Fólinsýra er mikilvæg fyrir barnshafandi konur

Fólat er B-vítamín, oft nefnt fólasín eða fólinsýra er nauðsynlegt fyrir fólk á öllum aldri en það er sérstaklega mikilvægt fyrir konur á barneignaraldri og barnshafandi konum. Þar sem þungun er ekki alltaf skipulögð fyrirfram er öllum konum sem geta orðið barnshafandi ráðlagt að taka 400 míkrógramma (0,4 mg) fólattöflu daglega, einnig nefnt fólinsýrutafla og sérstaklega mikilvægt að taka fólinsýru fyrstu 12 vikur meðgöngu.

Þeim konum sem hyggja á barneignir er ráðlagt að taka fólattöflu daglega í að minnsta kosti fjórar vikur fyrir þungun og halda því áfram að minnsta kosti fyrstu tólf vikur meðgöngu. Að auki er þeim ráðlagt að borða fólatríkt fæði sem viðbót við fólat í töfluformi (landlaeknir, e.d.a). Almennt er ekki er talin þörf á að taka önnur bætiefni á meðgöngu en fólinsýru og D-vítamín.

Í stuttu máli, ef þú ert barnshafandi og ekki nú þegar að taka fólattöflu daglega er gott að byrja að taka það inn sem fyrst. Það eru til allskonar fólinsýru töflur og sprey í apótekum og matvöruverslunum um land allt. Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl lítillar inntöku fólats fyrir þungun og á fyrstu vikum meðgöngu og hættu á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fóstursins, s.s. klofnum hrygg, heilaleysi og vatnshöfði en á Íslandi greinast árlega um 6 slík tilvik (landlaeknir, e.d.a).

Notkun – verkun (skv lyfja.is)

  • Til að koma í veg fyrir fæðingargalla og þá helst klofinn hrygg. 
  • Getur dregið úr líkum á því að krabbamein myndist. 
  • Getur minnkað líkur á hjartasjúkdómum. 
  • Spornar við þunglyndi (vægu/miðlungs). 
  • Við pirring í fótum. 
  • Við gigt.

Í líkamanum er fólínsýru breytt í tetrahýdrófólínsýru sem er mikilvæg við myndun amínósýra og kjarnsýra (DNA og RNA). Þetta er ástæðan fyrir því að fólínsýra er svo mikilvæg á fósturskeiði þegar frumuskipting er ör (lyfja.is, e.d.). Vísindamaðurinn Lucy Wills uppgötvaði fólín árið 1931 þegar hún var að rannsaka hvernig hægt væri að koma í veg fyrir blóðleysi hjá barnshafandi konum. Það kom í ljós að blóðleysi mátti lækna með geri úr bruggi. Það kom í ljós að það var vegna folats og það var svo fyrst unnið úr spínatblöðum árið 1941 og fyrst framleitt á efnafræðilegan hátt árið 1946 (Wikipedia, e.d.).

Það er fremur sjaldgæft að skortur sé á fólínsýru ef fólk borðar fjölbreytta fæðu en grænmeti og kjöt innihalda mest af henni. Einnig í belgávöxtum, grænu grænmeti, lifur og vítamínbættu morgunkorni. Þeim sem einkum er hætt við fólínsýruskorti eru áfengissjúklingar en einnig teljast þungaðar konur í áhættuhóp. Þá er fólki hætt við fólínsýruskorti sem er undir stöðugu og miklu álagi (lyfja.is, e.d.).

Fólatrík matvæli í viðbót við fólattöflur (landlaeknir, e.d.a).

  • Grænmeti: Spínat, spergilkál (brokkólí), steinselja, spergill, rósakál, blómkál, kínakál, blaðsalat, blaðlaukur, graslaukur, grænkál, rauð paprika, avókadó, rauðkál, hvítkál.
  • Ávextir: Jarðarber, kíví, appelsínur.
  • Korn, fræ og hnetur: Vítamínbætt morgunkorn (skoðið innihaldslýsingu á umbúðum), múslí, haframjöl, gróf brauð (t.d. maltbrauð), hveitikím, hveitiklíð, sesamfræ, hörfræ, hnetur, möndlur, hnetusmjör.
  • Baunir: Kjúklingabaunir, sojabaunir, nýrnabaunir.

Barnshafandi konur ættu að forðast að borða lifur og lifrarafurðir, jafnvel þótt fólatrík sé, vegna þess hversu mikið er af A-vítamíni í lifur.

Nánar má lesa um fólinsýru á eftirfarandi síðum

Heimildaskrá

Svipaðar færslur