Mataræði á meðgöngu er eitt af því fyrsta sem kona leitar upplýsinga um á meðgöngu. Í fyrstu getur verið yfirþyrmandi að leita eftir upplýsingum um hvað má borða og hvað má ekki borða á meðgöngu en sem betur fer er meira úrval sem má borða en það sem er mælt gegn því að borða á meðgöngu.
Góð næring á meðgöngu er mikilvæg fyrir vöxt og þroska barns í móðurkviði og stuðlar að heilbrigði þess síðar á ævinni. Hún er ekki síður mikilvæg fyrir vellíðan og heilsu konunnar sjálfrar og stuðlar að hæfilegri þyngdaraukningu á meðgöngu (heilsuvera.is, e.d.).
Á meðgöngu þarf að hugsa vel að vítamín inntöku og sérstaklega er mikilvægt að taka fólinsýru fyrstu 12 vikur meðgöngu. Nánar má lesa um fólat hér.
Matur sem skal forðast á meðgöngu:
- EGG – Hrá, létt steikt eða linsoðin egg.
- KJÖT – Hrátt eða lítið eldað kjöt.
- FISKUR – Grafinn fiskur (Passa að allur fiskur sem þú borðar sé eldaður)
- ANNAÐ – Pate, lifur, hráar baunaspírur, ógerilsneydd mjólk og ostar/afurðir úr ógerilsneyddri mjólk.
Íslenskir ostar eru unnir úr gerilsneyddri afurð og rannsóknir sem gerðar hafa verið, gefa ekki til kynna að óttast þurfi neyslu á þeim (heilsugaeslan.is, 2016). Það er ekki æskilegt að borða mjúka osta eða mygluosta erlendis. Við gerð þeirra er oft notuð ógerilsneydd mjólk auk þess eru í þeim góð vaxtarskilyrði fyrir ýmsar bakteríur (landlaeknir.is, 2018).
Gott mataræði skiptir miklu máli fyrir líðan og heilsu móðurinnar og stuðlar að hæfilegri þyngdaraukningu á meðgöngu. Barnshafandi konur þurfa ekki endilega að borða meira en áður þó orkuþörfin aukist jafnt og þétt eftir því sem líður á meðgönguna. Flestar konur hvíla sig meira og hreyfa sig heldur minna á seinni hluta meðgöngunnar (heilsuvera.is, e.d.).
Það er best fyrir bæði móður og barn að gefa sér tíma til að borða morgunverð, hádegisverð og kvöldverð, auk þess tvo til þrjá millibita yfir daginn. Þannig er tryggt að næringarefnin berist stöðugt og jafnt til barnsins (Embætti landlæknis, e.d.). Það getur verið gott að hafa ávallt eitthvað með sér til að narta í ef skyndilega kemur upp svengd eða blóðsykur minnkar.
Nánari upplýsingar um mataræði á meðgöngu má lesa á eftirfarandi síðum:
- Mataræði á meðgöngu – bæklingur – Embætti landlæknis
- Ráðleggingar um mataræði – heilsuvera.is
- Mataræði á meðgöngu – Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
- 13 Foods to Eat When You’re Pregnant – healthline.com
Heimildaskrá:
- Hvaða matvæli ber að forðast á meðgöngu? Heilsugæslan.is. Sótt af https://www.heilsugaeslan.is/library/Files/MM/Mataraedi/Hva%C3%B0a%20matv%C3%A6li%20ber%20a%C3%B0%20for%C3%B0ast%20%C3%A1%20me%C3%B0g%C3%B6ngu-.pdf
- Mataræði á meðgöngu. Embætti landlæknis. Sótt af landlaeknir.is/servlet/file/store93/item35168/Mataraedi%20a%20medgongu%20baekl.2018-5.pdf
- Ráðleggingar um mataræði. Heilsuvera.is. Sótt af heilsuvera.is/efnisflokkar/naering/radleggingar-um-mataraedi/a-medgongu