Skip to content

HEIMAÞJÓNUSTA LJÓSMÓÐUR

Þegar fjölskyldan útskrifast heim innan sólarhrings frá fæðingu, stendur þeim til boða að þiggja vitjanir frá ljósmóður í heimaþjónustu næstu 6-10 daga. Ljósmóðirin kemur heim til fjölskyldunnar innan 12-16 klst frá útskrift og það er hægt að hafa samband við hana í síma ef vandamál koma upp milli heimsókna. Konum sem eru að fæða í fyrsta sinn býðst að fá allt að 7 heimsóknir ljósmóður en konur sem hafa fætt áður 6 heimsóknir (heilsugaeslan.is, e.d.).

Mæður sem fæða með keisaraskurði eiga þess kost að útskrifast í heimaþjónustu eftir 48 klst. Einnig er hægt að útskrifast í Heimþjónustu allt að 72 klst. eftir fæðingu þó frávik hafi verið í heilsufari móður eða barns (heilsugaeslan.is, e.d.).

Ljósmóðir i heimaþjónustu fylgist með heilsu móður og barns og aðstoðar við brjóstagjöf. Foreldrar geta sjálfir valið ljósmóður í heimaþjónustu eða starfsfólk deildar útvega ljósmóður (heilsugaeslan.is, e.d.).

Á Meðgöngu- og sængurlegudeild LSH er boðið upp á sólarhrings samveru foreldra/forráðamanns og barns eftir fæðingu. Á Meðgöngu- og sængurlegudeild getur móðir fengið að dvelja í allt að 24 klst. ásamt barni sínu og barnsföður eða öðrum aðstandanda. Ef ástæða þykir til geta konur dvalist í allt 72 tíma á deildinni, t.d. þegar konan hefur fætt með keisaraskurði. Barnsfaðir eða aðstandandi þarf að greiða fyrir „fæði og húsnæði“ en ekki þarf að greiða fyrir móður og barn. Heimaþjónusta í sængurlegu er í boði fyrstu 10 dagana eftir fæðingu. Mismunandi er eftir byggðarlögum hvort þar er ljósmóðir sem veitir slíka þjónustu og er verðandi mæðrum/foreldrum bent á að leita sér upplýsinga í sínu byggðarlagi hafi þau áhuga á slíkri þjónustu (ljosmodir.is, e.d.).

Á öðrum sængurlegudeildum á landinu getur móðir fer allt eftir aðstæðum á hverjum stað hvort faðir eða annar aðstandandi getur dvalið á sjúkrahúsinu með móður og barni.

5 DAGA SKOÐUN

Á LSH er nýburinn skoðaður af barnalækni fyrir heimferð og fer skoðunin fram inni á herbergi fjölskyldunnar. Foreldrar fá tíma fyrir barnið í aðra skoðun hjá barnalækni þegar barnið er 5-7 daga gamalt. Heyrnarmæling er gerð í þessari skoðun og barnið er vigtað. Skoðunin fer fram á jarðhæð Barnaspítala Hringsins (heilsugaeslan.is, e.d.).

Nánari upplýsingar er að finna hér.

HEIMAÞJÓNUSTA / UNGBARNAVERND HJÚKRUNARFRÆÐINGS

Markmið heimaþjónustu er að veita foreldrum stuðning og fræðslu eftir fæðingu barns í þeirra eigin umhverfi (landlaeknir.is, e.d.).

Hjúkrunarfræðingur fer í fyrstu heimavitjun fljótlega eftir heimkomu móður og barns eða þegar heimaþjónustu ljósmóður lýkur. Fyrsta vitjun er æskileg 7–14 dögum eftir fæðingu. Heimsókn er ávallt ákveðin í samráði við foreldra. Að jafnaði er miðað við tvær til þrjár heimavitjanir fram að sex vikna skoðun. Fyrsta heimavitjun tekur u.þ.b. klukkustund en næstu heimavitjanir taka yfirleitt skemmri tíma (landlaeknir.is, e.d.).

Tímalengd og fjöldi vitjana fer þó eftir þörfum fjölskyldunnar hverju sinni. Hjúkrunarfræðingur metur út frá aðstæðum og sögu fjölskyldunnar hvaða stuðning og fræðslu foreldrar þurfa í heimavitjunum (landlaeknir.is, e.d.).

Nánari upplýsingar er að finna hér.

HEIMILDASKRÁ

  • Heilsugaeslan.is (e.d.). Eftir fæðingu – heimaþjónusta. Sótt af heilsugaeslan.is 
  • Ljósmæðrafélag Íslands (e.d.). Heimaþjónusta ljósmæðra. Sótt af ljosmodir.is
  • Embætti landlæknis (e.d.). Heimavitjanir. Sótt af landlaeknir.is

Síðan var síðast uppfærð í maí árið 2022.

Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.