Skip to content

AÐSTOÐ

Einn af hverjum sex sem þráir að eignast barn hér á landi glímir við ófrjósemi. Orsakirnar geta legið hvort sem er hjá konunni, manninum, báðum eða verið óútskýrðar.

Livio er í forystu á sviði glasafrjóvgunarmeðferða á Norðurlöndunum. Livio Reykjavík er í samstarfi við Livio, sem áður hét IVF Sverige og er stærsta fyrirtæki Norður-Evrópu í meðferðum á ófrjósemi. Fyrirtækið hér á landi var sett á laggirnar af íslenskum sérfræðingum með áralanga reynslu af rannsóknum og meðferð á ófrjósemi og er eina starfræka fyrirtækið á Íslandi á þessu sviði.

Hvernig hefst ferlið hjá Livio Reykjavík?

Byrjað er á því að hitta þig og maka þinn til þess að finna orsakir fyrir því að þungun hafi ekki átt sér stað. Hormónagildi konunnar eru mæld og leg, eggjaleiðarar og eggjastokkar eru ómskoðaðir til þess að sjá hvort konan hafi egglos. Sömuleiðis er sæðissýni mannsins skoðað og greint. Út frá þessum niðurstöðum er tekin ákvörðun um hvaða meðferð sé vænlegust til árangurs.

Örvun með hormónum
Við egglostruflanir er hægt að örva egglos með því að gefa töflur (Pergotime/Letrozole/Femar) eða með sprautulyfjum. Gerðar eru ómskoðanir eða hormónamælingar til að ganga úr skugga um að egglos hafi átt sér stað.

Tæknifrjóvgun
Tæknifrjóvgun er samnefnari fyrir þær mismunandi meðferðir sem í boði eru. Annarsvegar meðhöndlast bara sæðisfrumurnar utan líkamans (tæknisæðing) en hinsvegar bæði eggin og sæðisfrumurnar (IVF og ICSI).

Tæknisæðing
Tæknisæðingu er hægt að framkvæma annaðhvort með sæði maka eða með gjafasæði. Þessi meðferð getur t.d. hentað pörum sem geta ekki haft samfarir af einhverjum orsökum. Gjafasæðismeðferðir geta hentað pörum þar sem maðurinn framleiðir ekki sæði, sem og einhleypum konum og samkynhneigðum pörum.

Fylgst er með því hvort konan hafi egglos, annaðhvort innan náttúrulegs tíðahrings eða eftir væga örvun eggjastokkanna. Sæðinu er síðan komið fyrir í legholinu með því að sprauta því inn með mjóum plastlegg sem færður er inn í legið gegnum leghálsinn.

IVF (In Vitro Fertilization)
Þetta er kjarninn í tæknifrjóvgun og nefnist hefðbundin glasafrjóvgun. Þessi aðferð er notuð þegar ástæða ófrjóseminnar er hjá konu, karli eða óskýrð. Konan er örvuð með hormónalyfjum svo að fleiri egg þroskist en í venjulegum tíðahring. Eggin eru síðan tekin með hjálp ómskoðunar um leggöng. Egg og sæði er síðan blandað saman í ræktunardisk til þess að kalla fram frjóvgun. Eftir að frjóvgað egg hefur verið ræktað í tvo til fimm daga er fósturvísirinn settur til baka í leg konunnar.

Til þess að fá sem mesta ábata út úr IVF meðferð, er konum gefin hormón. Hormónið lætur eggjastokkana framleiða fleiri egg en gerist í venjulegum tíðahring. Konan þarf að sprauta þessum hormónum í líkama sinn á hverjum degi í nokkra daga.

ICSI (Intracytoplasmic sperminjection)
ICSI, eða smásjárfrjóvgun, er meðferðarform sem er notað þegar sæðissýnið uppfyllir ekki skilyrði um fjölda sæðisfrumna og hreyfanleika. Við smásjárfrjóvgun er frjógvað undir smásjá með því að koma einni sæðisfrumu fyrir inn í egginu. Þetta er gert með hárfínni pípettu úr gleri.

Kynfrumugjöf
Kynfrumugjöf er þegar par eða einstaklingur þiggur gjafaegg eða gjafasæði. Stundum þarf bæði gjafaegg og gjafasæði.

Verðskrá Livio Reykjavík er að finna hér.

Livio Reykjavík starfrækir sinn eigin eggjabanka og sæðisbanka. Markmiðið bankans er að auka möguleika barnlausra para og einstaklinga á að eignast barn og stytta biðina eftir gjafaeggi eða gjafasæði. Eggja- og sæðisbanki Livio Ísland er staðsettur hjá Livio Reykjavík í Glæsibæ. Nánari upplýsingar: 

EGGJAGJÖF

Eggjagjöf er nokkuð algeng á Íslandi. Gjöfin getur annaðhvort verið nafnlaus eða undir nafni og þar ráða óskir eggjagjafa og eggþega. Eggjagjöf hentar ákveðnum hópi para og einstaklinga sem eiga við ófrjósemi að stríða því hún gefur þeim möguleikann á að ganga með og eignast barn. Bæði eggþegi og eggjagjafi þurfa að fara í viðtal til félagsráðgjafa áður en meðferð hefst.

Þær konur sem þurfa eggjagjöf eru:

  • Konur sem misst hafa eggjastokka á yngri árum, t.d. vegna krabbameins eða skurðaðgerða.
  • Konur sem hafa farið á breytingaskeið fyrir 40 ára aldur, en það getur átt sér stað hjá um 1% kvenna.
  • Konur sem hafa alvarlega arfgenga sjúkdóma þar sem hætta er talin á að móðir beri sjúkdóm yfir í barn.
  • Konur með eggjastokka sem svara ekki lyfjameðferð í glasafrjóvgun.
  • Konur sem hafa gengst undir margar árangurslausar glasafrjóvganir.
  • Sumar konur sem eru orðnar eldri en 43 ára.

Get ég gefið egg?

Konur á aldrinum 20-35 ára sem ekki eru haldnar þekktum arfgengum sjúkdómum, kynsjúkdómum né öðrum sjúkdómum sem gætu aukið áhættu fyrir þær við eggjagjöf, koma til greina sem eggjagjafar.

Nánar má lesa um eggjagjöf á vefsíðu Livio egg bank Ísland.

SÆÐISGJÖF

Sæðisgjöf getur annaðhvort verið nafnlaus eða undir nafni og ráða þá óskir sæðisgjafans og sæðisþega. Næstum allt gjafasæði sem notað er í Livio Reykjavík kemur frá dönskum sæðisbanka, European Spermbank. Í einstaka tilfellum vill karlmaður gefa ákveðinni konu sæðisskammta til notkunar í frjóvgunarmeðferð.

Sæðisfrumugjöf getur annaðhvort verið nafnlaus eða undir nafni og ráða þá óskir bæði sæðisfrumugjafa og sæðisfrumuþega.

Áður en sæðisfrumugjöf á sér stað, þarf að bóka viðtal hjá lækni. Í viðtalinu er farið ítarlega yfir heilsufars- og fjölskyldusögu og í hverju kynfrumugjöf er fólgin. Eftir viðtalið þarf að fara í sæðisrannsókn til þess að kanna hvort að sæðissýnið sé gott sem og blóðprufur til þess að útiloka HIV og lifrarbólgu.

Ef allt er í lagi með sæðisfrumugjafann, er sýni tekið og fryst í nokkrum skömmtum. Geyma þarf sýnið í frysti í sex mánuði fyrir notkun. Þá eru blóðprufur fyrir HIV og lifrarbólgu endurteknar. Ef blóðprufurnar koma vel út má nota sæðisfrumurnar.

Áður en meðferð hefst þurfa væntanlegur sæðisfrumugjafi og sæðisfrumuþegi að fara í viðtal hjá félagsráðgjafa.

Sæðisfrumur sem eru frystar er eingöngu hægt að nota í tæknisæðingu eða í smásjárfrjóvgun (ICSI).

STAÐGÖNGUMÆÐRUN

Hugtakið staðgöngumæðrun má í víðtækum skilningi skilgreina sem það ferli þegar kona samþykkir eða ákveður að ganga með barn fyrir verðandi foreldra eða foreldri og mun að fæðingu lokinni afhenda þeim barnið.

Staðgöngumóðirin afsalar sér þannig móðurrétti sínum sem annar einstaklingur tekur við, ásamt þeim lagalegu réttindum og skyldum sem hlutverkinu fylgir. Margvíslegar ástæður geta legið að baki ákvörðun pars eða einstaklings að nýta sér umrætt úrræði til að eignast barn, þótt oftast nær byggi þær á læknisfræðilegum rökum.

Helstu ábendingar fyrir staðgöngumæðrun varða kynheilbrigði kvenna og geta lýst sér í ófrjósemi, meðfæddu legleysi og ýmsum sjúkdómum í legi, s.s. krabbameini í leghálsi eða legi.

Erfðafræðilegar ábendingar geta falist í erfðagalla eða erfðasjúkdómi sem kona ber í sér og hefur hamlandi áhrif á ákvarðanatöku hennar og/eða maka hennar, um barneignir.

Þá er staðgöngumæðrun eini möguleiki tveggja samkynhneigðra karla í hjónabandi eða sambúð til að eignast líffræðilega skylt barn.

Nánari upplýsingar:

Enn þann dag í dag (skrifað í febrúar 2021) er staðgöngumæðrun ólögleg á Íslandi. En pör geta notað erlenda þjónustu sem býður upp á staðgöngumæðrun. Aðrar fréttir um málið frá árinu 2018.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.