Innilega til hamingju með fæðingu barns þíns! Fæðingin tekur sinn toll fyrir móður, bæði andlega og líkamlega, en ekki má þó gleyma að þetta tekur líka mjög á barnið. Það er að upplifa svo margt, ekki bara það að vera komið úr móðurkvið inn í þennan heim. Skynfæri barnsins (snerting, sjón, hljóð, bragð og lykt) eru á fullu að aðlagast nýju umhverfi ásamt því að það er nýtt fyrir barninu að meðtaka mat (móður- eða formúlumjólk) og anda að sér súrefni.
Fyrstu klukkutímana eftir fæðingu geta ungabörn hóstað og hnerrað legvatni sem er fullkomlega eðlilegt og gera þau það til að hreinsa lungun. Fyrstu hægðir hjá nýfæddu barni geta komið samdægurs eftir fæðingu eða á fyrstu dögum í lífi þess. Ekki láta þér/ykkur bregða ef hægðirnar eru svartar og minna einna helst á tjöru. Svartur litur á hægðum er fullkomlega eðlilegur og góðs viti því þá er vitað að þarmar barnsins eru að vinna rétt.
Flest börn tapa þyngd fyrstu dagana og um 10% af fæðingarþyngd telst innan eðlilegra marka. Ljósmóðir sem sér um heimavitjun fylgist grannt með þyngd barnsins og þegar barnið er orðið 10 til 14 daga gamalt hefur það í flestum tilfellum náð fæðingarþyngd sinni. Ef barn er ekki að þyngjast nógu vel mun ljósmóðir mæla með ábót og fylgja þér/ykkur eftir í gegnum ferlið við að gefa ábót.
Hvort sem barnið er eingöngu á móðurmjólk, pela eða bæði þá er ráðlagt að gefa barni D-vítamín dropa frá eins til tveggja vikna aldri. Ráðlagt magn D-vítamíns er 10 míkrógrömm (µg) á dag. D-vítamín er nauðsynlegt til að kalk nýtist úr fæðunni og beinin þroskist eðlilega. Margar tegundir eru til af D-vítamínum, sjá mynd fyrir neðan frá Heilsuveru.is.
Skortur getur valdið beinkröm. Brýnt er að skoða vel magn D-vítamíns per dropa á umbúðum svo barn fái réttan skammt. Hafið í huga að ráðlagður skammtur framleiðanda gæti verið annar en ráðlagt er fyrir ungbörn á Íslandi (heilsuvera.is, e.d.).
Hægt er að lesa um næringu ungbarna í bæklingaröð frá Landlækni hér.