Brjóstagjöf – Fyrstu dagarnir

Brjóstagjöf er okkur eðlileg og náttúruleg en það gleymist oft að hún er einnig lært ferli fyrir móður, barn og maka. Það er alls ekki sjálfgefið að brjóstagjöfin gangi upp fyrst um sinn og geta fyrstu dagarnir skipt sköpum í þessari vegferð í átt að farsælli brjóstagjöf. Við tókum saman ýmis gagnleg ráð og upplýsingar:

Slökun, næði og hvíld:

Reyndu eftir fremsta megni að leyfa þér, litla krílinu og makanum þínum að vera í búbblunni ykkar fyrstu daganna og lágmarkið heimsóknir. Mikilvægt er að þeir gestir sem koma í heimsókn veiti þér og fjölskyldunni mildi, skilning og séu ekki streituvaldar á tímum sem þessum (nánar má lesa um heimsóknir fyrstu dagana hér). 

Líkaminn þinn var að ganga í gegnum eitt mest krefjandi verkefni sem hann mun gera á lífsleið þinni og á sama tíma ert þú að jafna þig, kynnast nýja barninu og svo taka við allskonar líkamlegar breytingar þegar mjólkin fer að flæða. Þú ert jafnvel aum, bæði á líkama og sál og viðkvæm og hefur þörf fyrir að gráta. Mundu bara að allt tekur tíma og það er engin ein töfralausn sem er betri en önnur varðandi brjóstagjöf.

Margir rugla saman mjólkurframleiðslu og mjólkurflæði. Tilfinningar kvenna og ytri aðstæður geta haft áhrif á mjólkurflæði eða losun. Kona sem er til dæmis í mikilli spennu nær ekki að koma mjólkurflæði af stað og hún fer að trúa því að engin mjólk sé til staðar. Framleiðslugetan er hins vegar í 100% lagi. Það vantar bara slökun (mbl.is, e.d.). Mikilvægt er að muna að þetta er tími sem kemur ekki aftur Þess vegna er nauðsynlegt að vera þolinmóð móðir (og maki/fjölskylda) og gefa sér þann tíma sem þarf til að brjóstagjöfin nái að fara vel af stað (ljosmodir.is, e.d.).

Nánd og tengslamyndun:

Rannsóknir hafa margsýnt kosti og mikilvægi þess að leyfa barni að njóta hlýju móður og maka með því að liggja húð við húð eins oft og kostur er. Gott er að vita að nýfædd börn geta ekki stjórnað hitatapi sínu vegna óþroska í taugastjórnun. Með því að finna hlýju, lykt og nánd móður ýtir það undir sogviðbragð barnsins.

Framboð og eftirspurn:

Þegar barn er lagt á brjóst eða liggur húð við húð þá örvast mjólkurframleiðslan. Því oftar sem barnið er lagt á brjóst þeim mun meiri mjólk myndast. Sog barnsins örvar mjólkurmyndunina og mjólkurlosun. Á fyrsta sólarhring fer barnið að meðaltali 4-5 sinnum á brjósti og getur gjöfin tekið 20-40 mínútur. Barnið tekur til sín 7-14 ml (1-2 tsk) í hverri gjöf. Rétt er að gefa ungbarni brjóst þegar það biður um það, líka á nóttinni, sérstaklega á meðan mjólkurframleiðslan er að fara í gang. Það er eðlilegt að ungbarn drekki 8-12 sinnum á sólarhring (heilsuvera.is, e.d.).

Merki um að ungbarn fái nóga mjólk:

  • Barnið er ánægt og sælt eftir gjöf.
  • Barnið nær fæðingarþyngd innan tveggja vikna.
  • Blautar bleiur 6-8 stk. á dag.
  • Gular hægðir 3-8 sinnum á dag fyrstu vikurnar.

Á öðrum sólarhring fer gjöfum fjölgandi og stundum geta gjafir verið með mjög stuttu millibili (keðjugjafir). Síðan fer barnið að jafnaði 8-12 sinnum á brjóst á sólarhring (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2008). Mjólkurmagnið sem barnið drekkur eykst smám saman og í lok fyrstu vikunnar er barnið að drekka 70-90 ml í einni gjöf. Barnið sýgur ekki endilega stöðugt. Það er algengt að það taki sér hlé meðan á gjöf stendur. Það er merki um að mjólkin flæði vel úr brjóstunum (heilsuvera.is, e.d.).

Eðlilegt er að geirvörturnar verði aumar fyrstu vikuna en móðirin á ekki að finna sviða eða stingi á meðan barnið sýgur. Það er merki um að barnið er ekki að taka brjóstið rétt. Taka þarf barnið af brjóstinu og reyna aftur. Setja má fingur upp í munnvik barnsins til þess að losa sogið. Ef það koma sár eða blöðrur þarf að leita aðtoðar sem fyrst (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2008).

Konur eiga rétt á tveimur vitjunum brjóstagjafaráðgjafa eftir fæðingu barns. Vitjanirnar verða að fara fram innan 14 daga frá fæðingu. Hægt er að leita til brjóstagjafaráðgjafa þegar um er að ræða alvarleg vandamál við brjóstagjöf, s.s. sýkingar, erfið sár, sogvillu og fleira þar sem þörf er á sérstakri ráðgjöf frá sérmenntuðum brjóstagjafarráðgjafa. Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir þá þjónustu. Listi yfir starfandi brjóstagjafaráðgjafa á Íslandi má nálgast hér.

Broddurinn (e. colostrum):

Í fyrstu brjóstagjöf eftir fæðingu fær barnið broddinn sem er þykkur og rjómagulur að lit. Þó magnið sé lítið eru gæðin mikil; broddurinn er fullur af mótefnum, næringarefnum og kaloríum og nægir barninu fyrstu dagana ásamt því að verja barnið fyrir hættum utanaðkomandi örvera. Smám saman eykst magnið og brjóstamjólkin þroskast (Karítas Ívarsdóttir og Ragnheiður Bachmann, 2008).

Prólaktín er mjólkurmyndandi hormón. Því oftar og meira sem barnið sýgur því meira prólaktín losnar og því meiri mjólk myndast.Oxýtósín er mjólkurlosandi hormón. Oxýtósín losnar þegar móðirin hugsar um barnið og þegar barnið sýgur brjóstið. Það ýtir undir kærleikstilfinningu móðurinnar til barnsins (heilsuvera.is, e.d.).

Stálmi:

Á 3.-5. degi eftir fæðingu þegar broddmjólkin er að breytast í fullþroska mjólk getur komið stálmi. Brjóstin hitna og þéttast og eru aum viðkomu. Orsökin er aukið blóðflæði til brjósta vegna mjólkurmyndunar. Þrotinn getur verið það mikill að það geti verið erfitt fyrir barnið að ná góðu taki á brjóstinu til að drekka. Hafið í huga að þessi óþægindi eru tímabundin. Með tímanum munu brjóstin mýkjast aftur þegar mjólkurmyndunin og flæðið er komið í reglulegt horf. Algengur misskilningur er sá að stálmi sé ofurframleiðsla mjólkur sem barnið hafi ekki undan að sjúga. Þetta er eðlilegur misskilningur. Brjóstin eru á þessum tíma þrútin og hörð og ef þrýst er á þau þá lekur út mjólk; ergo þau hljóta að vera full af mjólk. Ekkert er fjær sanni (mbl.is, e.d.).

Á stálmatímanum er mjög lítil mjólk í brjóstum en hins vegar er brjóstvefurinn afar bjúgaður. Stálmi byggist á sogi barnsins. Ef barn sýgur lítið fyrstu 2 dagana getur stálmi orðið slæmur en ef það sýgur vel og er alfarið hjá móður sinni finnur hún lítið fyrir stálma.

Besta meðferðin við stálma er að barnið sjúgi vel. Ráðlagt er að leggja barnið oft á brjóst (1-3 tíma fresti allan sólarhringinn), tryggja gott grip og reyna að slaka á. Ef barnið nær ekki að taka brjóstið þá er mælt með því að móðirin mjólki sig og gefi barninu mjólkina á annan hátt, t.d. með staupi eða sprautu. Það er hægt að nota kalda bakstra til að minnka óþægindi. Kælingin getur hjálpað til að móðurinni líður betur en kælingin minnkar blóðflæði til brjóstanna sem stuðlar að minni þrota. Gott ráð er að nota komressur eða kæliplástra til að setja á geirvörturnar. Við mælum með kompressunum frá Multi Mam.

Hjálp og stuðningur:

Mikilvægt er að koma sér vel fyrir í sófanum eða rúminu með nóg að stuðningi við bak, háls og jafnvel undir hnésbætur. Nýttu þér brjósta gjafapúðann eins og kostur er og hægt er að skoða á Youtube ýmsar aðferðir til að nota hann sem best. Hafðu hjá þér vatnsbrúsa en eðlilegt er að fá mikla þorstatilfinningu við brjóstagjöf. Sniðugt er að hafa einnig snarl við höndina til að maula á. Einnig að hafa afþreyingu sem þér finnst skemmtileg og lætur þig slaka vel á.

Hugmyndir að afþreyingu: Hlaðvarpsþættir, hámhorf í sjónvarpi eða á á streymisveitum, góða bók og slökunartónlist.

Deildu tilfinningum þínum og hugsunum með maka þínum (eða stuðningsaðila til dæmis fjölskyldumeðlimi eða vini/vinkonu) og leyfðu viðkomandi að hjálpa þér. Mikill stuðningur skiptir máli í brjóstagjöfinni og bataferlinu.

“Mér fannst svo hjálplegt og mikilvægt að Benoit hjálpaði mér á næturnar þegar ég var að gefa Soffíu. Hann vaknaði líka og hjálpaði mér við að koma mér vel fyrir með því að setja púða fyrir aftan mig og staðsetja brjóstagjafarpúðann vel. Þetta gerði mér kleift að slaka betur á og gera þessa stund enn ánægjulegri. Við værum í þessu saman”.

Marta Eiríksdóttir, annar stofnandi Brum.is

Nánar má lesa um brjóstagjöf á brum.is/saengurlega/brjostagjof

Heimildaskrá

Svipaðar færslur