Skip to content

PELAGJÖF

Hvert barn og hver móðir er mismunandi þegar kemur að brjósta- og pelagjöf. Margar ástæður geta legið fyrir því hvort barnið sé á brjósti og/eða tekur pela. Mikilvægt er að dæma aldrei fyrirfram ef þú sérð móður gefa barni sínu pela. Fyrir margar mæður getur pelagjöf tekið mikið á andlega, sérstaklega ef móðirinn ætlaði að gefa eingöngu brjóst. 

Sum börn þurfa á ábót að halda meðfram brjóstagjöfinni, sum geta kannski ekki tekið brjóst, móðirin framleiðir ekki mjólk og/eða veikindi koma í veg fyrir það og margar fleiri ástæður geta legið fyrir.

Áætlað magn mjólkur á sólarhring er miðað við þyngd barna. Þörfin er áætluð 160-180 millilítrar á kíló á sólarhring. Magn mjólkur í pela fer eftir aldri, þyngd og hversu oft barnið drekkur (Heilsuvera.is, e.d.). Hægt að sjá magn mjólkur miðað við þyngd barns á myndinni fyrir neðan.

mjolk_pelagjof_ml_heilsuvera_brum.is
skv. Heilsuvera.is (uppfært 27.01.2020)

Fyrir fyrstu notkun – setja pela og áhöld í hreint ílát og hella sjóðandi vatni yfir. Láta liggja í 5 mínútur. Kæla með köldu kranavatni. Eftir það má þvo pela, snuð og túttur eins og önnur matarílát. Kannið í leiðbeiningum frá framleiðanda hvort pelar, túttur og/eða snuð megi fara í uppþvottavél. Gott er að toga reglulega í túttuna og snuðið til að athuga hvort hún sé heil. Þegar hún er orðin klístruð er hún ónýt (Heilsuvera.is, e.d.). Slitinn peli getur haft sprungur sem sýklar safnast fyrir í og erfitt er að þrífa. Mælt er með því að henda rispuðum pelum eða pelum með sprungum í.

ÞURRMJÓLKURGJÖF

Til að koma í veg fyrir sýkingar er mikilvægt að gæta fyllst hreinlætis við blöndun ungbarnablöndu, þvo vel hendur áður en byrjað er að blanda (Heilsuvera.is, e.d.).

Notið kalt vatn úr krananum til blöndunar og ávallt skal sjóða vatnið fyrir hverja blöndu eða nota vatn sem búið er að sjóða og kæla, en þá er mikilvægt að það hafi ekki mengast. Hellið réttu magni af soðnu vatni í pelann, sléttfyllið jafnmargar skeiðar og hæfir vatnsmagninu í pelanum. Mjólkurblandan á að vera um 37°c og best er að athuga með því að láta dropa á handarbak. Ef dropinn er hvorki heitur né kaldur, er hitastigið rétt. Sumum finnst gott að gera ágæta blöndu fyrir daginn, til dæmis 500ml snemma dags og vera þá klár með nokkra pela en muna að geyma þá auka blöndur í ísskáp og aldrei lengur en einn sólarhring. Góðar leiðbeiningar um magn þurrmjólkur per gjöf er oftast aftan á kassa þurrmjólkurinnar.

Það færist í aukana að kaupa tilbúna blandaða þurrmjólk í fernu og/eða flösku og er það þægilegt fyrir fólk á ferðinni. Það ber helst að gæta að geymsluþol fernu/flösku eftir opnun er einn sólarhringur. Athugið að geyma fernu eða flösku við stofuhita fyrir notkun (eins og þegar þú kaupir mjólkina þá er hún í hillurekka en ekki í kæli). 

Nokkur önnur atriði varðandi geymslu á blandaðri þurrmjólk:

  • Ekki hita aftur mjólk sem hefur þegar verið hituð upp.
  • Ekki geyma blandaða mjólk í ísskáp lengur en í sólarhring.
  • Ekki geyma mjólk í stofuhita lengur en 1-2 klst (eftir þann tíma myndast kjöraðstæður fyrir bakteríur til að fjölga sér).

Hlýja og öryggi á máltíðum er barninu nauðsyn og því skiptir máli að taka barnið í fangið í hvert sinn sem pelinn er gefinn. Ef barnið er látið drekka pelann eitt í vöggunni fer það á mis við þá nærveru og snertingu sem það þarf á að halda til að mynda góð tengsl við foreldra sína (Heilsuvera.is, e.d.).

Barnið getur drukkið mismikið í hverri gjöf. Ef það þyngist eðlilega þarf það ekki að klára skammtinn sinn. Leyfa þarf barninu að fá hlé af og til og tækifæri til að ropa. Máltíðin getur tekið 15-20 mínútur. Henda skal þeirri mjólk sem barnið nær ekki að klára (Heilsuvera.is, e.d.).

Aldrei ætti að gefa barni hreina ávaxtasafa eða aðra sæta drykki í pela, hvorki á nóttu né degi, því að sykurinn skemmir tennurnar og ávaxtasýra eyðir tannglerungi. Mjólk og vatn er það eina sem gefa á börnum að drekka úr pela (Heilsuvera.is, e.d.).

PELASTELLINGAR

HEIMILDASKRÁ

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.