Að venja barn af brjósti

Landlæknisembættið og Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) mælir með því að börn séu eingöngu á brjósti í sex mánuði og síðan smám saman kynnt fyrir fastri fæðu en haldið sé áfram að gefa brjóst í tvö ár eða lengur.

Æskilegt er að brjóstagjöf fái að vara eins lengi og hún gerir móður og barni gott. Stundum geta komið upp ófyrirsjáanleg vandamál í brjóstagjöfinni og þá þarf að venja fyrr af brjósti en áætlað var. Það er eðlilegt að móðir finni fyrir depurð sérstaklega ef það er fyrr en búist var við. Barnið getur hafnað brjóstinu, móðirinn þurft að byrja á lyfjum eða önnur atriði sem spila inní.

Mikilvægt er að móðirin fái mikinn stuðning frá maka og fjölskyldu og í ungbarnavernd því hægt að komast yfir flesta brjóstagjafa erfiðleika með hjálp og með vilja. Það er engin ákveðin tímalína hvenær skal hætta brjóstagjöf. Það er ákvörðun þín og barnsins þíns hvenær tíminn er réttur fyrir ykkur. Hér er góð lesning um ýmis vandamál tengd brjóstagjöf.

Brjóstamjólkin heldur alltaf gildi sínu sem næring, þótt vitaskuld þurfi barnið meiri næringu eftir því sem það eldist. Sum börn fækka brjóstagjöfum þegar þau byrja að melta fasta fæðu. Fyrsta fæðan er í raun smakk og barnið meltir ekki mikið né nýtir næringuna að fullu. Það er oft ekki fyrr en 9 til 12 mánaða aldur eða síðar sem börn geta raunverulega nýtt fasta fæðu að fullu sem þau borða. Auðvitað er þetta einstaklingsbundið eins og svo margt annað.

Með því að minnka brjóstagjöf hægt og rólega venur það barnið þitt á breytinguna og mun einnig hjálpa þér að forðast vandamál eins og brjóstastíflu. Ef þú þarft að venja barnið þitt fljótt skaltu ræða við heilbrigðisstarfsmann og/eða brjóstagjafaráðgjafa en hægt er að fá þurrktöflur til að minka framleiðsluna án tafar. 

Grundvallaratriðið er þó alltaf að gefa sér góðan tíma og gera það rólega. Ef barnið er vanið af brjósti um leið og það er vanið á aðra fæðu getur verið gott að taka út eina brjóstamáltíð á viku og gefa mat og drykk í staðinn, eina teskeið til að sjá hvort barnið þolir viðkomandi fæðutegund og brjóst eða pela með, en upp í fulla máltíð á vikunni. Almennt er talað um að hætta með barn á brjósti taki u.þ.b. 6- 8 vikur (doktor.is, 1999).

Brjóstagjöf – Mikilvægir punktar

  • Börn sem eru vanin af brjóstamjólk fyrir fyrsta afmælið þurfa að fá ungbarnaformúlu eða rétt samsetta mjólk með réttum næringarefnum t.d. íslenska stoðmjólk.
  • Næturgjafir eru brjóstabarni mikilvægar, sérstaklega fyrstu sex mánuðina og jafnvel lengur. Í kjölfar tanntöku er mikilvægt að bursta tennurnar vel áður en barnið fær síðustu gjöf fyrir nóttina og svo aftur strax að morgni þar sem flest brjóstabörn sofna út frá brjóstagjöf og yngri brjóstabörn drekka nokkrum sinnum yfir nóttina.
  • Oft er gott ráð að byrja að fækka næturgjöfunum. Það er mikilvægast af öllu að foreldrar finni innra með sér að næturgjafirnar trufli upp að því marki að þeir vilja hætta og hvatinn komi frá þeim og barninu en ekki utan frá utanaðkomandi aðilum. Málið er að það kemur alltaf að því að barnið sefur í gegnum nóttina og næturvöknunin heyrir sögunni til
  • Mælum með að lesa þessa geggjuðu grein eftir hana Soffíu Bærings. Sjá hér.

Stuðningur við móðir skiptir gríðarlega miklu máli í þessu ferli og hvort sem það sé maki, fjölskylda eða vinir þá er alltaf gott að fá aðstoð.
Mikilvægt er að muna að konur eru ólíkar hver annarri og þar af leiðandi hver brjóstagjöf einstök á sinn hátt. Það þarf oft að minna mæður á að andleg og líkamleg heilsa á meðgöngu, fæðingu og sængurlegu er eðlilegt umræðuefni sem á að ræða án skammar og hræðslu við að vera talin óeðlileg eða öðruvísi.

Ég var með báðar stelpurnar (Emilía 14 ára og Soffía 3 ára) á brjósti til tæplega 2 1/2 ára. Þegar þær hættu þá vorum við báðar svo tilbúnar. Það var engin sorg eða kvöð sem fylgdi. Ég undirbjó mig og þær vel! Er svo þakklát fyrir að hafa fylgt minni og þeirra velferð og ekki spáð í hvað öðrum fannst að við ættum að gera. En mikilvægt að muna að allar konur eru ólíkar. Gangi þér vel.

Marta Eiríksdóttir, annar stofnandi Brum.is

Nytsamlegar upplýsingar

HEIMILDASKRÁ


Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.

Svipaðar færslur