Skip to content

10 MÁNAÐA

BARNIÐ ÞITT Í HNOTSKURN

Hæð 65,8cm - 78,6cm (meðaltal)

Þyngd 6,43 kg til 11,69 kg (meðaltal)

Barnið þitt stækkar og þroskast á hverjum degi og tjáir sig enn meira með hreyfingum og máli. Aðskilnaðarkvíðinn getur verið til staðar og hjá sumum börnum er þetta vandamál. Þá sérstaklega ef barnið er að byrja hjá dagmömmu eða í ungbarnaleikskóla. Mikilvægt er að taka sinn tíma í aðlögun og gera það á hraða barnsins.

Tíu mánaða börn eru orðin þó nokkuð athugul og farin að þekkja þá daglegu rútínu sem þau fylgja. Minnið hefur aukist helling og getur barnið meðal annars þekkt hvar hlutir eiga að vera á heimilinu eða kannast við umönnunaraðila, t.d. dagmömmu eða leikskólakennara, þó að nokkur tími hafi liðið á milli heimsókna. Gott er að hafa í huga að hlutir og/eða hljóð sem barnið var ekki hrætt við áður getur verið vandamál núna, t.d. hávaði og hljóð í ryksugunni.

Talmál tíu mánaða barna hefur aukist til muna frá átta mánaða aldri og fer að styttast í að orð fari að myndast. Sum börn eru með meiri málþroska en önnur og gætu verið farin að segja örfá orð við tíu mánaða aldur. Barn tjáir sig þó meira í hreyfingu en með máli á þessum aldri, meðal annars með því að hrista hausinn í stað þess að segja nei, vinka bless í stað þess að segja bless og benda á hluti í stað þess að segja hvað það vill.

Miklu máli skiptir að halda áfram að tala skýrt við barnið og nota hreyfingar með. Gott er að lesa reglulega fyrir barnið og kynna það fyrir skemmtilegum bókum. Bækur með flettigluggum, litríkum myndum, dýrum og áferð eru vinsælar.

Hreyfing barna í kringum þennan aldur er misjöfn. Þau börn sem eru fim á fæti geta verið farin að taka nokkur skref eða jafnvel ganga. Sum börn skríða eins og herforingjar á fjórum fótum en önnur skríða á rassinum. Þó eru ekki öll börn sem skríða og í flestum tilfellum er það ekki áhyggjuefni þar sem öll börn skríða og ganga á sínum tíma þegar þau eru tilbúin. Að standa og labba með er líka sport hjá sumum börnum og má því ekki líta af börnum á þessum aldri til að forðast slys.

Barnið getur farið að sýna hversu stórt það er með því að lyfta upp höndum. Gott er að spyrja barnið reglulega “Hvað ertu stór?” og sjá viðbrögð barnsins þegar það svarar. Gleðin skín í gegn þar sem barnið spennist upp af hamingju við að sýna sig. Handahreyfingar eru orðnar stöðugar og getur barn jafnvel haldið á dóti í einni hendinni ásamt því að gera annað með hinni.

Í kringum tíu mánaða aldur getur þyngd og hæð barns byrjað að staðna sem leiðir til þess að barnið hefur minni áhuga á mat. Ef það gerist hjá þínu barni, skaltu ekki hafa áhyggjur þar sem flest börn vinna þessa stöðnun upp á næsta þroskastigi (e. leaps and bounds).

Gott ráð getur verið að breyta út af vana með mat sem barnið hefur borðað síðustu vikur eða mánuði og kynnt því fyrir öðrum matartegundum og/eða framsetningu á matnum. Barnið þarf enn á mjólk að halda og er talað um u.m.b. 500ml á móti þremur máltíðum. Ef barnið þitt er með mjólkuróþol eru til margar aðrar vörur sem hægt er að nota í staðinn. Sjá bæklinginn Næring ungbarna hér (3. útgáfa, 2017).  

Ef barnið þitt er að tapa mikilli þyngd og þú hefur áhyggjur, er best að hafa samband strax við hjúkrunarfræðing eða lækni á þinni heilsugæslustöð. 

Svefnrútínan hefur breyst hjá mörgum börnum í kringum tíu mánaða aldur og sérstaklega hjá börnum sem eru komin til dagmömmu eða í ungbarnaleikskóla þar sem aðeins einn lúr er í boði. Flestar dagmömmur taka þó tillit til hvers barns og ef þörf er á auka lúr á morgnanna fær barnið það að sjálfsögðu. Aðlögunartímabilið getur tekið tvær til þrjár vikur eða þangað til fullri rútínu er náð og allir sáttir.

Ef barnið þitt er ekki byrjað hjá dagmömmu eða á leikskóla, líður vel með tvo lúra yfir daginn og sefur vært yfir nóttina, er það gott mál og um að gera að halda þeirri rútínu sem best er fyrir ykkur. Ekki breyta út af vana fyrr en barnið þitt sýnir merki um að það sé tilbúið.

BARNIÐ Í TÖLUM

MÁNAÐA
VIKNA
DAGA

12 MÁNAÐA

Hvað gerist hjá 12 mánaða barni? Ýttu hnappinn

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.