Tanntaka barna – Upplýsingar og ráðleggingar

Tanntaka barna hefst venjulega í kringum sex til átta mánaða aldur en þó eru mörg börn sem fá fyrstu tennur sínar fyrr eða mun seinna. Það er því ekkert áhyggjumál fyrir foreldri ef barnið er ekki komið með tennur við átta mánaða, þær koma á endanum. Þegar fyrstu tennurnar líta dagsins ljós bætast nýjar tennur smám saman við þar til allar barnatennurnar tuttugu hafa skilað sér oftast um þriggja ára aldur (þegar öftustu jaxlarnir koma fram).

Tanntöku geta fylgt ákveðin einkenni svo sem pirringur og kláði í gómum auk þess sem mikið er slefað á þessu tímabili. Börn vilja gjarnan naga og setja því upp í sig það sem þau ná í. Pirringur barnsins getur einnig stafað af einhverju allt öðru en tanntökunni. Í þeim undantekningartilvikum þegar barnið verður svo órólegt og aumt í gómunum að það unir sér ekki vel þá er réttast að hafa samband við lækni eða tannlækni. Gott er að hafa í huga að börn gráta oft, án þess að við vitum hvers vegna, stundum er það kannski vegna tanntöku en oftast gráta þau af öðrum ástæðum (heilsuvera.is, e.d.).

Algengustu vandamálin eru kláði og sársauki þegar tennurnar koma upp og oftast fylgir því að börnin vakna oft á nóttunni og eru pirruð og vansæl. Andvökunætur geta verið erfiðar fyrir bæði barnið og foreldrana ef tanntakan gengur hægt eða tennur virðast myndast seint. Aðrir fylgikvillar tanntöku geta verið linar hægðir, niðurgangur og aukin slefmyndun. Önnur einkenni geta verið óróleiki, grátur og pirringur, rauðar kinnar, hita- og kuldaköst (htveir.is, e.d.).

Gott að muna, ef barnið fær hærri hita en 38 gráður í meira en sólarhring þá er það aldrei vegna tanntöku (heilsuvera.is, e.d.).

Leiðir til þess að láta barni líða betur í tanntöku:

  • Bithringur úr gúmmíi minnkar kláða í tannholdinu.
  • Deyfigel sem borið er á góminn (fæst án lyfseðils í apóteki).
  • Setja snuð í frysti til að kæla það.
  • Þvo sér um hendurnar og nudda góm barns með fingri.
  • Búa til litla ískubba eða frostpinna úr t.d. ávöxtum eða brjóstamjólk/formúlu
  • Frysta eplabita og leyfa barni að naga
  • Gefa barninu nóg af umhyggju

Oftast eru það miðframtennur í neðri gómi sem fyrst koma, síðan samsvarandi tennur í efri. Því næst koma hliðarframtennur, fyrst í neðri gómi og svo í þeim efri. Í hvorum kjálka eru 4 framtennur, 2 augntennur og 4 jaxlar (tannsi.is, e.d.).

Foreldrar gegna lykilhlutverki í tannvernd barna sinna og verða að kunna réttu handtökin við tannhirðu barna. Byrjið að bursta tennur barnsins með ögn af flúortannkremi um leið og fyrsta tönnin lætur kræla á sér. Þannig venst barnið því að tannburstun sé eðlilegur og sjálfsagður hlutur og auðveldara verður að bursta tennurnar í framtíðinni.

Bursta þarf tennurnar tvisvar sinnum á dag með 0,1%. flúortannkremi frá því fyrsta tönnin er sýnileg. Magn tannkrems samsvarar ¼ af litlu fingurs nögl barns yngri en 3 ára. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að panta tíma í fyrstu tannskoðun þegar barnið er tveggja ára.

Áhugaverðir linkar:

Heimildaskrá


Brum reynir eftir fremsta megni að tryggja áreiðanleika upplýsinga og gagna sem birtar eru á vef brum.is. Það er á ábyrgð notanda að meta nákvæmni, réttmæti og/eða notagildi þess efnis sem er á vefsíðunni.

Upplýsingar á vef brum.is er ekki ætlað að koma í stað ráðlegginga heilbrigðisstarfsmanna eins og lækna, hjúkrunafræðinga eða ljósmæðra. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur eða spurningar er best að hafa samband við mæðravernd, ungbarnavernd, læknavaktina (s. 1770) eða hringja beint í neyðarlínuna 112. 

Eigendur Brum afsala sér allri ábyrgð vegna þeirra ákvarðanna sem þú tekur á grundvelli þessara upplýsinga, sem eru veittar þér á almennum upplýsingagrundvelli en ekki í staðinn fyrir persónulega læknisfræðilegarráðgjöf.

Nánari skilmála er að finna hér.

Svipaðar færslur