Meðgöngusykursýki – Upplýsingar

Sykursýki sem greinist á meðgöngu er kölluð meðgöngusykursýki og er algengara en marga grunar. Sjúkdómurinn er yfirleitt einkennalaus og þarf því að ganga úr skugga um hvort hann sé til staðar með sykurþolsprófi. Óþarfi er að hafa áhyggjur strax því oftast er meðgöngusykursýki meðhöndluð með réttu mataræði án annarra inngripa.

Meðgöngusykursýki sem kemur í kjölfar þungunar hverfur yfirleitt eftir fæðingu. Hún er algengari hjá konum sem eiga ættingja með sykursýki eða eru of þungar. Á meðgöngu er insúlínþörf líkamans meiri en venjulega og ef briskirtillinn getur ekki svarað þeirri þörf þróast sykursýki. Eftir fæðinguna verður insúlínþörfin eðlileg á ný og sjúkdómurinn hverfur.

Þeir áhættuþættir sem lagðir eru til grundvallar við skimun eru eftirfarandi:

  • Aldur > 40 ára
  • Offita: BMI > 30
  • Meðgöngusykursýki í fyrri meðgöngu
  • Þungburi áður (þyngri en 4500 g)
  • Skert sykurþol fyrir þungun
  • Ættarsaga um sykursýki í fyrsta ættlið konu
  • Kynþáttur annar en hvítur

Við fyrstu mæðraskoðun er metið hvort áhættuþættir eru til staðar og í framhaldi af því er tekinn fastandi blóðsykur hjá konunni. Ef blóðsykurgildið er yfir ákveðnum mörkum þá greinist hún með meðgöngusykursýki. Ef gildið er undir þessum viðmiðunarmörkum þá fer konan í svo kallað sykurþolspróf við 24-28 vikna meðgöngu. Sykurþolspróf er framkvæmt þannig að konan kemur á rannsóknardeild eftir 10 tíma föstu. Mældur er fastandi blóðsykur og síðan blóðsykur eftir 1 og 2 klukkustundir, eftir að konan hefur drukkið sykurblöndu.

Markmið með meðferð við meðgöngusykursýki er að halda blóðsykri í jafnvægi. Æskilegt er að fastandi blóðsykur sé < 5,8 mmól/L og einni klukkustund eftir máltíð sé blóðsykur < 7,8 mmól/L. Blóðsykurmælingar gefa til kynna hversu mikil áhrif máltíðir hafa á blóðsykurinn. Fyrsta meðferð við meðgöngusykursýki er fólgin í góðri næringarinntöku og líkamlegri hreyfingu. Dugi það ekki til getur verið þörf á insúlínmeðferð á meðgöngu

Ef kona í meðgöngu fær þessa greiningu þá fær hún tíma hjá ljósmóður til að fá kennslu á blóðsykurmæli og leiðbeiningar um mataræði. Mikilvægt er að konan stundi hreyfingu og hafi heilsusamlegt matarræði að leiðarljósi með hæfilegri kolvetnaneyslu til þess að halda blóðsykri sem næst eðlilegum gildum og minnka þannig líkur á óæskilegum fylgikvillum fyrir móður og barn.

Athugið að enginn aukakostnaður fylgir meðgöngusykursýki fyrir konuna. Ljósmóðir skrifar upp á vottorð sem apótek taka við og fá mæður gefins sykursýkimæli og strimla til mælinga. Þú lærir að mæla þig fastandi að morgni og einni klukkustund eftir máltíð: Morgunmat, hádegismat og kvöldmat.

Ljóst er að ómeðhöndluð sykursýki á meðgöngu getur haft skaðleg áhrif fyrir móður og barn, má þar nefna meiri líkur á keisaraskurði, nýburagulu, axlaklemmu og fæðingu þungbura. Þess vegna er nú skimað reglubundið fyrir meðgöngusykursýki hjá konum með ákveða áhættuþætti á meðgöngu. Ef eitt gildi er yfir mörkum þá greinist meðgöngusykursýki.

Tíðni sykursýki á Íslandi fer vaxandi eins og í öðrum vestrænum löndum. Þar ber mest á sykursýki af tegund 2 (SST2), en sykursýki af tegund 1 (SST1) er einnig að aukast, þó ekki sé vitað hvað veldur því. SST1 getur haft víðtæk áhrif á heilsu verðandi móður og ófædda barnsins. Þungaðar konur með fyrirverandi sykursýki eru oftar með háþrýsting og fá frekar meðgöngueitrun.

Ef þú hefur áhyggjur af því að vera með meðgöngusykursýki eftir þennan lestur þá er fyrsta skrefið að ræða þetta við ljósmóðir sem þú ert hjá í mæðravernd.

Áhugaverðar greinar fyrir þá sem vilja lesa sig meira til um sykursýki og meðgöngusykursýki


Heimildir og aðrar upplýsingar í þessari færslu eru meðal annars úr eftirtöldum greinum hér fyrir ofan.

Síðan var síðast uppfærð í maí árið 2022.

Svipaðar færslur