Skip to content

NÝBURINN

Nokkrir punktar um litla nýburann.

Ef litla krílið fæddist í gegnum fæðingarveginn er eðlilegt að augun séu pírð og að þau virðist jafnvel bólgin í framan. Höfuðið getur verið örlítið skakkt og þá sérstaklega ef notast var við sogklukku í fæðingunni. Þetta er eðlilegt.

Mörg börn fæðast með mikið að fæðingarhárum kölluð lanugo. Þessi dúnmjúku hár halda á þeim hita í leginu og tempra líkamshita þeirra. Þessi hár hverfa síðan yfirleitt á nokkrum mánuðum.

Þegar klippt hefur verið á naflastrenginn verður eftir smábútur af honum næst barninu. Þessi naflastrengsstúfur þornar fljótt og losnar frá á nokkrum dögum. Best er að láta hann sem mest í friði en ef vessar úr naflastúfnum er þó ágætt að þrífa með hreinum bómul bleyttum í vatni og þurrka síðan með hreinum bómul.

Barnið finnur ekki til í naflastúfnum sjálfum en finnst óþægilegt þegar togað er í hann eða snúið upp á. Þess vegna er best að hafa bleiuna fremur lausa yfir stúfnum á meðan hann er að detta af.

Fyrsta sólarhringinn er næringarforði barnsins frá fylgjunni að klárast eftir fæðinguna, ef barnið er hraust og fullburða. Á öðrum sólarhring byrja það að verða svangt og fer þá gjöfum fjölgandi. Stundum geta gjafir verið með mjög stuttu millibili (keðjugjafir) og er eðlilegt að barnið vilji vera nánast alltaf á brjósti eða pela.

Á fyrsta sólarhring fer barnið að meðaltali 4-5 sinnum á brjóst og gjöfin getur tekið 20-40 mínútur. Það tekur til sín 7-14 ml (1-2 teskeiðar) í hverri gjöf.
Barnið skilar fósturhægðum eða meconium, sem eru dökkgrænar hægðir sem minna á leðju. Hægðirnar breytast svo með tímanum og verða karrígular og linar.
Hér er frábær síða þar sem farið er yfir fyrstu daga barnsins og brjóstagjöfina fyrstu dagana.

Besta leiðin til þess að meta hvort barn sé að fá nóg af næringu er að horfa á hegðun og útskilnað barnsins. Flest börn kúka nokkrum sinnum á dag fyrstu vikurnar og það er merki um að þau fái nóg að drekka ásamt því að rennbleyta a.m.k. 6 – 8 bleiur á dag.

Ljósmæður í heimaþjónustu og hjúkrunarfræðingar í ungbarnavernd vigta barnið reglulega í upphafi til að fylgjast enn betur með hvernig barnið er að nærast. Talið er að einungis um 35% barna undir þriggja mánaða aldur sofi í sex tíma óslitið að nóttu. Samfara lengri nætursvefni lengist vökutíminn á daginn og börn taka styttri lúra.

Fyrstu vikurnar er eðlilegt að barnið sofi mikið og sofi meira en það vakir. Gott er að búa til svefnvenjur strax á fyrsta mánuðinum því þá er talið að börn fari smám saman að aðlagast muninum á nótt og degi. Hægt er að innleiða svefnrútínu, til dæmis með því að hafa sama birtustig í herberginu sem barnið sefur í, nudda það með mildum kremum eða olíu og hafa hitastigið gott, hvorki of heitt né kalt. Róandi tónlist er einnig frábær til að setja svefnstemninguna. Sjá spilunarlista Brum.is á Spotify hér.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.