Skip to content

4 VIKNA

BARNIÐ ÞITT Í HNOTSKURN

Hæð 48,1cm - 57,9cm (meðaltal)

Þyngd 2,77 kg til 5,6 kg (meðaltal)

Nú styttist í að barnið þitt verði eins mánaða og mun krefjast meira af þér/ykkur á næstunni. Enn er gott að einblína á fæðu og svefn hjá barninu, gefa oft og vel, sérstaklega á kvöldin þar sem barnið getur sofið lengur í senn yfir nóttina og á sama tíma getur móðir/maki hvílt sig.

Á þessum tíma getur barnið farið að mynda rútínu varðandi hvenær það drekkur. Barnið mun byrja að sýna svipbrigði og hegðun ef það er svangt, þarf nýja bleyju eða er órólegt í maganum. Tilvalið er að prufa að gefa barninu lengur í kvöldgjöf og/eða ábót til að athuga hvort barnið sofi lengur í senn. Um fjögurra vikna aldurinn er þumalputtaregla að barn þurfi að minnsta kosti 500ml til 1000ml af mjólk yfir 24 klukkustundir.

Naflastrengurinn ætti að vera dottinn af og nafli barnsins farinn að taka á sig mynd. Það getur tekið nokkra mánuði fyrir naflann að ná sínu rétta horfi. Gott er að hreinsa hann af og til með volgum bómul eða eyrnapinna. Hreyfing og tjáning barns byrjar að blómstra á þessum tíma. Fyrsti hláturinn getur átt sér stað á viku þrjú eða fjögur. Sum börn ná einnig að snúa sér á hliðina og því er mikilvægt að hafa ekki óþarfa fylgihluti (bangsa, dót o.s.frv.) í vöggunni eða barnarúminu í kringum barnið ef það skyldi færa sig.

Neglur á barninu eru farnar að vaxa hraðar og er gott að stytta þær reglulega til að koma í veg fyrir að það klóri sig. Gott er að nota litlar naglaklippur eða þjalir þar sem neglurnar eru mjúkar og mestu máli skiptir að klippa ekki of nálægt fingri barns.

Húð ungbarna er viðkvæm og er því gott að baða (vatnið þarf að vera u. þ. b. 37°-38°C) barnið einu til tvisvar sinnum í viku eins og þér/ykkur finnst henta en ekki oftar til að byrja með (nánari upplýsingar um böðun ungbarna hér). Sum börn þola betur vatn en önnur og því er gott að fylgjast með húðinni eftir bað. Mörgum finnst gott að nota barnapúður, olíu og krem til að setja á barnið eftir bað.

Mikilvægt er að njóta tímabilsins þegar barnið þitt er aðeins nokkurra vikna. Mikið gerist á fyrstu vikunum og því er góð regla að setja ekki mikla pressu á sjálfan sig,meðal annars með mörgum húsverkum á dag og/eða vinnu. Gott er að miða við eitt til tvö aukaverkefni fyrir utan að sjá um barnið þitt sem þú gerir yfir daginn, hvort sem það er að lesa bók, hugleiða, horfa á sjónvarpsþátt eða elda góðan mat. Ef þér finnst þú hafa of mörg verkefni í gangi fyrir utan að hugsa um barnið þitt, er mikilvægt að biðja um aðstoð, hvort sem það er hjá maka, fjölskyldumeðlim og/eða ráða inn aðila, t.d. til að þrífa heimilið.

Þótt fæðingarorlof innihaldi orðið „orlof” þá er þetta langt frá því að vera orlof og ekki gleyma því. Það er full vinna að hugsa um nýfætt barn, aðlagast nýju hlutverki og passa upp á eigin heilsu.

Margar konur finna fyrir þunglyndiseinkennum á þessum tímapunkti og er það enginn skömm. Einkenni fæðingarþunglyndis geta meðal annars verið kvíði, sorg, ofþreyta og að finnast þú ólík sjálfri þér. Athugið að feður geta einnig fengið þessi einkenni og er það ekkert til að skammast sín fyrir. Að eignast barn, sérstaklega fyrsta barn er mikil breyting í lífi allra og því skiljanlegt að margir finni fyrir einkennum fæðingarþunglyndis. Sérstaklega er mikil óregla á hormónum kvenna á meðgöngu og eftir fæðingu sem tekur sinn tíma að ná aftur í eðlilegt horf.

Best er að ræða við ljósmóður ef þig grunar að þér eða maka þínum líði illa. Ljósmóðir mun sjá til þess að þú/þið fáið aðstoð sem fyrst. Nánari upplýsingar er að finna á ljosmodir.is hér

Síðan var uppfærð nóvember 2020

BARNIÐ Í TÖLUM

VIKNA
DAGA
KLUKKUSTUNDA

6 vikna

Viltu fræðast um sex vikna barn? Ýttu á hnappinn

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.