Það er skemmtilegt að lesa sig til um meðgöngu og hluti sem skipta máli fyrir verðandi foreldra. Mikið úrval er af íslenskum bókum og tókum við saman nokkrar sem er tilvalið fyrir komu barnsins.
Í bókinni Fæðingarsögur má lesa 50 fæðingarsögur íslenskra kvenna. Sögurnar eru eins misjafnar og þær eru margar enda eru engar tvær fæðingar eins. En allar eru frásagnirnar einlægar og skrifaðar af konum sem eru tilbúnar að deila sinni persónulegu reynslu með lesendum. Höfundur: Hanna Ólafsdóttir
Fyrstu 1000 dagarnir: barn verður til — Aðgengileg handbók fyrir foreldra sem byggir á tengslakenningum, nýjustu rannsóknum í taugavísindum og sálgreiningu. Hér eru gefin góð ráð um hvernig foreldrar geta búið sig undir fæðingu barns og annast það og örvað fyrstu árin með það að leiðarljósi að byggja upp heilbrigðan og ástríkan einstakling. Sæunn Kjartansdóttir höfundur bókarinnar er einn af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna sem sérhæfir sig í tengslaeflandi meðferð foreldra og ungbarna.
Foreldrahandbókin er yfir 400 blaðsíður fullar af fróðleik um flest allt sem nýbakaða foreldra fýsir að vita og gott er að hafa á einum stað. Hagnýtar upplýsingar, ráðleggingar og reynslusögur foreldra auk fjölda greina eftir sérfræðinga. Höfundur: Þóra Kolbrá Sigurðardóttir (þess má geta að ný og endurbætt útgáfa kom út haustið 2019)
Fyrstu mánuðirnir: ráðin hennar Önnu ljósu – Hér gefur að finna ráð hinnar þaulreyndu ljósmóður Önnu Eðvaldsdóttur, sem er betur þekkt sem Anna ljósa, handa foreldrum ungabarna. Bókin er stútfull af gagnlegum upplýsingum um þegar barnið kemur í heiminn, brjóstagjöf, grátur, meltingu, líðan móður, veikindi barna og allt annað sem er mikilvægt að vita um fyrstu mánuðina í lífi barnsins. Höfundar: Anna Eðvaldsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir
Mömmubitar – næring og hollusta á meðgöngu – Þegar leikkonan Aníta Briem gekk með dóttur sína vildi hún að sjálfsögðu sjá til þess að hún og barnið fengju þá næringu sem hentaði þeim báðum best og fór að leita að einfaldri bók á mannamáli um mat og hollustu á meðgöngu – en fann hana ekki. Hún fékk Sollu Eiríks í lið með sér til að semja uppskriftir og vinna úr hugmyndum og hér er bókin komin – frábær leiðarvísir fyrir verðandi móður til að leita sér upplýsinga og innblásturs, vinna gegn ógleði og orkuleysi á meðgöngu og útbúa hollan og góðan mat fyrir sjálfa sig og barnið. Höfundar: Aníta Briem, Sólveig Eiríksdóttir
Ungbarnanudd – Höfundur bókarinnar, Dilla, hefur 20 ára reynslu af ungbarnanuddi og setur sitt persónulega mark á leiðbeiningarnar sem allar eru sýndar á skýran og einfaldan hátt með fallegum litmyndum Heiðu ljósmyndara. Höfundar: Dilla og Heiða
Draumaland – Svefn er ekki afmarkaður þáttur í lífi barna, heldur er hann samofinn hlutum eins og næringu, þroska og persónuleika. Í draumalandi leiðir Arna Skúladóttir okkur inn í heim barnsins og skoðar hann í ljósi svefnsins. Hún fjallar um hlutverk foreldra, leiðir að bættum svefnvenjum og hvernig hægt er að leysa svefnvandamál barna.
Arna Skúladóttir er hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í barnahjúkrun með svefn og svefnvandamál sem undirsérgrein. Hún starfar á Barnaspítala Hringsins og hefur tekið á móti þúsundum barna og foreldra sem leitað hafa til hennar með margvísleg svefnvandamál og fyrirspurnir. Höfundur, Arna Skúladóttir
Samskipti foreldra og barna – Afar vinsæl bók víða um heim. Í henni er mælt gegn einhliða valdi uppalenda í samskiptum barna og fullorðinna. Bókin kennir virka hlustun og sýnir á ljósan hátt jákvæðar aðferðir sem miða að gagnkvæmum skilningi milli barna og uppalenda. Mælt er með sameiginlegum lausnum þeirra á vandamálum svo að börnin geti litið á sig sem ábyrga aðila. Höfundur: Dr. Thomas Gordon