Skip to content

FÆÐINGALEIÐIR

Fæðing í gegnum leggöng

Hver fæðing er einstök og því er ekki hægt að segja til um fyrir fram hvernig hún verður. Eðlileg meðgöngulengd er 37 til 42 vikur og barn sem fæðist á þeim tíma telst vera fullburða. Langflestar konur fara sjálfar af stað í fæðingu einhvern tímann innan þessa tímaramma (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016). 

Á Íslandi fá konur tíma í gangsetningu eftir að vika 41 er fullgengin eða fyrr ef ástæða er til gangsetningar fyrir þann tíma. Það er gott að vera meðvituð um það að fleiri konur fara fram yfir settan dag en ekki. Það getur verið krefjandi að ganga langt fram yfir settan dag en þá er gott muna að settur dagur er bara viðmið og ekki er óeðlilegt að ganga með barnið allt að tveimur vikum framyfir þann dag. Talið er að einungis 5% barna fæðist á settum degi (ljosmodir.is, e.d.).

Tæplega 7% barna á Íslandi fæðast fyrir 37. viku meðgöngunnar og eru því fyrirburar. Ekki er alveg vitað með vissu hvað það er sem kemur fæðingu af stað en það virðist vera flókið samspil móður og barns sem ræður þar um. Ein kenning er sú að þegar að lungu barnsins eru fullþroska, byrji barnið að seyta prótínum sem síðan valda því að fæðingin fer af stað. Fæðingin er náttúrulegt ferli sem getur tekið á sig ýmsar myndir. Afstaða konunnar eða væntanlegra foreldra til fæðingarinnar og líkamleg og andleg líðan skipta verulegu máli (ljosmodir.is, e.d.).

Upplifun móðurinnar á þeim breytingum sem eiga sér stað í líkama hennar í fæðingunni er einhver sú áhrifamesta í lífi hennar. Að fæða barn getur verið sársaukafullt, ef litið er til hríðanna en konan ætti ekki að óttast. Það er stórkostleg reynsla sem býður uppá mikla sjálfsskoðun og uppgötvun á innri styrk. Konan ætti því að gera sitt besta til að takast á við fæðinguna með öllu því sem henni fylgir til þess að upplifa það kraftaverk sem barnsfæðing er (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016). 

Fæðingunni er skipt í þrjú tímabil

1. Útvíkkunartímabil

Opnun leghálsins frá 0 til 10 cm. Það skiptist í forstig og virkt stig, eftir því hvernig samdrættirnir í leginu eru.

Á forstigi fæðingar geta samdrættirnir verið missterkir og óreglulegir, þ.e. mislangt er á milli þeirra (5 – 20 mínútur) og leghálsinn opnast því hægt. Samdrættirnir halda þó stöðugt áfram, verða sterkari og reglulegri og leghálsinn opnast enn meir. Á forstigi fæðingar opnast leghálsinn frá 0 til 3 cm (á skalanum 0 til 10 cm).

Forstigið getur tekið mislangan tíma, en almennt tekur það styttri tíma hjá fjölbyrju (konu sem hefur fætt áður) en frumbyrju (konu sem er að fæða í fyrsta sinn). Fæðingarsóttin er oftast væg á þessu stigi. Konan finnur verkjaseiðing sem leiðir aftur í bak og minnir á túrverki. Leghálsinn er byrjaður að þynnast örlítið og opnast (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016). 

Mikilvægt

  • Ef sárir og reglulegir samdrættir byrja fyrir 37 vikna meðgöngu, ættir þú að hringja á fæðingarstað.
  • Sjá lista yfir fæðingarstaði hér.
  • Ef legvatn rennur hafðu samband við fæðingarstað eða neyðarlínuna 112.
  • Sjá nánar lekur legvatn hér.
  • Ef mikið blæðir frá leggöngum, meira en sem nemur u.þ.b. 15 til 30 ml, eða 1 til 2 matatskeiðum, ættir þú að hringja og fara strax á fæðingarstað, jafnvel í sjúkrabíl.

Símanúmer á fæðingarvakt 23B á LSH er 543-3049

Á virka stigi fæðingar eru samdrættirnir orðnir markvissari og sterkari. Þeir eru reglulegir og taktfastir og koma með 2 til 5 mínútna hléum. Þá er talað um hríðir. Leghálsinn opnast hraðar en á forstiginu, sentimetra eftir sentimetra frá 3 til 10 cm (á skalanum 0 til 10 cm). Hríðirnar vara lengur, eru kraftmeiri og bera meiri árangur; leghálsinn opnast hraðar en í á forstigi fæðingar. Krafturinn í hríðunum þrýstir höfði barnsins á leghálsinn sem við það opnast enn meir. Barnið mjakar sér neðar í grind konunnar eftir því sem útvíkkun eykst og síaukinn þrýstingur verður niður á lífbeinið og niður leggöngin (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016). 

2. Rembingstímabil

Rembingstímabilið tekur við þegar opnun leghálsins er lokið og þá hefst ferðalag barnsins niður fæðingarveginn. Það stendur yfir þar til barnið er fætt.

Rembingstímabilið hefst þegar opnun leghálsins er lokið og ferðalag barnsins hefst út í heiminn. Hríðirnar eru svipaðir og á virka stigi útvíkkunartímabilsins, þó getur verið lengra hlé á milli hríða sem gefur konunni tækifæri til þess að hvílast vel. Á rembingstímabilinu breytist tilfinningin fyrir hríðunum og konan finnur fyrir auknum þrýstingi niður í endaþarm og grindarbotn. Hægðatilfinning gerir vart við sig og þörfin fyrir að rembast verður sterk. Nauðsynlegt er að láta undan þessari þörf og rembast með hríðunum sem koma með reglulegum hléum. Hríðirnar og rembingur konunnar eru þeir kraftar sem mjaka barninu niður fæðingarveginn. Stundum fæðist barnið eftir nokkrar rembingshríðar en oftast gengur það hægar.

Flestum konum finnst mikill léttir fylgja því að byrja að rembast. Það er uppörvandi að finna til þess að farið er að sjá fyrir endann á fæðingunni. Að meðaltali tekur rembingstímabilið hjá frumbyrju um ½ til 2 klst (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016). 

Fylgjutímabil

Fylgjutímabilið hefst þegar barnið er fætt og þá hefur fylgjan lokið hlutverki sínu. Samdrættir í leginu hjálpa til við að losa fylgjuna frá legveggnum og móðirin rembist létt með samdráttunum þar til fylgjan fæðist. Vegna þess hve fylgjan er mjúk er fæðing hennar auðveld. Eftir fæðingu fylgjunnar athugar ljósmóðirin hvort þurfi að sauma móðurina. Ef þess þarf er það oftast gert í staðdeyfingu (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2016). 

Keisarafæðing

Keisaraskurður er stór kviðarholsaðgerð þar sem gerður er skurður á kvið móður og barnið sótt inn í legið. Keisaraskurður getur ýmist verið ákveðinn fyrirfram eða verið framkvæmdur með hraði þegar bráðar aðstæður koma upp í meðgöngu eða fæðingu. Tíðni keisaraskurða á Íslandi árið 2015 var 16,3% sem er nálægt viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem hefur gefið út þá yfirlýsingu (sjá hér) að hlutfall keisaraskurða ætti að vera á milli 10% – 15% (ljosmodir.is, e.d.a.).

Þegar hlutfallið er innan þessa viðmiðs, er talið að öryggi móður og barns sé best tryggt. Víða í heiminum er sú tíðni allt of há en of lág á öðrum stöðum t.d. í sumum löndum Afríku.

Valkeisari/ Fyrirfram ákveðinn keisari

Fyrir fram ákveðinn keisari kallast í daglegu tali valkeisari og er hann yfirleitt gerður í mænudeyfingu. Keisari er alltaf gerður þegar vitað er að fylgjan er fyrirsæt. Þá liggur fylgjan neðst í botni legsins yfir leghálsinum og þegar hann opnast, rofna æðarnar sem liggja inn í fylgjuna og það fer að blæða. Aðrar ástæður fyrir fyrirfram ákveðnum keisara er til dæmis ef vitað er að mjaðmagrind móður er of þröng, vegna sjúkdóms eða slyss, ekki heppileg fyrir fæðingu, konan hefur innvortis leghálssaum, legu barnsins vegna getur það ekki fæðst um leggöng (t.d. þverlega eða andlitsstaða með hnakka fram) (ljosmodir.is, e.d.a.).

Sumir sjúkdómar móður geta gert það að verkum að fæðing sé ekki heppilegur kostur en það er sjaldgæf ábending. Stundum þarf að vega og meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort keisari eða fæðing um leggöng sé betri valkostur. Þetta á til dæmis við þegar barnið er í sitjandi stöðu, konan óskar eftir keisara, hún hefur áður farið í keisaraskurð, þegar um fjölbura ræðir eða konan hefur farið í aðgerð á grindarbotni.

Upplýsingar um fæðingu með keisaraskurði og bataferli eftir valkeisaraskurð má finna hér hér.

Bráðakeisari/Neyðarkeisari

Allir keisarar sem ekki eru fyrirfram ákveðnir kallast bráðakeisarar. Hins vegar geta þeir verið misbráðir en við aðstæður þar sem þarf að ná barninu út eins fljótt og auðið er þá er móðirin svæfð og keisarinn gerður eins fljótt og hratt og hægt er. Þannig keisarar hafa gjarnan verið kallaðir neyðarkeisarar en ástæður fyrir neyðarkeisara geta verið fylgjulos, bráð fósturstreita, fæðingarkrampi vegna meðgöngueitrunar, legrof eða naflastrengsframfall (ljosmodir.is, e.d.a.).

Við aðrar aðstæður eins og ef fæðingin er orðin langdregin og enginn framgangur hefur orðið er hægt að gera keisarann í meiri rólegheitum þar sem konan getur fengið mænudeyfingu og verið vakandi í aðgerðinni. Stundum er konan nú þegar komin með mænurótardeyfingu (utanbastsdeyfingu) og hægt er að nota þann legg til að deyfa hana fyrir aðgerðina (ljosmodir.is, e.d.a.).

Mænudeyfing/ mænurótardeyfing/utanbastdeyfing

Í flestum tilvikum er keisaraskurður gerður í mænudeyfingu. Þegar mænudeyfing er lögð er konan látin liggja í fósturstellingu eða sitja í keng. Stungið er mjórri nál í bak hennar milli hryggtinda fyrir neðan annan lendarlið þar til mænuvökvi lekur þaðan út. Þá er sprautað staðdeyfilyfjum og/eða ópíötum inn í mænuvökvann. Sjúklingur dofnar á u.þ.b. 5 mínútum og deyfing endist í 3 til 5 klukkustundir (ljosmodir.is, e.d.a.).

Deyfingin er framkvæmd á skurðstofu og konan missir sársaukaskyn frá nafla og niður í tær. Þvagleggur verður settur upp eftir að deyfingin fer að verka, þannig að konan finni sem minnst fyrir því. Þessi undirbúningur aðgerðar tekur að öllu jöfnu 30 til 50 mínútur (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Stundum er konan nú þegar komin með mænurótardeyfingu (utanbastsdeyfingu) og hægt er að nota þann legg til að deyfa hana fyrir aðgerðina. Þegar mænurótardeyfing er lögð er legustelling sjúklings sú sama og þegar mænudeyfing er lögð. Stungið er sérstakri nál inn á milli hryggtinda þangað til komið er inn í mænurótarbilið. Þá er þræddur örmjór leggur gegnum nálina og inn í mænurótarbilið. Þar er leggurinn skilinn eftir og nálin fjarlægð (ljosmodir.is, e.d.a.).

Í legginn eru síðan gefin deyfingar- og/eða verkjalyf. Mænurótardeyfing er lengur að ná virkni en mænudeyfing, eða 20 til 30 mínútur. Nánari umfjöllun um mænurótardeyfingar má sjá hér.

Eftir að undirbúningi lýkur, getur maki þinn eða aðstandandi komið á skurðstofuna og verið hjá þér í aðgerðinni. Í undantekningartilfellum er keisaraskurður gerður í svæfingu. Þá getur maki eða aðstandandi ekki verið viðstaddur en hittir þig fljótlega eftir að þú vaknar (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Eftir aðgerð og vöknun

Barnalæknir er viðstaddur keisarafæðingu og metur ástand barnsins. Ef allt gengur vel fáið þið barnið ykkar fljótlega eftir skoðunina, en hafa ber í huga að sum börn geta þurft eftirlit á vökudeild í einhvern tíma (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Að aðgerð lokinni verður þú flutt á vöknun, deild þar sem þú og barnið þitt verðið í eftirliti í u.þ.b. tvo tíma, eða á meðan deyfingin er að fara úr. Maki eða aðstandandi getur verið hjá þér á meðan og sama gildir um barnið, að því gefnu að allt sé eðlilegt og að ástand þess leyfi. Ljósmóðir kemur reglulega og metur líðan þína og barnsins og aðstoðar þig við að leggja barnið á brjóst (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Þú færð verkjalyf reglulega fyrstu dagana eftir aðgerðina. Vissulega má þó reikna með einhverjum sviða og verkjum frá skurðinum sem mun dvína eftir því sem á líður. Mikilvægt er að láta vita ef þú ert með mikla verki því lögð er áherslu á góða verkjastillingu svo að þú getir hreyft þig sem mest og sinnt barninu. Gott er að vera búin að útvega sér verkjalyf til að eiga eftir að heim er komið. Mælt er með því að taka verkjastillandi lyf reglulega í 2 til 3 daga eftir heimferð.

Hreyfing

Mælst er til þess að þú farir fram úr rúminu fljótlega eftir að þú kemur á sængurkvennadeildina og helst nokkrum sinnum það sem eftir lifir dags. Þetta er að sjálfsögðu gert með aðstoð og í samráði við starfsfólk deildarinnar til að byrja með (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Hreyfing örvar starfsemi meltingarfæranna og minnkar ógleði. Einnig dregur hreyfing úr líkum á blóðtappa en blóðþynnandi lyf eru auk þess gefin í þeim tilgangi. Á aðgerðardeginum er miðað við að þú sért á fótum eða sitjir upprétt í allt að tvær klukkustundir. Á öðrum degi eftir aðgerð er stefnt að u.þ.b. átta klukkustunda fótaferð yfir daginn. Þú skalt halda áfram að fara fram úr og ganga um deildina eftir því sem þú treystir þér til (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Vökvagjöf í æð verður hætt um leið og heilsa þín leyfir og þú ert fær um að drekka sjálf, 2 til 3 klukkustundum eftir aðgerð. Æskilegt er að drekka ríkulega bæði til að bæta upp hugsanlegt vökvatap og vegna brjóstagjafar (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Fæði

Þú færð að borða hefðbundið fæði strax á fyrsta degi. Mælt er með að þú borðir frammi í borðstofunni, það er talið stuðla að betri matarlyst og minni ógleði. Þvagleggur er settur upp hjá þér fyrir aðgerð svo þvagblaðran sé tóm í aðgerðinni. Hann er svo fjarlægður, eigi síðar en 24 klukkustundum eftir aðgerðina. Eftir það er fylgst vel með því hvernig þér gengur að tæma þvagblöðruna (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Skurðsár

Umbúðir verða teknar af skurðsári u.þ.b. sólarhring eftir aðgerðina. Ef skurðurinn lítur vel út og allt virðist eðlilegt máttu fara í sturtu eftir það. Best er að hafa skurðinn án umbúða hér eftir. Húðhefti/saumar verða teknir á móttökudeild á fimmta degi frá aðgerð. Tími fyrir heftatöku er pantaður við heimferð (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

Brjóstagjöf

Ljósmæður munu aðstoða þig við brjóstagjöf og umönnun barnsins eftir aðstæðum og þörfum hverju sinni. Mikilvægt er að þú leggir barnið alltaf á brjóst þegar það sýnir vilja til þess og vertu dugleg að leita eftir aðstoð. Handtök við brjóstagjöf og rétt grip hjá barninu eru atriði sem eru ekki endilega meðfædd og starfsfólkið er boðið og búið að leiðbeina þér frá upphafi leiks. Tekið er tillit til kvenna sem, af einhverjum ástæðum, kjósa að hafa barn sitt ekki á brjósti (Landspítali, Kvennasvið, 2008).

HEIMILDASKRÁ

  • Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann (2016). Fæðingin. Sótt af heilsugaeslan.is
  • Landspítalinn, Kvennasvið (2008). Keisaraskurður. Sótt af landspitali.is
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.). Fæðingin. Sótt af ljosmodir.is
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.a.). Keysaraskurður. Sótt af ljosmodir.is

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.