fósturgreining er ávallt val verðandi foreldra. Ráðgjöf og stuðningur stendur öllum verðandi foreldrum til boða. 

Hnakkaþykktarmæling er gerð með ómskoðun við 11 til 14 vikna meðgöngu. Hnakkaþykkt sést á ómmynd sem svart svæði (vökvi) undir húð á hnakka fóstursins. Öll fóstur hafa vökva á þessu svæði snemma á meðgöngu. (Landlæknisembættið, 2010)

Nánar má lesa um hnakkaþykktarmælingu á landlaeknir.is hér

Tilgangur hnakkaþykktarmælingar er að:

  • staðfesta lifandi fóstur,
  • meta meðgöngulengd,
  • athuga fjölda fóstra,
  • skoða líkamsgerð fósturs eins vel og unnt er á þessum
    tíma m.t.t. hjartagalla og annarra sköpulagsgalla,
  • meta líkur á litningafráviki (þrístæðum 21,13 og 18)
    hjá fóstrinu með því að mæla hnakkaþykkt, skoða
    nefbein og mæla lífefnavísa í blóði móður (samþætt
    líkindamat).

Einnig er í boði fósturgreining á 19 til 20. viku. Í þeirri ómskoðun er meðal annars hægt að:

  • staðfesta meðgöngulengd,
  • áætla fæðingardag,
  • athuga fjölda fóstra (ef ekki hefur verið gerð ómskoðun
    áður),
  • greina kyn barns eða barna (ef foreldrar vilja vita það),
  • staðsetja fylgju,
  • skoða líkamsgerð fósturs m.t.t. sköpulagsgalla fósturs.

Í þessari skoðun greinast í stöku tilfellum sköpulagsgallar og frávik sem geta gefið tilefni til þess að bjóða foreldrum frekari rannsóknir, til dæmis hjarta- eða litningarannsókn. Hægt er að meðhöndla mörg þessara frávika með aðgerð eða annarri meðferð eftir fæðingu (Landlæknisembættið, 2010).

Nú er gott að kynna sér hvar sé hægt að fæða á Íslandi og hvaða leiðir eru í boði. Sjá nánari útlistun á fæðingarstöðum á Íslandi hér.

Aðrar upplýsingar: 

Blogg sem við mælum með: 

Það er alltaf mikilvægt að hlusta á eigið innsæi. Þó flestar meðgöngur gangi vel fyrir sig þá hefur verið sýnt fram á að minnkaðar hreyfingar barns geti bent til þess að barnið sé í vanda. Ef hreyfingar barns eru minni en þú ert vön að finna þá ættir þú að ræða við ljósmóður eða lækni (heilsuvera.is, e.d.).

Hvert á að hafa samband

  • Á hverri heilsugæslustöð eru ljósmæður og læknar sem veita símaráðgjöf alla virka daga frá kl. 08:00 – 16:00.
  • Lista yfir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu er að finna hér.

Utan dagvinnutíma

  • Á höfuðborgarsvæðinu er ráðlagt að leita til Meðgöngu- og sængurlegudeildar Landspítala, sími 543-3220
  • Á landsbyggðinni leita konur til sinnar Heilbrigðisstofnunar. Vaktsími 1700

HEIMILDASKRÁ

  • Landlæknisembættið. (2010). Fósturskimun og fósturgreining á meðgöngu. Sótt af landlaeknir.is 
  • Karítas Ívarsdóttir, Ragnheiður Bachmann, ljósmæður Miðstöð mæðraverndar. (2007). Meðganga. Sótt af heilsugaeslan.is 
  • Heilsuvera (e.d.). Fósturhreyfingar. Sótt af heilsuvera.is

Síðast uppfært nóvember 2021

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.