Skip to content

FÓSTURÞROSKI

0 – 12 vikur

Eggið hefur frjóvgast og hröð frumuskipting á sér stað. Fylgjan byrjar að myndast strax á þriðju viku og er full mynduð og farin að starfa á tíundu viku. Fylgjan, sem er einskonar dreifingarmiðstöð, lætur fóstrinu í té næringu og súrefni og sér um að flytja úrgangsefni frá fóstrinu.

Legvatnið myndast snemma á meðgöngu og eykst dag frá degi. Við 10 vikna meðgöngu er það um 30 ml og undir lok meðgöngu er það um 700-1000 ml. Legvatnið gegnir ýmsu hlutverki, m.a. ver það fóstrið fyrir hnjaski og veitir því aukið rými til að hreyfa sig og vaxa. Auk þess sér það um að jafna hitastigið umhverfis fóstrið. Legvatnið endurnýjast stöðugt, fóstrið kyngir því og pissar sem stuðlar að eðlilegri hringrás legvatnsins.

Vöxtur er mikill og hraður. Öll líffærin myndast á fyrstu tólf vikunum en eru smá og óþroskuð. Hjarta fóstursins byrjar að slá á fjórðu viku eftir getnað. Hjartsláttur fóstursins er hraður, næstum tvöfalt hraðari en hjartsláttur móðurinnar. Húð fóstursins er aðlöguð því að vera í vatni. Hún er varin með vaxkenndu efni sem kallast fósturfita. Fósturfitan ver húð fóstursins gegn núningi. Fitan þekur húð barnsins alla meðgönguna og veldur því að barnið er sleipt og kámugt við fæðingu. Fyrstu hárin myndast um leið og húðin verður fullþroska við u.þ.b. 12 vikur.

Fóstrið er á sífelldri hreyfingu og sefur aðeins í smá dúrum en vegna smæðar þess finnur móðirin ekki fyrir hreyfingunum ennþá. Undir lok þessa tímabils er barnið farið að sjúga fingur og kyngja. Kyn barnsins, hár og augnlitur ákvarðast snemma. Í lok þessa tímabils er fóstrið orðið fullskapað, komin á það mannsmynd og öll líffærin eru til staðar þó þau séu enn óþroskuð (Heilsuvera.is, e.d.). 

12 vikna fósturskimun er framkvæmd af fósturgreiningardeild Landspítalans. Í skoðuninni er meðal annars athugað:

  • Meta meðgöngulengd, aldur metin út frá lengd frá höfði og niður á sitjanda (CRL) og breidd á höfði (Bpd).
  • Athuga fjölda fóstra.
  • Mæla hnakkaþykkt, mæla lífefnavísa í blóði, til að reikna út líkur á litningagalla og hjartagalla.
  • Skoða líkamsgerð fósturs eins vel og unnt er á þessum tíma.
  • Mæling á lífefnavísum er gerð með blóðrannsókn móður þar sem mæld eru tvö prótein, frítt B-hcg og PAPP-A.

Nánar má lesa um 12 vikna fósturskimun á landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/fosturgreining

13 – 17 vikur

Fóstrið heldur áfram að vaxa og hefur tekið á sig greinilega mannsmynd. Líffærin sem höfðu myndast öll á fyrsta tímabili eru nú að stækka og þroskast og andlitsdrættir eru að skýrast. Allur líkaminn er þakinn fíngerðu dúnkenndu fósturhári sem hverfur fyrir fæðingu. Það eru komin hár á koll fóstursins og fíngerðar augabrúnir. Í 16. – 20. viku hefst myndun litfruma í hárunum. Augnlokin sem huldu augun opnast í 26. viku.

Fyrstu hreyfingar eru oft eins og loftbólur eða ólga í maganum en smám saman skynjar móðirin greinileg spörk og hreyfingar sem gefa henni staðfestingu á lífinu sem vex innra með henni. Fóstrið hreyfir sig svipað að degi og nóttu og það sefur aldrei nema nokkrar mínútur í einu. Hreyfingarnar verða kröftugri og það réttir og kreppir fæturna og æfir fótaspörk. Í leginu er nóg rými til þess að hreyfa sig og skipta um stöðu. Fóstrið nýtur þess að vera vaggað í legvatninu með hreyfingum móðurinnar (Heilsuvera, e.d.).

20 vikna fósturskimun er framkvæmd af fósturgreiningardeild Landspítalans. Í skoðuninni er meðal annars athugað:

  • Meta meðgöngulengd
  • Staðsetja fylgju
  • Meta legvatnsmagn
  • Greina fósturgalla
  • Löngu beinin skoðuð og mældur lærleggur og upphandleggur; athugað samræmi við höfuðmál.

Nánar má lesa um 20 vikna fósturskimun á landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/fosturgreining

28 vikur og fram að fæðingu

Á þriðja tímabili hefst fitusöfnun og fóstrið safnar holdi. Neglur þess vaxa framyfir fingurgóma og höfuðhárið lengist.

Fóstrið heyrir nú þegar og þekkir hljóðin frá líkama móðurinnar, hjartslátt hennar og öndun. Það heyrir einnig hvað er um að vera utan móðurlífsins og sýnir viðbrögð. Stundum hreyfir það sig í takt við tónlist og það þekkir vel taktinn og hljómfallið í rödd móður sinnar og lærir einnig að þekkja raddir þeirra sem eru nálægt móðurinni, t.d. rödd föður/maka. Fóstrið er næmt fyrir ljósi og blikkar auga. Það er talið að á þessum tíma sé meðvitund þess vöknuð og hæfileikinn til að muna. Það gerir nú öndunaræfingar og getur fengið hiksta.

Konur finna sífellt meira fyrir hreyfingum barnsins upp að 32 vikum en eftir það haldast þær svipaðar út meðgönguna. Hins vegar breytist skynjun hreyfinganna þegar dregur nær fæðingunni. Barnið færist neðar í grindina og skorðar sig sem veldur því að tilfinningin fyrir hreyfingum þess verður önnur. Barnið tekur meira pláss með aukinni stærð og getur því ekki hreyft útlimi eins mikið. Eftir því sem fæðingin nálgast aukast samdrættir í leginu sem getur valdið því að hreyfingar finnast ekki eins vel. Það eru dægursveiflur í hreyfingum fóstursins, það sefur nú lengri dúra í einu. Móðirin fylgist með daglegum hreyfingum fóstursins sem gefur henni tækifæri til þess að vera í nánum tengslum við það og eru merki um góða líðan þess. Nú er hægt að gera sér grein fyrir hversu stórt og þungt barnið verður við fæðingu (Heilsuvera, e.d.). 

Blogg sem við mælum með

Mataræði á meðgöngu

Mataræði á meðgöngu

Mataræði á meðgöngu er eitt af því fyrsta sem kona leitar upplýsinga um á meðgöngu. Í fyrstu getur verið yfirþyrmandi að leita eftir upplýsingum um hvað má borða og hvað má ekki borða á meðgöngu en sem betur fer er…
Svefnvenjur á meðgöngu

Svefnvenjur á meðgöngu

Það er ólíklegt að þú finnir fyrir miklum breytingum á svefnvenjum á fyrstu vikum meðgöngu en þegar fer að líða á seinni hluta fyrsta þriðjungs meðgöngu fer líkaminn að taka við miklum breytingum sem getur meðal annars verið svefntruflanir.
Fólinsýra er mikilvæg fyrir barnshafandi konur

Fólinsýra er mikilvæg fyrir barnshafandi konur

Fólat er B-vítamín, oft nefnt fólasín eða fólinsýra er nauðsynlegt fyrir fólk á öllum aldri en það er sérstaklega mikilvægt fyrir konur á barneignaraldri og barnshafandi konum. Konur sem huga að barneignum eiga að taka inn 400 míkrógrömm fólinsýru (fólattafla…
Annar þriðjungur - upplýsingar

Annar þriðjungur - upplýsingar

Margar óléttar konur upplifa mikla ógleði, þreytu og annað á fyrsta þriðjungi og því fagna flestar konur þeim áfanga þegar annar þriðjungur hefst og stendur hann yfir frá viku 13 til 28. Oft er talað um þetta tímabil sem bestu…

HEIMILDASKRÁ

Síðan var uppfærð apríl 2022.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.