Skip to content

BRJÓSTAGJÖF

Móðirin hefur þann stórkostlega hæfileika að framleiða nægilega mjólk sem inniheldur öll þau næringarefni sem barnið hennar þarfnast. Rannsóknir víða í heiminum hafa sýnt fram á jákvæð áhrif brjóstamjólkur þegar til lengri tíma er litið,m.a. hefur verið sýnt fram á minni líkur á sykursýki, exemi, offitu og ofnæmi (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2008).

Brjóstagjöfin hefur jákvæð áhrif á andlegt sem líkamlegt heilbrigði móður og barns og er einstök aðferð til samskipta milli þeirra. Þessi nánd skapar tækifæri til tengslamyndunar og barnið öðlast traustan grunn fyrir lífið. Það er nauðsynlegt að sýna þolinmæði og gefa sér þann tíma sem þarf svo til að brjóstagjöfin fari vel af stað (Karitas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2008).

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er mælt með að barnið sé eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina, sjá nánari upplýsingar hér. Embætti landlæknis hefur gefið út skýrar reglur varðandi næringu ungabarna og mælir einnig með að barn sé eingöngu á brjósti eða pela fyrstu sex mánuðina. Sjá nánar á vefsíðu Embætti landlæknis hér.

Brjóstagjöf getur að sjálfsögðu haldið áfram eins lengi og móðir og barn eru ánægð með brjóstagjöfina, hvort sem barnið er 6 eða 18 mánaða. 

Aðstoð

Sumar mæður eiga í vandræðum með brjóstagjöf frá byrjun og getur það tekið verulega á andlega fyrir móður. Það er fullkomlega eðlilegt að brjóstgjöf gangi ekki upp fyrst um sinn og því mikilvægt að leita sér aðstoðar hjá brjóstagjafarráðgjafa. 

Konur eiga rétt á þremur vitjunum brjóstagjafaráðgjafa eftir fæðingu barns. Vitjanirnar verða að fara fram innan 6 mánaða frá fæðingu barns (samkvæmt rammasamning ljósmæðra við sjúkratryggingar Íslands). Hægt er að leita til brjóstagjafaráðgjafa þegar um er að ræða alvarleg vandamál við brjóstagjöf, s.s. sýkingar, erfið sár, sogvillu og fleira þar sem þörf er á sérstakri ráðgjöf frá sérmenntuðum brjóstagjafarráðgjafa. Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir þá þjónustu.

Helstu ástæður fyrir tilvísun til brjóstagjafaráðgjafa fyrstu dagana geta verið sársauki við brjóstagjöf, oftast vegna sára á geirvörtum, lítillar mjólkurframleiðsla, sogvilla og óeðlilegs þyngdartaps barns, svo dæmi séu tekin (brjostagjafaradgjafi.is, e.d.).

Listi yfir starfandi brjóstagjafaráðgjafa á Íslandi má nálgast hér og beiðni sem þarf að fylla út má nálgast hér.

Kostir brjóstamjólkur og brjóstagjafar (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2008).

  • Jákvæð áhrif á næringu, ónæmiskerfi, heilbrigði og þroska barnsins.
  • Hárrétt samsetning næringarefna fyrir barnið og aðlagast breyttum þörfum barns jafnóðum og það vex.
  • Inniheldur alla næringu og vökva sem barnið þarfnast a.m.k. fyrstu sex mánuðina.
  • Brjóstamjólkin er alltaf fersk og auðmelt fyrir barnið.
  • Barn sem nærist eingöngu á brjóstamjólk fær síður hægðatregðu, niðurgang, eyrnabólgu, þarma-, lungna- og þvagfærasýkingar.
  • Brjóstagjöf strax eftir fæðingu eykur samdrátt í legi móðurinnar, minnkar líkur á blæðingu og styrkir legvöðvann.
  • Brjóstagjöf getur verndað gegn brjósta- og eggjastokkakrabbameini og styrkt bein móðurinnar.
  • Hormón sem koma að framleiðslu mjólkur (oxytocin, prólaktín og endorfín) hafa róandi áhrif á móður og barn.
  • Nærveran og hlýjan sem skapast við brjóstagjöf er barninu mikilvæg og styrkir því tengsl milli móður og barns.
  • Næturgjafir eru auðveldari; það þarf ekki að fara fram úr um miðjar nætur til að hita mjólk.
  • Brjóstagjöf fylgir enginn þvottur eða sótthreinsun pela og brjóstamjólkin kostar ekki neitt.

Brjóstagjöf og makinn

Makinn hefur að sjálfsögðu áhuga á brjóstagjöf og því að annast barnið sitt. Þetta er nýtt hlutverk fyrir makann (ef um fyrsta barn er að ræða) og tekur tíma að aðlagast og mynda tengsl við barnið. Þó að makinn geti ekki gefið brjóst getur hann lagt verulega mikið af mörkum með almennum stuðningi og hlýju til móðurinnar.

Hann sér til þess að móðirin naí að hvílast og að móðir og barn hafi næði við brjóstagjöf. Barnið þarfnast samveru við báða foreldra og veita hlý og náin tengsl maka barninu öryggi. Makinn heldur á barninu sínu, horfir á það, talar við það, róar og vaggar. Hann hjálpar barninu að ropa og skiptir um bleyju. Sameiginleg reynsla móður og maka af brjóstagjöf og samskipti þeirra við barnið skapa skilyrði fyrir gott fjölskyldulífi (Karitas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2008).

Samvinna og umhyggja

Brjóstagjöf er mikil vinna fyrir móðurina og er ekki einkamál hennar. Stuðningur þeirra sem standa móðurinni næst skiptir máli til að brjóstagjöfin verði árangursrík og ánægjuleg. Þar er makinn að sjálfsögðu í lykilhlutverki. Flestar mæður nefna maka sinn sem þýðingarmesta stuðningsaðilann við brjóstagjöf. Þegar brjóstagjöfin er komin vel á veg er hún auðveldari og ánægjuleg fyrir flestar mæður, börn þeirra og fjölskylduna alla.

Safna má brjóstamjólk í ílát, pela eða plastpoka sem eru sérhannaðir fyrir geymslu brjóstamjólkur. Mjólk má geyma í ísskáp í þrjá daga og í frystihólfi ísskáps í tvær vikur. Mjólk í frystiskáp (sérhurð á ísskápnum) geymist í 3-4 mánuði. Mjólk í frystikistu geymist í sex mánuði við -18°C.

Gæta þarf hreinlætis við meðhöndlun brjóstamjólkur, bæði hvað varðar handþvott og þrif áhalda. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður í ungbarnavernd veita nánari upplýsingar til foreldra sem þess óska.

HEIMILDASKRÁ

Síðan var síðast uppfærð í maí árið 2022.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.