Skip to content

8 MÁNAÐA

BARNIÐ ÞITT Í HNOTSKURN

Hæð 63,3cm - 75,8cm (meðaltal)

Þyngd 6,03 kg til 10,99 kg (meðaltal)

Átta mánaða gamalt barn hefur þroskast mikið á síðustu vikum. Barnið er farið að þekkja muninn á milli foreldra og ókunnuga. Það leiðir til þess að aðskilnaðarkvíðinn gerir meira vart við sig og því er um að gera að hjálpa barninu að finna fyrir öryggi. Börn á þessum aldri eru farin að sýna meiri umhyggju gagnvart fjölskyldu sinni og bræðir það hjörtu foreldra þegar barnið réttir fram hendur sínar og vill láta taka sig upp.

Hermi-krákuáhrif eru farin að líta dagsins ljós, sérstaklega þegar krílið þitt hittir annað barn á svipuðum aldri. Ef annað barn grætur í kringum ykkur þá er líklegt að barnið þitt byrji að gráta og fylgi eftir aðstæðum. Þau gráta semsagt í takt!

Stórt þroskaskref hjá átta mánaða barni er að læra um gjörðir og afleiðingar. Sem dæmi eru handahreyfingar barns orðin sterk og því er skemmtilegur leikur á þessum tíma að henda dóti á gólfið og fylgjast með því detta (foreldrum til mikillar gleði að þurfa stanslaust að vera taka upp dót af gólfi). Börnum finnst gaman að heyra mismunandi hljóð koma frá því að berja hlut í gólf eða hrista. Gott er að vera með mismunandi leikföng í gangi hverju sinni, en láta barnið vera með eitt eða tvö leikföng í einu til að hafa ekki of mikið framboð af leikföngum í hverjum leik.

Börn í kringum þennan aldur eru sum farin að skríða og/eða jafnvel toga sig upp til að standa með. Þau börn sem eru farin að standa með geta tekið upp á því að ýta hlutum á undan sér og því er mikilvægt að fylgjast með barninu og ekki taka af því augun. Sumir foreldrar vilja leyfa barninu sínu að prufa göngugrind og/eða hoppurólu. Allskonar rannsóknir hafa verið gerðar um göngugrindur sem geta verið með eða á móti þeim. Foreldrar verða að meta það sjálfir hvort leyfa eigi barninu að prufa svoleiðis.

Ef barnið þitt er ennþá rólegt og ekki farið að hreyfa sig mikið þá er það ekkert hættumerki sem þarf að hafa áhyggjur af. Sum börn byrja seint að skríða og önnur skríða ekkert. Alls ekki miða þitt barn við önnur börn þar sem hvert barn er einstakt á sinn hátt. Ef þú og/eða fjölskyldan þín hefur einhverjar áhyggjur af þroska eða hreyfigetu barnsins þá er best að tala við hjúkrunarfræðing eða lækni í ungbarnaverndinni.

Málþroski og tjáning barna í kringum átta mánaða er ennþá að mestu hjal og hljóð en sum börn geta þó farið að segja “ma-ma” „pa-pa“ og reyna líkja eftir “mamma / pabbi”. Barn er þó farið að geta tjáð tilfinningar sínar með óhljóðum og gerir alveg greinarmun á því sem það líkar við og líkar ekki við.

Engin ein regla á við mataræði hjá átta mánaða börnum, en meirihluti barna á þessum aldri eru farin að borða fasta fæðu. Gott er að byrja að gefa þeim meira en bara graut og mauk t.d. smurt brauð með smjöri og/eða kæfu. Skera brauðið í litla bita og leyfa barninu að reyna setja það sjálft upp í sig. Nánari matarhugmyndir fyrir ungabörn er væntanlegt í bloggfærslu.

Þær mæður sem eru með barn á brjósti þurfa ekki að hafa áhyggjur hvenær er besti tíminn til að hætta. Hver móðir ræður því sjálf og finnur þegar rétti tíminn er kominn. Sum börn hætta snemma á brjósti á meðan önnur börn geta verið 12 mánaða eða eldri. Öll börn þurfa þó enn á mjólk að halda sérstaklega uppá kalkið. Miðað er við um 500ml af mjólk fyrir 8 mánaða börn.

Svefnrútína átta mánaða barna svipuð og við sex til sjö mánaða. Mörg börn hafa minnkað lúrana sína niður í tvo úr þremur. Þau börn sem eru með mikinn aðskilnaðarkvíða geta ruglað svefnrútínu sinni og ekki verið tilbúin að sofna þegar við á. Miklu máli skiptir að halda í rútínu og ekki gefast upp. Þetta lagast allt á endanum og rútínan kemur aftur.

BARNIÐ Í TÖLUM

MÁNAÐA
VIKNA
DAGA

10 MÁNAÐA

Ýttu hnappinn til að fræðast um hvað gerist hjá tíu mánaða gömlum börnum.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.