Lús hjá börnum – Upplýsingar og góð ráð

Lúsasmit eru algeng hjá börnum og sérstaklega þegar leik- og grunnskólar hefjast á ný á hverju hausti. Það er því mikilvægt að vera undirbúin ef höfuðlús gerir vart við sig. Lúsasmit eru algengust á meðal barna á aldrinum 3 til 13 ára og gott að leggja áherslu á að kemba oft og reglulega yfir skólaárið.

Höfuðlús er lítið skordýr sem hefur aðlagað sig manninum og lifir sníkjulífi í hárinu á höfðinu. Hún nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Höfuðlúsin er ekki talin bera neina sjúkdóma og því skaðlaus manninum (heilsuvera.is, e.d.).

Smitleiðir

Lúsin fer á milli einstaklinga ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli en hún getur hvorki stokkið, flogið né synt. Höfuðlús sem fallið hefur út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þ.a.l. ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Þess vegna er talið að smit með fatnaði og innanstokksmunum sé afar ólíklegt en ekki er þó hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli (heilsuvera.is, e.d.).

Einkenni

Höfuðlús veldur litlum einkennum en lúsin og egg hennar, nit, geta sést í hári. Einn af hverjum þremur fær kláða. Lúsin leggur egg sín á hárið nálægt hársverðinum og festir það við hárið. Þar sem nitin er föst við hárið færist hún frá hársverðinum þegar hárið vex. Nit sem komin er langt frá hársverði er líklega dauð eða tóm. Algengast er að nitin sé fyrir aftan eyru og neðantil í hnakka (heilsuvera.is, e.d.).

Meðferð

Nauðsynlegt er að kemba til að greina lúsasmit (lesa má um hvernig er best að kemba hár á Heilsuveru hér). Nota má kembingu sem meðferð við lús. Ef kembt er samviskusamlega á hverjum degi í 14 daga er tryggt að lúsin er farin úr hárinu.

Lúsadrepandi efni
Efni til að drepa höfuðlús fást í apótekum og eru af ýmsum gerðum. Við mælum með Elimax lúsasjampó og má lesa nánar um vörunar hér. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum við notkun.

Blönduð leið
Margir velja að fara blandaða leið í baráttunni við lúsina. Þá er kembing og lúsadrepandi efni notað samhliða. Byrjað er á að kemba og svo er hárið meðhöndlað með lúsadrepandi efni. Daginn eftir er kembt aftur og síðan annan hvern dag í 14 daga.

Gott að vita: 

  • Finnist lús í höfði barns er rétt að láta vita í skóla/leikskóla barnsins svo hægt sé að tilkynna foreldrum annarra barna um lúsina og hefta útbreiðslu lúsarinnar.
  • Frá árinu 1999 hefur höfuðlús verið skráningarskyldur sjúkdómur og safna heilsugæslustöðvar, hver á sínu svæði, og skólahjúkrunarfræðingar upplýsingum um lúsasmit og senda til sóttvarnalæknis, einu sinni í mánuði. 
  • Almenningur er beðinn um að tilkynna um lúsasmit til sinnar heilsugæslustöðvar.

Nánari upplýsingar um lús má finna á eftirfarandi síðum:

Heimildaskrá

Heilsuvera.is (e.d.). Höfuðlús. Sótt af heilsuvera.is/markhopar/sjukdomar-fravik-einkenni/hofudlus

Svipaðar færslur