Hiti hjá börnum- Hjálpleg atriði

Óhjákvæmilegt er að barn fái hita fyrstu árin. Fyrir marga foreldra getur reynst erfitt að átta sig á hvað skal gera fyrir litla krílið og hvernig skal bregðast við. Oftar en ekki er hitinn saklaus en betra er hafa alltaf allan varann á. Mikilvægt er að muna að hiti er ekki sjúkdómur heldur einkenni um undirliggjandi sjúkdóm. Í heilanum er staður sem stýrir líkamshitanum svipað og ofnar í heimahúsum. Margt bendir til að hiti sé hjálplegur til varnar sýkingum. Hjá börnum í leik getur hitinn auðveldlega farið yfir 38°C án þess að um sjúklegt ástand sé að ræða og einnig er rétt að benda á að börn með sýkingu geta verið með líkamshita innan eðlilegra marka. (Landlaeknir.is, e.d ). Að horfa á barnið sitt slappt og heitt getur verið óþæginleg reynsla.

Hafa ber í huga að það er mikilvægt að hlusta á foreldrahjartað og leita ráðlegginga og aðstoðar fagfólks þó tilefnið reynist lítilvæglegt. Að leita aðstoðar fyrir barnið sitt er aldrei móðursýki eða að gera úlfalda úr mýflugu. Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Við tókum saman nokkur hjálpleg atriði.

Almennt er talað um að börn séu komin með hita ef líkamshiti þeirra fer yfir 38°C, en mörkin eru mismunandi eftir því hvernig hitinn er mældur. Snerting á húð barnsins getur gefið vísbendingu um að það sé með hita en er hins vegar ekki áreiðanleg aðferð. Besta aðferðin til að greina hita er að nota hitamæli.

Eftirfarandi viðmið eru notuð fyrir mismunandi mæla (heilsuvera.is, e.d):

 • Endaþarmsmælir, eyrnamælir: hiti ef mælirinn sýnir >38°C
 • Munnmælir: hiti ef mælirinn sýnir >37,8°C
 • Holhandarmælir: hiti ef mælirinn sýnir >37,2°C

Hvað veldur oftast hita?

 • Kvef eða flensa
 • Öndunarfærasýking
 • Magapest
 • Börn geta líka fengið hita í kjölfar bólusetningar og vegna tanntöku.

Góð ráð:

 • Fylgist með hitanum á 2-4 tíma fresti.
 • Haldið vökva að barninu. Börn eru oft lystarlaus þegar þau eru með hita. Leggið því meiri áherslu á að barnið drekki heldur en borði.
 • Gefið hitalækkandi lyf á 4-6 tíma fresti ef barninu líður illa. Til dæmis Panodil Junior eða Nurofen Junior eftir aldi og þyngd barnsins. Hiti er eðlilegt varnarviðbragð líkamans og því er óþarfi að gefa hitalækkandi lyf ef barninu líður ekki illa með hitanum.  Einungis ætti að gefa hitalækkandi meðferð þeim börnum sem líður illa vegna hitans frekar en að miða meðferð við ákveðið hitastig.
 • Skapið rólegt og notalegt umhverfi fyrir barnið og leyfið því að hvílast þegar það vill, án þess þó að þvinga það til að hvílast.
 • Hafið barnið í léttum og þægilegum fatnaði og notið lak í stað sængur.

Leitaðu til heilsugæslunnar hér ef:

 • Hiti hefur varað í 3 sólarhringa og lækkar lítið við hitalækkandi lyf eða engin sýnileg ástæða er fyrir hitanum.
 • Gult hor/slím hefur verið samhliða hitanum í yfir 3 sólarhringa.
 • Barn er með langvinnan sjúkdóm, s.s. sykursýki, flogaveiki.
 • Barninu finnst sárt að pissa.
 • Blæðing, útferð eða verkir í leggöngum.
 • Uppköst, niðurgangur eða verkir í maga.
 • Verkur í eyrum, eða hálsi.
 • Barnið er með útbrot.

Bráðamóttaka Barnaspítala Hringsins tekur á móti öllum veikum börnum frá fæðingu til 18 ára aldurs. Foreldrar/forráðamenn geta því leitað beint á bráðamóttökuna með bráðveikt barn en til að komast hjá kosnaði þá þarf tilvísun frá lækni, hjúkrunarfræðingi eða ljósmóður. Börn undir 2 ára greiða ekki fyrir læknisþjónustu.

Leitaðu til bráðamóttöku ef:

 • Barnið á erfitt með andardrátt.
 • Húð eða varir eru bláleitar.
 • Getur ekki kyngt, slefar mikið.
 • Fjólubláir eða blóðlitaðir litlir punktar eða doppur á húð barnsins.
 • Mikill höfuðverkur eða mikill magaverkur.
 • Krampar
 • Útbrot, rauð tunga og stækkaðir eitlar á hálsi.
 • Barnið virðist mjög veikt, mjög slappt eða mjög pirrað.
 • Ef hitinn (endaþarmsmæling) fer yfir eftirfarandi mörk:
 • Hiti er yfir 38°C hjá börnum yngri en 3 mánaða.
 • Hiti nær 40°C hjá börnum 2-6 mánaða, eða þau eru með niðurgang eða uppköst.
 • Hiti er yfir 40°C og lækkar lítið þrátt fyrir hitalækkandi lyf.

Merki um að barnið sé að þorna upp/vökvaskortur:

 • Minnkuð þvaglát, mjög dökkt þvag.
 • Sokkin augu.
 • Þurr munnur og varir.
 • Grátur án tára.
 • Þurr bleyja (viðmið: 1 pissubleyja á dag)

Mikilvægt: Hiti barna einn og sér segir lítið til um veikindi þeirra eða
alvarleika veikindanna. Barn getur verið með alvarlega sýkingu en hitalaust og að sama skapi verið með meinlausa veirusýkingu en háan hita. Hins vegar ber alltaf að taka hita (hærri en 38°C) alvarlega hjá börnum yngri en 3 mánaða og hafa samband við lækni.

Heimildaskrá:


Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilega ráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.

Svipaðar færslur